Set (guð)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Set og Hórus krýna Ramses 2. saman, á lágmynd frá Abu Simbel.

Set (fornegypska: St Set, Stẖ Setek, Swtḫ Sútek; forngríska: Σήθ Seþ) var eyðimerkurguð og stormguð í fornegypskum trúarbrögðum. Hann varð síðar einnig guð myrkurs og óreiðu. Hann er sýndur sem maður með höfuð óþekktrar skepnu, með langt trýni og köntuð eyru sem er kölluð setdýrið og ýmsir telja að kunni að hafa verið til. Set leikur lykilhlutverk í goðsögninni um Ósíris og Ísisi sem hinn illi bróðir sem ásælist hásæti Ósíriss. Vísað er til þessarar goðsagnar í fjölda rita allt frá tímum Gamla ríkisins. Sonur Ósíriss, Hórus, er þannig erkióvinur Sets. Báðir guðir voru dýrkaðir í Efra Egyptalandi og því hefur verið stungið upp á því að goðsögnin endurspegli átök milli tveggja hópa um yfirráð yfir landinu.

Í einni goðsögu um Ra tekur Set þátt í að sigrast á snáknum Apep en í öðrum heimildum hefur Set runnið saman við Apep og tekið yfir hlutverk hans sem guð hins illa.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]