Í klandri hjá kúrekum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Í klandri hjá kúrekum (franska: Les chapeaux noirs) er þriðja bókin í bókaflokknum um Sval og Val. Hún kom út árið 1952 og innihélt sögur sem birst höfðu í teiknimyndablaðinu Sval á árunum 1949 til 1950. Höfundar sagnanna í upphaflegu útgáfunni voru listamennirnir Jije og Franquin, en þegar bókin var gefin út á Norðurlöndunum var sögunum eftir Jije sleppt. Hún var gefin út á íslensku árið 1986 og telst 22. í röðinni í íslenska bókaflokknum.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Titilsagan Í klandri hjá kúrekum (Les chapeaux noirs) segir frá ferð Svals og Vals til Bandaríkjanna til að kynna sér lífið í Villta vestrinu og skrifa um það blaðagrein. Þegar þangað er komið minnir fátt á hina æsilegu kúrekatíma. Ríkmannlegur maður hvetu þá til að fara til Tombstone, þar sem gömlu kúrekagildin lifa góðu lífi.

Í ljós kemur að bærinn er nákvæmlega eins og staðalmyndir Villta vestursins með byssubófum og einvígum. Félagarnir hika við að beita byssunum en virðast þó alltaf hitta í mark. Að lokum kemur sá ríkmannlegi og upplýsir að þorpið sé leikmynd fyrir kvikmynd, að púðurskot hafi verið í byssunum en meistaraskytta fylgt þeim á eftir og hitt í mark á laun. Allir skemmta sér vel yfir þessu, en bregður í brún þegar uppgötvast að vopnin voru í raun hlaðin raunverulegum kúlum.

Eins og fluga á vegg (Comme une mouche au plafond) eftir Jije segir frá því þegar Svalur vaknar með veröldina á hvolfi, þar sem hann gengur á loftinu. Í ljós kemur að illkvittinn töframaður Abdaka Abraka ber ábyrgð á þessu óheppilega ástandi.

Froskmennirnir (Les hommes grenouilles) eftir Jije segir frá heimsókn Svals til frönsku Rívierunnar, þar sem Valur hefur stofnsett þjónustu fyrir ferðamenn, en glæpamenn í froskmannabúningum setja strik í reikninginn.

Laumuspil við landamærin (Mystère à la frontière) segir frá viðureign Svals og Vals við hugmyndaríkara smyglara á landamærum Belgíu og Frakklands. Smyglararnir hafa komið miklu magni af skringilegu en hættulitlu eiturlyfi milli landanna. Félagarnir verða ekki síður að eyða tímanum í að þræta við hrokafullan lögreglustjóra sem vill ekkert hafa með aðstoð þeirra að gera.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Franquin hélt í langa ferð til Bandaríkjanna ásamt Jije og Morris, höfundi bókanna um Lukku-Láka, til að kynna sér aðstæður í Norður-Ameríku. Ferðafélagarnir nýttu báðir reynsluna úr ferðinni óspart í myndasögum sínum, en Franquin lét nægja að semja þessa einu sögu um ævintýri á kúrekaslóðum.
  • Þótt í Klandri með kúrekum teljist þriðja Svals og Vals-bókin til að koma út á frummálinu, voru allar sögur hennar samdar og gefnar út í teiknimyndablöðum á undan bók númer tvö í röðinni, Il y a un sorcier à Champignac.
  • Bókin kom út á Norðurlöndunum í samprenti árið 1986. Þá var ákveðið að sleppa sögunum tveimur eftir Jije, en í staðinn bætt við grein um sögu Svals og Vals eftir Anders Hjorth-Jørgensen, einn kunnasta teiknimyndasögufræðing Danmerkur. Ranglega er því tekið fram á kápu íslensku útgáfunnar að sögurnar séu eftir Jije og Franquin.
  • Á kápu íslensku útgáfunnar er einnig ranglega prentað að hún sé nr. 21 í röðinni, en það var Tímavillti prófessorinn sem kom út á íslensku sama ár.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Í klandri hjá kúrekum var gefin út af Iðunni árið 1986 í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Þetta var 22. bókin í íslensku ritröðinni.