Paul von Lettow-Vorbeck

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Paul von Lettow-Vorbeck

Paul Emil von Lettow-Vorbeck (20. mars 18709. mars 1964), kallaður „Afríkuljónið“, var hershöfðingi í her Þýskalands og foringi þýska heraflans á vígstöðvunum í þýsku Austur-Afríku í fyrri heimsstyrjöldinni. Í fjögur ár tókst honum að hafa hemil á mun stærri herafla um 300.000 breskra, belgískra og portúgalska hermanna með herliði sem var aldrei fjölmennara en um 14.000 menn (þar af 3.000 Þjóðverjar og 11.000 Afríkumenn). Lettow-Vorbeck var svo til ósigraður á vígvellinum og var eini þýski herforinginn sem tókst að ráðast inn á landsvæði breska heimsveldisins í fyrri heimsstyrjöldinni. Sagnfræðingurinn Edwin Palmer Hoyt hefur lýst afrekum hans á Afríkuvígstöðvunum sem „besta skæruhernaði allra tíma.“ [1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Paul Emil von Lettow-Vorbeck fæddist inn í aðalsfjölskyldu í Saarlouis í Rínarlandi. Hann var gerður liðsforingi í her þýska keisaradæmisins árið 1890. Árið 1900 var Lettow-Vorbeck sendur til Kína ásamt herjum sjö annarra landa til að kveða niður Boxarauppreisnina. Hann var lítið fyrir að berjast gegn skæruliðum og þótti stríðið hafa slæm áhrif á agann í þýska hernum. Hann sneri aftur til Þýskalands næsta ár.

Lettow-Vorbeck var fyrst sendur til þýsku Austur-Afríku árið 1904 og átti eftir að vinna sem herforingi víðs vegar um Afríku næstu árin. Árið 1914 var hann, þá orðinn majór, sendur til Tanganjiku (þar sem nú er Tansanía) til að taka við stjórn „Schutztruppel“-herdeildarinnar. Á leiðinni þangað kynntist hann og vingaðist við danska rithöfundinn Karen Blixen. Mörgum áratugum síðar rifjaði Blixen upp um Lettow-Vorbeck: „Hann átti heima í gamla tímanum, og ég hef aldrei hitt annan Þjóðverja sem minnti mig svo sterklega á allt sem þýska keisaradæmið var og stóð fyrir.“[2]

Fyrri heimsstyrjöldin[breyta | breyta frumkóða]

Áróðursplakat frá stríðsárunum sem sýnir Lettow-Vorbeck stýra afrískum hermönnum.

Þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst gerði Lettow-Vorbeck sér grein fyrir því að átök í Austur-Afríku skiptu litlu máli í samanburði við hinar vígstöðvarnar og ætlaði því fyrst og fremst að einbeita sér að því að halda breskum hermönnum á svæðinu uppteknum og þannig koma í veg fyrir að þeir yrðu fluttir á vesturvígstöðvarnar. Í byrjun stríðsins voru aðeins um 2.600 Þjóðverjar og 2.472 Afríkumenn undir stjórn Lettow-Vorbeck.[3] Lettow-Vorbeck hunsaði skipanir þýska ríkisstjórans um að viðhalda hlutleysi afrísku nýlendanna samkvæmt samkomulagi Berlínarráðstefnunnar og bjó sig undir að verjast árás Breta á bæinn Tanga. Eftir fjögurra daga orrustu við Tanga tókst Þjóðverjum að hrekja Breta á brott. Síðan sigruðu þeir Breta í annað sinn við Jassin þann 19. janúar 1915 og komust þannig yfir mikið magn nýrra riffla og annarra nauðsynja.

