Ígerð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ígerð í húð

Ígerð (læknisfræðiheiti: abscessus; þýðir „fjarverandi“ eða „að fara í burtu“) er afmörkuð söfnun graftar sem örverur valda oftast en einnig getur verið um að ræða aðskotahlut sem myndar holrúm í líkamsvef (svo sem flís eða byssukúlu). Graftarmyndunin er aðferð líkamans til að einangra sýkinguna og koma í veg fyrir frekari dreifingu hennar um líkaman. Ígerð getur myndast jafnt innan sem utan á líkamanum, jafnvel í líffærum eins og heilanum. Graftarmyndunin getur valdið tilfærslu eða þjöppum vefja í kring og það getur valdið sársauka.

Örverurnar eða aðskotahlutirnir drepa nærliggjandi frumur sem um leið gefa frá sér eiturefni sem veldur bólgumyndun með því að draga að sér hvít blóðkorn og auka blóðstreymi í sýkta vefnum. Gröfturinn er því samblanda af dauðum frumum, hvítum blóðkornum, örverum eða aðskotahlutum og eiturefnum sem örverurnar eða blóðkornin leysa úr læðingi. Að síðustu mynda frumurnar í kringum ígerðina svokallaðan ígerðarvegg sem einangrar sýkta svæðið enn frekar.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]