Nafta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nafta eða nafþa er almennt heiti á eldfimum vökva úr kolvatnsefni. Nafta getur þannig átt við um ýmsa eldfima vökva sem unnir eru úr náttúrugasþéttu eða með eimingu steinolíu, tjöru eða mós. Orðið hefur í gegnum tíðina vísað til alls kyns olíuafurða eins og hráolíu og kerósens. Nafta hefur í gegnum tíðina verið notað sem eldsneyti, sem sótthreinsiefni, í lyfjagerð og ilmvatnsgerð, sem skordýraeitur og sem leysiefni. Heitið kemur upphaflega úr persnesku, نَفْت, naft, sem merkir „væta“. Hugsanlega er það dregið af nafni indóíranska guðsins Apam Napat en Vedaritin lýsa honum sem eldi sem stígur upp af vatninu. Úr persnesku kom heitið inn í grísku (νάφθα) og latínu (naphtha), arabísku (نَفْط), arameísku (ܢܰܦܬܳܐ) og hebresku (נֵפְט).

Orðið kemur fyrir í samsettu orðunum naftalín og napalm (nafta og palmitínsýra).

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.