Hersveitir Lettow-Vorbeck uxu ört með því að ráða til sín afríska hermenn og taldi að lokum um 14.000 manns. Lettow-Vorbeck talaði Svahílí reiprennandi og vann sér því inn virðingu og aðdáun afrískra hermanna sinna. Hann gerði afríska hermenn að liðsforingjum og sagði þeim: „Hér erum við allir Afríkumenn.“[4] „Líklega mat enginn annar hvítur herforingi þessa tíma Afríkumenn eins mikils, bæði sem hermenn og sem menn,“ segir sagnfræðingurinn Charles Miller um Lettow-Vorbeck.[5]

Í mars árið 1916 gerðu Bretar innrás með um 45.000 manna herafla ásamt Belgum. Lettow-Vorbeck notfærði sér loft- og landslag Afríku og leyfði her sínum einungis að berjast á sínum forsendum. Bretar héldu þó áfram að senda sífellt fleiri menn og neyddu Lettow-Vorbeck til að láta af hendi æ meira landsvæði. Hann hélt bardaganum engu að síður áfram og vann stórsigur í orrustu við Mahiwa í október 1917, þar sem dauðsfall Breta var um 2.700 en dauðsfall Þjóðverja aðeins 519.[6] Þegar fregnir af orrustunni bárust til Þýskalands var Lettow-Vorbeck hækkaður í tign og gerður að stórhershöfðingja.[7] Þetta var þó ekki nóg til að vinna bug á Bretaher þar sem þeir höfðu frá upphafi átt yfir miklu fleiri hermönnum að búa.

Lettow-Vorbeck neyddist til að hörfa til suðurs og hélt þann 25. nóvember 1917 inn í Mósambík, sem þá var nýlenda Portúgala. Portúgalir höfðu verið í stríði við Þjóðverja frá árinu 1916 og því gat Lettow-Vorbeck ekki fengið birgðir sendar þangað frá Þýskalandi. Hermönnum hans tókst þó að sjá fyrir nauðsynjum með því að taka þær frá portúgölskum herstöðvum; fyrst frá herstoð við Ngomano sem þeir hertóku sama mánuð og þeir komu inn í Mósambík.[8]

Lettow-Vorbeck hélt áfram skæruhernaði sínum í Afríku til loka styrjaldarinnar. Þann 14. nóvember 1918 tilkynnti breskur embættismaður honum að búið væri að semja um frið í Evrópu. Lettow-Vorbeck samdi um vopnahlé við Breta í Zambíu og fór með ósigraðan her sinn til að gefast upp fyrir Bandamönnum þann 25. nóvember.[9]

Eftir stríðið[breyta | breyta frumkóða]

Lettow-Vorbeck sneri heim til Þýskalands í mars 1919 og var fagnað sem hetju. Margar tilraunir voru gerðar til að fá stuðning hans í stjórnmálaheimi Weimar-lýðveldisins en hann hélt sig í hernum þar til hann var leystur frá störfum eftir að hafa stutt misheppnaða valdaránstilraun íhaldsmanna. Frá 1928 til 1930 starfaði fyrrverandi hershöfðinginn á þýska ríkisþinginu í stjórnmálaflokk konungssinna. Hann vantreysti mjög Adolf Hitler og hans fylgismönnum og vonaðist til þess að geta gert stjórnmálabandalag gegn Nasistaflokknum. Þegar Hitler bauð Lettow-Vorbeck að gerast sendiherra til konungshirðar Bretlands árið 1935 neitaði Lettow-Vorbeck afdráttarlaust. Eftir þetta var fylgst grannt með hershöfðingjanum það sem eftir var Nasistatímans.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Hoyt, Edwin P. Guerilla: Colonel von Lettow-Vorbeck and Germany's East African Empire, bls. 229. New York. MacMillan Publishing Co., Inc. 1981. sótt 22. júlí 2017.
  2. Farwell, The Great War in Africa, bls. 105
  3. Farwell, bls. 109.
  4. Garfield, The Meinertzhagen Mystery, bls. 85.
  5. Miller, Charles (1974), Battle for the Bundu, The First World War in East Africa p. 38.
  6. Miller, bls. 287.
  7. Hoyt, bls. 175
  8. Miller, bls. 296.
  9. Gore-Browne, Sir Stewart (1954). "The Chambeshi Memorial". Geymt 3 febrúar 2020 í Wayback Machine The Northern Rhodesia Journal, 2 (5) bls. 81–84 (1954). Sótt 22. júlí 2017.