Pervez Musharraf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pervez Musharraf
پرویز مشرف‎
Pervez Musharraf árið 2008.
Forseti Pakistans
Í embætti
20. júní 2001 – 18. ágúst 2008
ForsætisráðherraZafarullah Khan Jamali
Chaudhry Shujaat Hussain (starfandi)
Shaukat Aziz
Mian Soomro (starfandi)
Yousaf Raza Gillani
ForveriMuhammad Rafiq Tarar
EftirmaðurMuhammad Mian Soomro (starfandi)
Handhafi framkvæmdavaldsins
Í embætti
12. október 1999 – 21. nóvember 2002
ForsetiMuhammad Rafiq Tarar
ForveriNawaz Sharif (forsætisráðherra)
EftirmaðurZafarullah Khan Jamali (forsætisráðherra)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur11. ágúst 1943(1943-08-11)
Delí, breska Indlandi (nú Indlandi)
Látinn5. febrúar 2023 (79 ára) Dúbaí, Sameinuðu arabísku furstadæmunum
StjórnmálaflokkurMúslimabandalag Pakistans (Q)
MakiSehba Musharraf (g. 1968)
Börn2
StarfHerforingi, stjórnmálamaður

Pervez Musharraf (11. ágúst 1943 – 5. febrúar 2023) var pakistanskur herforingi sem var forseti Pakistans frá 2001 til 2008. Hann komst til valda eftir að hafa staðið fyrir valdaráni hersins gegn borgaralegum stjórnvöldum árið 1999. Hann útnefndi sjálfan sig forseta árið 2001 og kallaði til þjóðaratkvæðagreiðslu til að réttlæta stjórn sína árið 2002. Musharraf herti enn tökin árið 2007 með því að bola hæstaréttardómurum og herforingjum úr embætti og lýsa yfir sex vikna neyðarástandi. Hann neyddist engu að síður til að segja af sér næsta ár þegar stjórnarandstaðan hótaði því að kæra hann til hæstaréttar fyrir valdníðslu á stjórnartíð sinni. Musharraf yfirgaf Pakistan í kjölfarið og flutti til Lundúna.

Árið 2010 reyndi Musharraf að snúa aftur á stjórnmálasviðið með því að stofna nýjan stjórnmálaflokk, All Pakistan Muslim League. Hann hugðist snúa aftur til Pakistans árin 2011 og 2012 en honum var gert ljóst að ef hann stigi fæti á pakistanska grundu yrði hann handtekinn og ákærður fyrir spillingu.[1]

Musharraf dvaldi í útlegð í London og Dúbaí frá árinu 2014. Í desember árið 2019 dæmdi dómstóll í Islamabad Musharraf til dauða að honum fjarstöddum fyrir meint landráð.[2] Dauðadómurinn var ógiltur í janúar árið 2020.[3]

Bakgrunnur[breyta | breyta frumkóða]

Musharraf fæddist í Delí í þáverandi breska Indlandi og er kominn úr embættismannafjölskyldu. Hann flutti ásamt foreldrum sínum til hins nýstofnaða Pakistans við skiptingu Indlands árið 1947. Faðir hans, Syed Musharraf Uddin, gekk í pakistönsku utanríkisþjónustuna og varð síðar utanríkisráðherra landsins. Móðir hans, Zarin, varð embættismaður hjá Sameinuðu þjóðunum.

Í endurminningum sínum segir Musharraf frá því að hann hafi slasast alvarlega á unga aldri þegar hann datt úr mangótré og að þetta hafi verið fyrstu kynni hans af dauðanum.[4]

Frá 1949 til 1956 bjó Musharraf-fjölskyldan í Ankara í Tyrklandi, þar sem faðirinn vann sem erindreki. Musharraf lærði þar tyrknesku. Hann gekk síðan í kaþólskan skóla í Karachi og útskrifaðist þaðan árið 1958. Seinna gekk hann í virtan mótmælendaskóla í Lahore og tók áfanga í fjölmiðlastjórnun við Háskólann í Delí.[4]

Hernaðarferill[breyta | breyta frumkóða]

Musharraf gekk í pakistanska herinn árið 1964 og barðist gegn Indverjum í stríðum ríkjanna árin 1965 og 1971. Hann gekk síðar í hernaðarháskólann í Quetta og í Konunglega varnarfræðaháskólann í London.

