Halldór Hermannsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Halldór Hermannsson (6. janúar 187828. ágúst 1958) var íslenskur prófessor, sem var lengst bókavörður við Fiske-safnið í Cornell-háskóla í Bandaríkjunum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Halldór Hermannsson fæddist á Velli á Rangárvöllum. Foreldrar hans voru Hermanníus E. Johnson (1825–1894) sýslumaður þar, og kona hans Ingunn Halldórsdóttir frá Álfhólum í Landeyjum. Þau áttu sex börn.

Halldór lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík 1898. Fór þá til Kaupmannahafnar og varð Cand. phil. 1899. Hóf svo nám í lögfræði, en réðst í desember 1899 í þjónustu Willards Fiske í Flórens á Ítalíu, til þess að sjá um Íslandsdeildina í bókasafni hans. Þegar Fiske dó, 1904, hafði hann ánafnað Cornell-háskóla í Ithaca, New York, bókasafn sitt. Fór Halldór með safnið vestur um haf og varð síðan forstöðumaður þess. Hann varð einnig kennari og síðar prófessor við háskólann uns hann náði aldursmörkum, 1948. Eitt ár, 1925–1926, var hann bókavörður við Árnasafn í Kaupmannahöfn, en fannst þröngt um sig þar undir stjórn Finns Jónssonar og fleiri, og tók aftur við fyrra starfi sínu. Hann var þó áfram í Árnanefnd í mörg ár. Það var að hans frumkvæði að Árnanefnd hóf útgáfu á ritröðinni Bibliotheca Arnamagnæana.

Sem bókavörður vann Halldór ötullega að því að efla Fiske-safnið, og hafði árið 1942 aukið það úr 8.600 bindum í tæp 22.000 bindi. Meðal fágætra bóka sem hann útvegaði safninu var íslensk eindæmabók bók frá 16. öld. Undir hans stjórn varð Fiske-safnið helsta upplýsingamiðstöð um íslensk og norræn fræði í Vesturheimi.

Árið 1905 hóf Halldór kennslu í Norðurlandamálum við Cornell-háskóla. Hann varð aðstoðarprófessor 1920 og prófessor 1924, uns hann lét af kennslu 1946. Auk tungumálakennslu, flutti hann fyrirlestra um sögu, bókmenntir og menningu Norðurlanda, og ekki síst um forníslensk fræði.

Halldór var stórvirkur fræðimaður, einkum um bókfræði og sagnfræði, og gaf út heildarskrár um Fiske-safnið, sem hafa verið mikilvæg bókfræðirit allt til þessa dags. Einnig hóf hann útgáfu á tímaritinu eða ritröðinni Islandica, þar sem hann birti sagnfræðilegar ritgerðir og ritaskrár um ýmis efni. Þessar sérskrár voru brautryðjandaverk og fjölluðu um ýmsa þætti forníslenskra bókmennta, svo sem Íslendingasögur, konungasögur, fornaldarsögur, Eddukvæði, lögbækur, Vínlandsferðirnar o.s.frv. Hafa þær reynst ómissandi handbækur fræðimanna.

Ritskrá Halldórs, eftir Stefán Einarsson, birtist í Árbók Landsbókasafns Íslands, 1957–1958. Aðgengilegri ritaskrá er í Islandica 41.

Halldór var heiðursdoktor við Háskóla Íslands 1930, heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags og Þjóðræknisfélags Íslendinga. Bréfafélagi í Vísindafélagi Íslendinga og í The Medieval Academy of America. Mörg ár í útgáfunefnd American Scandinavian Foundation, fulltrúi þess frá 1943. Hann hlaut fálkaorðuna þrisvar sinnum, þ.e. riddarakross, stórriddarakross og stórriddarakross með stjörnu. Hann var heiðraður með mynd á frímerki, sem kom út á aldarafmæli hans, 1978.

Halldór var ógiftur og barnlaus.

Helstu rit[breyta | breyta frumkóða]

Bækur
  • Catalogue of the Icelandic collection bequeathed by Willard Fiske 1, Ithaca, NY 1914, 8+755 s.
  • Catalogue of the Icelandic collection bequeathed by Willard Fiske 2, Additions 1913–1926, Ithaca, NY 1927, 10+284 s.
  • Catalogue of the Icelandic collection bequeathed by Willard Fiske 3, Additions 1927–1943, Ithaca, NY 1943, 10+295 s.
  • Catalogue of runic literature forming a part of the Icelandic collection bequeathed by Willard Fiske, London 1918, 10+105 s
  • Islandica: an annual relating to Iceland and the Fiske Icelandic collection in the Cornell University Library 1–31 og 39, Ithaca 1908–1945 og 1958. — Fyrstu 36 bindin voru ljósprentuð 1966.
Greinar

Halldór ritaði fjölmargar greinar um íslenska bókfræði og menningarsögu, sjá Ritskrá hans. Sem dæmi má nefna:

  • Willard Fiske. Eimreiðin 11, Kaupmannahöfn 1905, 104–109.
  • Skjaldarmerki Íslands. Eimreiðin 22, Kaupmannahöfn 1916, 157–175.
  • Ole Worm. Ársrit Hins íslenska fræðafélags 2, Kaupmannahöfn 1917, 42–64.
  • Sir George Webbe Dasent. Skírnir 93, Rvík 1919, 117–140.
  • Handritamálið. Skírnir 103, Rvík 1929, 1–35.
  • Þormóður Torfason. Skírnir 128, Rvík 1954, 65–94.
Afmælisrit
  • Afmæliskveðja til Halldórs Hermannssonar 6. janúar 1948, Reykjavík (1948), 12+166 s. — Sérprent úr Árbók Landsbókasafns Íslands.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Stefán Einarsson: Halldór Hermannsson.Árbók Landsbókasafns Íslands, 1957–1958, 139–152.
  • Páll Eggert Ólason: Íslenskar æviskrár 6. Rvík 1976.
  • Philip M. Mitchell: Halldór Hermannsson, Ithaca, N.Y. 1978. — Islandica 41. Ritaskrá Halldórs er á bls. 123–163.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]