Þekking

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þekking er það ástandskilja eitthvað og geta hagnýtt sér staðreyndina í einhverjum tilgangi. Það sem við getum þekkt eða vitað eru staðreyndir, sannleikur eða upplýsingar. Öflun þekkingar er nefnd lærdómur.

Skilgreining[breyta | breyta frumkóða]

Þekkingarhugtakið er tengt hugtökum á borð við skoðun, sannleika, merkingu, upplýsingum, leiðbeiningum og samskiptum.

Í þekkingarfræði, þeirri undirgrein heimspekinnar sem fæst við eðli, uppsprettu og takmörk þekkingar, er þekking jafnan skilgreind sem sönn rökstudd skoðun. Þessi skilgreining kemur fyrst fyrir í samræðunni Menon eftir Platon (en Platon hafnaði henni sem ófullnægjandi síðar í samræðunni Þeætetos). Nú er almennt talið að þetta séu nauðsynleg en ekki nægjanleg skilyrði þekkingar.

Það er umdeilt hvað telst vera þekking, fullvissa eða sannleikur. Um þessi mál deila heimspekingar, félagsvísindamenn og sagnfræðingar. Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein skrifaði Um fullvissu – stutt spakmæli um þessi hugtök – þar sem hann rannsakaði tengslin á milli þekkingar og fullvissu. Einn þráðurinn í hugsun hans hefur verið einn helsti innblásturinn að þeirri undirgrein heimspekinnar sem kallast athafnafræði.

Réttlætingarvandinn[breyta | breyta frumkóða]

Lengst af í sögu heimspekinnar var þekking talin vera skoðun sem var rökstudd og sönn og fól í sér réttlætta fullvissu. Allar skoðanir sem fólu ekki í sér réttlætta fullvissu voru nefndar einungis sennilegar skoðanir. Oft skilgreina heimspekingar þekkingu enn sem sanna rökstudda skoðun. Þekkingarfræðin er sú undirgrein heimspekinnar sem fjallar um eðli þekkingar, uppsprettu hennar og takmörk.

En hvernig getum við sýnt fram á að skoðanir okkar séu þekking? Réttlæting og vitnisburður eru hvort tveggja þekkingarfræðileg einkenni skoðana. Þau eru, með öðrum orðum, eiginleikar sem gefa til kynna að skoðun sé eða kunni að vera sönn. Við gætum reynt að nota önnur þekkingarfræðileg einkenni í skilgreiningunni á þekkingu ef við vildum. Í stað „sannrar rökstuddrar skoðunar“ eða „sannrar skoðunar ásamt vitnisburði“ gætum við sagt að þekking sé „skynsöm sönn skoðun“ eða „réttlætt sönn skoðun“. Munurinn á þessum möguleikum skiptir litlu hér. Aðalatriðið er að til þess að skoðun geti talist vera þekking, verður hún að hafa einhver jákvæð þekkingarfræðileg einkenni. Hún getur ekki verið handahófskennd, tilviljanakennd eða órökrétt. Þekkingarfræðingar fjalla um þessi efni í umfjöllun sinni um réttlætingu skoðana.

Einn þekktur skilgreiningarvandi um þekkingu er þekktur sem Gettier vandinn. Gettier vandinn verður til vegna tiltekinna gagndæma við skilgreiningu þekkingar sem sönn rökstudd skoðun. Gettier gagndæmi eru gagndæmi sem sýna að við tilteknar aðstæður getur maður haft sanna rökstudda skoðun en samt sem áður ekki búið yfir þekkingu.