Eftir að Musharraf hafði gegnt ýmsum embættum í hernum útnefndi Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, hann hæstráðanda hersins árið 1998. Næsta ár kom til átaka milli Pakistans og Indlands um umdeildu landsvæðin í Jammú og Kasmír. Kargil-stríðið milli ríkjanna endaði með því að Musharraf neyddist til að hörfa með pakistanska herinn vegna þrýstings frá alþjóðasamfélaginu.

Nokkrum mánuðum síðar, þann 12. október árið 1999, gerði Sharif sig líklegan til að leysa Musharraf úr embætti á meðan hann var á leið heim frá Srí Lanka. Herinn tók þá völdin á flugvellinum í Pakistan og tók yfir fleiri ríkisstjórnarbyggingar. Musharraf varð leiðtogi Pakistans og stofnaði til herforingjastjórnar.

Musharraf sagði af sér sem hæstráðandi hersins þann 27. nóvember árið 2007 og næstráðandi hans, Ashfaq Parvez Kayani tók við af honum.

Leiðtogi Pakistans[breyta | breyta frumkóða]

Eftir valdaránið gegn Sharif gerðist Musharraf ríkisstjórnarleiðtogi með titlinum „framkvæmdastjóri“ (e. Chief Executive) en þann 20. júní árið 2001 gerðist hann forseti Pakistans. Þrátt fyrir að lofa því að snúa smám saman aftur til borgaralegrar lýðræðisstjórnar leysti Musharraf upp pakistanska þingið árið 2002, gerði breytingar á stjórnarskrá landsins og gaf sjálfum sér vald til að útnefna hæstaréttardómara og herforingja. Leiðtogar hersins og ríkisstjórnarinnar skipuðu sérstakt Þjóðaröryggisráð ásamt Musharraf til að fara með æðstu stjórn landsins. Musharraf var kjörinn til annars fimm ára kjörtímabils sem forseti í kosningum í október sama ár, en stjórnarandstaðan sniðgekk kosningarnar og kjörsókn var undir þrjátíu prósentum.

Árið 2007 kom til átaka um tvö málefni á stjórnartíð Musharrafs sem mættu andstöðu bæði laga- og trúarleiðtoga. Annað snerist um hæstaréttardómarann Iftikhar Mohammad Chaudhry, sem Musharraf reyndi að leysa úr embætti í mars þetta ár. Brottrekstur Chaudhry leiddi til fjöldamótmæla lögfræðinga og almennra Pakistana. Hitt snerist um Rauðu moskuna í Islamabad, sem boðaði herskáan íslamisma og krafðist strangari trúarlaga í Pakistan. Pakistanski herinn gerði umsátur um moskuna í júlí 2007 vegna gruns um að hún hýsti hryðjuverkamenn.[5][6]

Þann 6. október 2007 vann Musharraf yfirburðasigur í þing- og héraðskosningum og tryggði sér annað kjörtímabil sem forseti. Hæstiréttur landsins kvað hins vegar upp þann úrskurð að ekki mætti lýsa neinn sigurvegara fyrr en útkljáð hefði verið hvort Musharraf mætti yfirleitt bjóða sig fram til forseta á meðan hann gegndi enn embætti hæstráðanda hersins.

Þann 3. nóvember 2007 lýsti Musharraf yfir neyðarástandi í Pakistan. Þann 29. nóvember hóf hann formlega annað kjörtímabil sitt í forsetaembætti, tveimur dögum eftir að hann hafði sagt upp herforingjaembætti sínu. Neyðarástandið var réttlætt með vísan til „ógnar gegn sjálfstæði landsins“. Neyðarlögunum var aflétt þann 15. desember sama ár.

