Matthias Hans Rosenørn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mathias Hans Rosenørn.

Matthias Hans Rosenørn (24. nóvember 181430. mars 1902) var danskur embættismaður og stjórnmálamaður sem var stiftamtmaður á Íslandi 1847 – 1849 en þá varð hann innanríkisráðherra Danmerkur.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Hann var fæddur í Randers á Jótlandi og var sonur Peder Otto Rosenørn, sem hafði yfirumsjón með birgðahaldi og búnaði danska hersins, og konu hans Eleonoru Hellesen. Rosenørn varð stúdent frá skólanum í Sórey 1831 og lauk lagaprófi 1836. Síðan ferðaðist hann til Þýskalands og Frakklands og kynnti sér stjórnsýslu. Þegar heim kom hóf hann störf í danska kansellíinu og bjó þá um tíma hjá P.C. Stemann ráðherra, sem var faðir stjúpmóður hans, og varð fyrir áhrifum af honum en Stemann var mikill íhaldsmaður.

Stiftamtmaður og ráðherra[breyta | breyta frumkóða]

Rosenørn var skipaður stiftamtmaður á Íslandi 1. ágúst 1847 og jafnframt amtmaður í Suðuramti. Yfirleitt virðist hann hafa fengið gott orð og er í Lanztíðindum 1849 sagður afbragðsmaður að vitsmunum og iðjusemi. Þótt vera hans á Íslandi yrði ekki löng setti hann óneitanlega varanlegt mark á Reykjavík því að árið 1848 lét hann gefa öllum götum sem þá voru í bænum nöfn og tölusetja húsin við þau. Flest götunöfnin sem þá voru ákveðin haldast enn.

Hann fór til Kaupmannahafnar í embættiserindum haustið 1849 en fáum dögum eftir komuna þangað, þann 21. september, var hann útnefndur innanríkisráðherra og lét þá jafnframt af embættum sínum á Íslandi. Jafnframt sat hann á danska þinginu. Hann þótti fremur hófsamur og reyndi að fara meðalveg í helstu málum. Hann gegndi ráðherraembættinu til 13. júlí 1851 en þá fór ríkisstjórnin frá.

Amtmaður á Jótlandi[breyta | breyta frumkóða]

Rosenørn varð þá ráðuneytisstjóri um tíma og stýrði dönsku hagstofunni í nokkra mánuði en 1854 var hann skipaður amtmaður í Randers og lét þá jafnframt af þingmennsku. Hann gegndi amtmannsembættinu í rúma þrjá áratugi eða til 1885. Hann var einnig formaður stjórnar jósku járnbrautanna frá 1859 og allt til 1901. Hann sat í ríkisráði Dana 1856 – 1861 og 1860 var honum boðið að taka aftur við starfi innanríkisráðherra en afþakkaði það.

Hann hafði mikinn áhuga á sagnfræði og ritaði ýmislegt á því sviði, var formaður jóska sagnfræðifélagsins um þrjátíu ára skeið og dansk-norska ættfræðifélagsins 1885-1901. Hann gaf út æviminningar sínar 1888.

Rosenørn þótti sinna amtmannsstarfinu af einstökum dugnaði og alúð. Hann lét af embætti 1885, þá um sjötugt. Hann var útnefndur kammerjúnkari 1838, kammerherra 1850 og leyndarráð 1885. Hann var sæmdur stórkrossi Dannebrogsorðunnar 1871.

Kona hans (g. 23. nóvember 1844) var Ludovica Emilie Olrik (14. júní 1815 – 25. september 1878).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Dansk biografisk Lexikon. 14. bindi“.
  • „Frjettir. Lanztíðindi, 5.-6. tölublað 1849“.
  • „Miðbærinn fyrir einni öld. Lesbók Morgunblaðsins, 24. desember 1961“.