Reykjaströnd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Séð yfir Skagafjörð til Reykjastrandar og Tindastóls.

Reykjaströnd er byggðarlag í Skagafirði vestanverðum, undir Tindastól. Reykjaströnd hefst við Gönguskarðsárós og liggur norður með endilöngu fjallinu út á svokallaðan Landsenda.

Undirlendið er ekki breitt en víða vel gróið og þarna eru þó allnokkrir bæir. Þekktastir þeirra eru Fagranes, sem lengi var kirkjustaður og prestssetur, og ysti bærinn, Reykir, sem ströndin er kennd við. Þar er Grettislaug. Á Reykjum er lítil höfn og þaðan er farið í siglingar til Drangeyjar. Þaðan var áður nokkurt útræði. Reykstrendingar höfðu áður töluverðar nytjar af Drangey og einnig voru þar nokkur hlunnindi af reka.

Áður var unnt að komast af Reykjaströnd norður fyrir Tindastól til Sævarlands á Laxárdal á stórstraumsfjöru um Fjöruveg, sem svo var kallaður, en hann er nú ófær. Einnig mátti komast um Tæpugötu uppi í fjallinu en hún er þó illfær og háskaleg. Sunnan við sveitina var svo Gönguskarðsá, sem var oft ófær og var talin hættulegasta á sýslunnar. Reykstrendingar ferðuðust því mikið á sjó þegar þeir þurftu að bregða sér af bæ.