Efahyggja[breyta | breyta frumkóða]

Þegar vísindamenn eða heimspekingar syrja „Er þekking möguleg?“ eiga þeir við „Hef ég einhvern tímann svo rökstudda og gulltryggða skoðun að ég geti kallað hana þekkingu?“ Heimspekilegir efahyggjumenn segja oft „nei“ eða reyna að sýna fram á að ekki fáist úr því skorið. Heimspekileg efahyggja er annaðhvort sú afstaða að þekking sé ómöguleg þar sem nægjanleg réttlæting skoðana sé ófáanleg eða að það sé ekki hægt að vita hvort þekking sé möguleg né heldur neitt annað þar sem við höfum jafnmikla ástæðu til þess að trúa og til þess að trúa ekki einhverju; og þess vegna verðum við að fresta því að fella dóma. (Sumir efahyggjumenn hafna því að fyrrnefnda afstaðan sé efahyggja, sjá Sextos Empeirikos og pyrrhonismi).

Þetta er önnur afstaða en Vísindaleg efahyggja sem er sú vinnuregla að fallast ekki á neina fullyrðingu fyrr en vitnisburður hefur fengist fyrir henni.

Félagsfræði þekkingar[breyta | breyta frumkóða]

Sumar hliðar þekkingar hafa félagsleg einkenni. Þekking er til dæmis eins konar félagsleg verðmæti. Félagsfræði þekkingar rannsakar hvernig tengslunum er háttað á milli samfélagsins og þekkingar.

Einstaklingar og menningarsamfélög auka þekkingu sína með reynslu, Athugunum og afleiðslu. Auk félagsfræði þekkingar rannsakar mannfræðin útbreiðslu þessarar þekkingar.

Aðrar skilgreiningar[breyta | breyta frumkóða]

Þekking er „upplýsingar ásamt reynslu, samhengi, túlkun og íhugun. Hún er afurð vandlegrar úrvinnslu upplýsinga sem eru tilbúnar til notkunar við ákvarðanatöku og í athöfnum.“ T. Davenport o.fl., 1998.

„Þekking sem er falin í orðum eða táknum er þekking sem hægt er að miðla á formlegu, kerfisbundnu máli. Á hinn bóginn hefur þögul þekking persónuleg einkenni sem gera að verkum að erfitt er að formgera hana og tjá hana öðrum.“ I. Nonaka, 1994

