Hrói höttur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hrói Höttur.

Hrói höttur er persóna úr enskum þjóðsögum frá miðöldum. Sögurnar gerast á Englandi, nánar til tekið í Skírisskógi í Nottinghamshire í Englandi. Flestir sagnfræðingar eru þó á því að Hrói hafi verið fæddur í Loxley í suðurhluta York-héraðs og að hann sé grafinn í Kirkleesklaustri í vesturhluta Yorkhéraðs.

Í nýrri útgáfunum af sögunum og þeim sem þekktari eru er Hrói mikil hetja sem berst gegn óréttlæti og harðstjórn og er þekktur fyrir að stela frá þeim ríku til að gefa þeim fátæku. Hrói höttur er því orðinn eins konar staðalímynd manneskju sem er tilbúin til að gera hvað sem er, meira að segja brjóta lögin, til að aðstoða þá sem minna mega sín.

Í sögunum hefur Hrói stóran hóp fylgismanna, útlaga sem berjast með honum og styðja hann. Í nýrri útgáfum sagnanna er fógetinn í Nottingham mikill harðstjóri sem misnotar stöðu sína til að bæta eigin hag t.d. með ólögmætum eignaupptökum á landi, ofursköttum og ofsóknum á hendur hinum fátæku. Í sumum útgáfum er Jóhann prins andstæðingurinn, sem situr að völdum á meðan bróðir hans Ríkharður ljónshjarta er í krossför í landinu helga. Jóhann prins var uppi á síðari hluta 12. aldar og byrjun þeirrar 13. (f. 24. desember 1166, d. 19. október 1216). Hann var yngri bróðir Ríkharðs og tók við ríkinu eftir dauða hans. Jóhann hafði viðurnefnið lackland, sem þýðir í raun landlaus, vegna þess að sem yngsti sonur átti hann ekki tilkall til valda og erfða. Hann hefur verið nefndur Jóhann landlausi á íslensku og er í raun ekki sá þorpari og skálkur sem margar sögurnar um Hróa hött gefa til kynna. Hann er nú á tímum ef til vill frægastur fyrir að hafa undirritað Magna Carta sem minnkaði völd konungsins í Englandi og margir telja fyrstu tilburði til þess að koma á lýðræðislegum stjórnunarháttum í konungsríki.

Í elstu útgáfunum er Hrói höttur lágstéttarmaður en í þeim síðari er honum yfirleitt lýst sem aðalsmanni og landeiganda. Sumar sögurnar segja að hann hafi barist í krossferðunum en þegar hann kom heim hafi fógetinn veri búinn að yfirtaka landareign hans.

Félagar Hróa hattar[breyta | breyta frumkóða]

Í nýrri sögunum er Maríanna unnusta Hróa. Henni er yfirleitt lýst sem hugrakkri og sjálfstæðri konu af aðalsættum.

Litli-Jón er einn einn af dyggustu stuðningsmönnum Hróa. Honum er yfirleitt lýst sem risavöxnum og sterkbyggðum manni. Þegar þeir Hrói hittast í fyrsta sinn reynir Litli-Jón að koma í veg fyrir að Hrói komist yfir brú og þeir berjast um það með stöfum. Bardaginn endar á því að Litli-Jón vinnur og skellir Hróa út í ána. Eftir bardagann fellst hann hinsvegar á að ganga til liðs við Hróa og berjast með honum gegn ofríki fógetans.

Tóki munkur er einn af óvenjulegri fylgismönnum Hróa. Honum er yfirleitt lýst sem feitlögnum, kátum og vingjarnlegum munki sem er auk þess mikill sælkeri bæði á mat og vín.