Gozewijn Comhaer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gozewijn Comhaer (um 137520. júlí 1447) var Skálholtsbiskup frá 1435 eða 1437 eftir konungsskipan, en faðir hans var gullsmiður og varð myntsláttumeistari Eiríks af Pommern.

Gozewijn fæddist í Deventer í Hollandi og gekk í karþúsarregluna árið 1400. 1407 var hann kjörinn príor í klaustrinu í Zelem í Belgisch-Limburg. Sjö árum síðar hélt hann til móðurklaustursins Grande Chartreuse við Grenoble í Frakklandi. Hann ferðaðist á vegum reglunnar um Norður-Þýskaland og Danmörku og kynntist konungi í gegnum föður sinn. Hann var svo gerður að biskupi í Skálholti en heimildum ber ekki saman um hvort það var 1435 eða 1437. Svo mikið er víst að 22. nóvember 1436 gaf Hinrik 6. Englandskonungur út skjal þar sem fram kemur að Gozewijn Comhaer biskupi skuli heimilt að fara til Íslands með fylgdarliði og skipa út vistum, nauðsynjavöru til guðsþjónustuhalds, vefnaðarvöru og fleiru.

Gozewijn kom til Íslands 1437 og tveimur árum seinna hélt hann prestastefnu fyrir allt landið, þar sem biskupslaust var á Hólum; Jón Bloxwich, sem þá var biskup, kom aldrei til Íslands. Gozewijn var á landinu til hausts 1440, sigldi þá út en kom aftur 1442. Hann mun hafa ferðast mikið um landið. Í árslok 1444 hélt hann til Englands og komst þaðan til Hollands, þaðan sem hann hélt til Grande Cartreuse þar sem hann lést 1447. Á biskupstíma hans hófu Hollendingar að sigla til Íslands til að versla.

Af nafni hans eru dregin íslensku karlmannsnöfnin Gottsvin, Gottsveinn og Guðsveinn.


Fyrirrennari:
Jón Vilhjálmsson Craxton
Skálholtsbiskupar
(1437 – 1447)
Eftirmaður:
Marcellus


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Rannsóknir í Viðey. Vaxspjöld frá 15. öld finnast við uppgröft rústa Viðeyjarklausturs“.
  • Scholtens, H.J.J., „Gozewijn Comhaer, karthuizer en bisschop van IJsland, een bijdrage tot zijn biographie“, Archief voor de geschiedenis van het aartsbisdom Utrecht, dl. 52, Utrecht, 1926.
  • Piebenga, Gryt Anne, „Gozewijn Comhaer“, Spiegel Historiael, 1977.
  • Piebenga, Gryt Anne, „Gozewijn Comhaer Skálholtsbiskup 1435-1446“, Saga XXV, Reykjavík, Sögufélag, 1987, s. 195-204.