Musharraf sagði af sér þann 3. ágúst árið 2008 til að forðast ákæru hæstaréttar landsins.

Ímynd og orðspor Musharrafs[breyta | breyta frumkóða]

Musharraf ásamt bandaríska utanríkisráðherranum Condoleezzu Rice í Pakistan árið 2006.

Margir áhrifamenn í Pakistan og erlendis tóku Musharraf fagnandi þar sem litið var á hann sem hófsaman leiðtoga sem gæti viðhaldið stöðugleika gagnvart spillingu og ofstækisfullum íslamisma. Hins vegar naut hann í upphafi einnig stuðnings pakistanskra íslamista, sem hafa löngum átt í góðu sambandi við her landsins.

Undir stjórn Musharrafs var Pakistan mikilvægur samstarfsaðili Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Ríkin tvö gerðu saman atlögur gegn vígjum íslamista nærri landamærum Pakistans og Afganistans. Samstarfið leiddu til þess að margir íslamistar fóru að líta á Musharraf sem svikara og að honum voru sýnd mörg banatilræði.

Á stjórnartíð Musharrafs voru Pakistanar líka sakaðir um að styðja skæruliða í indverska hluta Kasmír og hryðjuverkastarfsemi víðs vegar um Indland, meðal annars árás á borgarlínuna í Mumbai þann 11. júlí árið 2006. Musharraf var einnig sakaður um að brjóta gegn Samningnum um að dreifa ekki kjarnavopnum.

Þótt Pakistan hafi sætt harðri gagnrýni af hálfu alþjóðasamfélagsins á stjórnartíð hans gat Musharraf setið sem einræðisherra í landinu án verulegra vandræða í nærri heilan áratug. Tveir helstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar, Benazir Bhutto og Nawaz Sharif, voru í útlegð frá landinu en Pakistan náði þó lengst af að halda góðu sambandi við umheiminn. Árið 2007 magnaðist gagnrýni á stjórn Musharraf og Pakistan var meðal annars vísað úr breska samveldinu þann 25. nóvember. Stjórnarandstöðuleiðtogunum var í kjölfarið leyft að snúa aftur til landsins, en spillingarmál leiddu til þess að Sharif varð strax að yfirgefa landið á ný.

Andlát[breyta | breyta frumkóða]

Musharraf lést í Dúbaí eftir langvinn veikindi þann 5. febrúar árið 2023.[7]

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Eiginkona Musharrafs var Sebha Musharraf og átti hann með henni tvö börn. Hann var íþróttaunnandi og spilaði meðal annars skvass, badminton og golf auk þess sem hann stundaði áður kanóróður og hafði áhuga á hernaðarsögu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Pervez Musharraf decides to delay Pakistan return...again“. The Express. 27. janúar 2012. Sótt 9. september 2020.
  2. „Fyrr­ver­andi for­seti Pak­ist­an dæmd­ur til dauða“. mbl.is. 17. desember 2019. Sótt 9. september 2020.
  3. Kjartan Kjartansson (13. janúar 2020). „Dauðadómur yfir fyrrverandi forseta Pakistans ógiltur“. Vísir. Sótt 5. febrúar 2023.
  4. 4,0 4,1 Pervez Musharraf (2006). In the Line of Fire: A Memoir. Free Press. ISBN 0-7432-8344-9.
  5. Kolbeinn Þorsteinsson (11. júlí 2007). „Umsátrið um rauðu moskuna“. Dagblaðið Vísir. bls. 8-9.
  6. Kristján Jónsson (9. júlí 2007). „Segja al-Qaeda ráða í Rauðu moskunni“. Morgunblaðið. bls. 13.
  7. Bjarki Sigurðsson (5. febrúar 2023). „Pervez Musharraf er látinn“. Vísir. Sótt 5. febrúar 2023.


Fyrirrennari:
Muhammad Rafiq Tarar
Forseti Pakistans
(20. júní 200118. ágúst 2008)
Eftirmaður:
Muhammad Mian Soomro
(starfandi)