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Þekkingarþráin er öllum mönnum í blóð borin.“ Aristóteles (384-322 f.Kr.), Frumspekin I, 980a21. (þýð. Svavars Hrafns Svavarssonar)
  • „En það er einnig hægt að trúa því sem er í raun staðreynd án þess að vita það.“ Alfred Jules Ayer (1910-1989), í The Problem of Knowledge
  • „Ég dreg því þá ályktun að nauðsynleg og nægjanleg skilyrði þess að maður viti eitthvað séu í fyrsta lagi þau að það sem maður er sagður vita sé satt, í öðru lagi að maður sé viss um það og í þriðja lagi að maður hafi rétt á því að vera viss um það.“ Alfred Jules Ayer (1910-1989) í The Problem of Knowledge
  • „Ég hef ekki sagt mikið um þekkingu okkar á því sem býr hugum okkar sjálfra. Líkt og öll önnur þekking getur hún ekki verið til í einangrun frá félagslegum rótum sínum; hugmyndin um mann sjálfan sem sjálfstæða verund veltur á því að við áttum okkur á tilvist annarra, og það gerist fyrst og fremst í gegnum samskipti við aðra.“ Donald Davidson (1917-2003)
  • „Ákveðin undrun - til dæmis á frelsi, þekkingu og tilgangi lífsins - virðist mér fela í sér meiri innsýn heldur en allar hinar svonefndu lausnir við þessum vandamálum. Undrunin er ekki afleiðing mistaka í beitingu tungumálsins eða í hugsun, og það er engin von um að kantískur eða wittgensteinískur hreinleiki fáist með því að forðast ákveðnar freistandi gildrur í beitingu skynseminnar eða tungumálsins.“ Thomas Nagel (1937- ) í The View From Nowhere
  • „Er einhver þekking til í heiminum sem er svo örugg að skynsamur maður gæti ekki efast um hana? Þessi spurning, sem virðist ef til vill við fyrstu sýn ekki afar erfið viðureignar, er í raun erfiðasta spurning sem hægt er að spyrja. Þegar við höfum gert okkur grein fyrir hindrununum sem standa í vegi fyrir einföldu og öruggu svari, þá höfum við byrjað að iðka heimspeki - því heimspeki er einungis tilraun til að svara slíkum spurningum, ekki af kæruleysi eða kreddufestu, líkt og við gerum í daglegu lífi okkar og jafnvel í vísindum líka, heldur á gagnrýninn hátt, eftir að við höfum rannsakað allt sem gerir spurningar af þessu tagi erfiðar og eftir allan óskýrleikann og alla ringulreiðina sem kraumar undir hefðbundnum hversdagslegum hugmyndum okkar.“ Bertrand Russell (1872-1970), í The Problems of Philosophy
  • „Ég veit ekki einu sinni þetta eitt, að ég viti ekki neitt. Ég dreg hins vegar þessa ályktun bæði um mig og aðra menn.“ Fransisco Sanches (1551-1623) í Að ekkert er vitað (Quod nihil scitur)
  • „Við sjáum bara ekki hversu sérhæfð notkun orðanna ‚Ég veit‘ er.“ Ludwig Wittgenstein (1889-1951)
  • „Því ‚Ég veit‘ virðist lýsa stöðu mála sem tryggir það sem er vitað, tryggir að það er staðreynd. Maður gleymir alltaf orðunum „Ég taldi mig ‚vita‘.“ Ludwig Wittgenstein (1889-1951)
  • „Ég trúi því sem ég veit.“ Ludwig Wittgenstein (1889-1951)
  • „Barnið lærir með því að trúa þeim fullorðna. Efinn kemur á eftir trúnni.“ Ludwig Wittgenstein (1889-1951)
  • „Gæti einhver skilið orðið ‚sársauki‘ sem ekki hefði fundið til sársauka? - Kennir reynslan mér að svona sé því farið eða ekki? - Og ef við segjum ‚Maður gæti ekki ímyndað sér sársauka án þess að hafa fundið til einhvern tímann‘ - hvernig myndum við vita það? Hvernig fæst úr því skorið hvort það sé satt eða ekki? Ludwig Wittgenstein (1889-1951)
  • „Ég sit úti í garði með heimspekingi; hann segir hvað eftir annað ‚Ég veit að þetta er tré‘ og bendir á tré sem er nálægt okkur. Einhver annar kemur til okkar og heyrir þetta. Ég segi honum: ‚Þessi maður er ekki klikkaður. Við erum bara að stunda heimspeki.‘“ Ludwig Wittgenstein (1889-1951) í Um fullvissu

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Knowledge“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 20. október 2005.

  • Creath, Richard, „Induction and the Gettier Problem“, Philosophy and Phenomenological Research, LII, (2) (júní) 1992.
  • Feldman, Richard, „An Alleged Defect in Gettier Counterexamples“, Australasian Journal of Philosophy, 52 (1974): 68-69.
  • Gettier, Edmund, „Is Justified True Belief Knowledge?“, Analysis 23 (1963): 121-23.
  • Goldman, Alvin I., „Discrimination and Perceptual Knowledge“, Journal of Philosophy, 73.20 (1976), 771-791.
  • Hetherington, Stephen, „Actually Knowing“, The Philosophical Quarterly, 48 (193), (október) (1998).
  • Lehrer, Keith og Thomas D. Paxon, Jr., „Knowledge: Undefeated Justified True Belief“, The Journal of Philosophy, 66.8 (1969): 225-237.
  • Levi, Don S., „The Gettier Problem and the Parable of the Ten Coins“, Philosophy, 70, 1995.
  • Swain, Marshall, „Epistemic Defeasibility“, American Philosophical Quarterly, II, (I), (janúar) 1974.
  • Vefsíða Geirs Þórarinssonar. Tilvitnanir fengnar af síðunni, þýð. hans nema annað sé tekið fram.