Morris-ormurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Morris-ormurinn.

Morris-ormurinn var einn af fyrstu tölvuormunum sem dreifðu sér í gegnum Internetið og sá fyrsti sem vakti almenna athygli í fjölmiðlum. Hann var líka sá fyrsti sem leiddi til dóms samkvæmt bandarísku tölvusvikalögunum frá 1986. Ormurinn var forritaður af Robert Tappan Morris, sem þá var nemandi við Cornell-háskóla, og sendur af stað 2. nóvember 1988 úr tölvukerfi Massachusetts Institute of Technology.

Samkvæmt höfundi hans átti ormurinn ekki að valda tjóni heldur komast að því hvað Internetið væri stórt. Ormurinn nýtti sér veikleika í Unix-forritum á borð við sendmail, finger og rsh. Ormurinn olli hins vegar töluverðu tjóni þar sem vélar gátu sýkst mörgum sinnum og hvert nýtt tilvik jók álagið á tölvuna sem leiddi á endanum til þess að hún hrundi.

Ormurinn smitaðist hratt og varð til þess að Internetinu var skipt upp þar sem mörg net aftengdust því meðan þau glímdu við smit. Morris var dæmdur á grundvelli tölvusvikalaganna í málinu Bandaríkin gegn Morris. Eftir áfrýjanir var hann dæmdur í 3 ára skilorðsbundið fangelsi auk 400 tíma samfélagsþjónustu og greiðslu 10.050 dala sektar árið 1991.