Tokugawa Ieyasu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tokugawa Ieyasu.

Tokugawa Ieyasu (japanska 徳川 家康; 31. janúar 15431. júní 1616) var stofnandi og fyrsti sjógun Tokugawa-veldisins sem ríkti yfir Japan í næstum þrjár aldir, frá lokum Sengoku-tímabilsins um 1600 til Meiji-endurreisnarinnar 1868. Ieyasu tók völdin árið 1600, var skipaður sjógun árið 1603, sagði af sér 1605 en hélt áfram um valdataumana til dauðadags.

Ieyasu var sonur daimyos og hófst til valda í Onin-borgarastyrjöldinni. Undir lok tímabilsins náði hann samkomulagi við Toyotomi Hideyoshi sem tókst í framhaldinu að leggja allt landið undir sig. Þegar Hideyoshi lést 18. september 1598 tók barnungur sonur hans, Toyotomi Hideyori, við völdum, en stjórn landsins var í höndum ráðs fimm öldunga þar sem sá valdamesti var Ieyasu. Hann gerði bandalög við þá daimyo sem voru andsnúnir Hideyoshi og þegar einn hinna öldunganna lést réðist hann á Ósakakastala þar sem Hideyori dvaldist, og lagði hann undir sig með hervaldi 1599.

Við þetta þjöppuðu hinir þrír öldungarnir sér saman gegn Ieyasu sem sigraði her þeirra í orrustunni við Sekigahara 15. september 1600 og varð við það einvaldur í öllu landinu. Þremur árum síðar fékk hann titilinn sjógun eða herstjóri frá Go-Yozei keisara. Tveimur árum síðar sagði hann af sér og sonur hans, Tokugawa Hidetada, tók við. Ieyasu hélt samt áfram um stjórnartaumana. Síðasta andstaðan við hann kom frá Hideyori, syni Hideyoshis, sem bjó enn í Ósakakastala og safnaði um sig stuðningsmönnum sem voru andsnúnir Tokugawa-veldinu. Til uppgjörs kom í umsátrinu um Ósaka 1614-1615 sem lauk með sigri Tokugawa og dauða Hideyori.

Fyrirrennari:
Sengoku-öldin
Sjógun
(1603 – 1605)
Eftirmaður:
Tokugawa Hidetada