Gadsden-fáninn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gadsden-fáninn

Gadsden-fáninn er sögulegur bandarískur fáni. Fáninn er gulur að lit með mynd af skröltormi þar sem hann liggur vafinn á grasi og vísar höfuð hans upp til að sýna að hann sé tilbúinn í átök. Fyrir neðan myndina eru skrifuð orðin Don't Tread on Me („ekki ganga á mér“). Fáninn er nefndur eftir bandaríska herforingjanum Christopher Gadsden (1724 – 1805) en hann hannaði fánann árið 1775 á meðan á bandarísku byltingunni stóð. Nú til dags er fáninn tákn frjálshyggju og oft tengt við Teboðshreyfinguna.

Tilkoma fánans[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta skráða tilkoma þessa fána var árið 1775. Fyrstu landgönguliðarnir sem skráðir voru í Fíladelfíu héldu á trommum sem málaðar voru gular með mynd af vöfnum skröltormi með þréttán skröltum, einnig voru á trommunum skrifuð sömu orðin Don't Tread on Me. Á Bandaríkjaþinginu það sama ár var ofurstinn Christopher Gadsden fulltrúi Suður-Karólínu. Var hann einn af sjö meðlimum Nefndar landgöngu- og sjóliða (e. Marine Committee) sem stóðu að skipulagningu fyrsta leiðangurs flotans. Fyrir brottför þessa fyrsta leiðangurs í desember árið 1775 gaf Gadsden þáverandi hershöfðingja sjóhersins, Esek Hopkins, gula fánann með skröltorminum til þess að þjóna sem hið einstaka og persónulega merki flaggskips hans og var svo fánanum flaggað á mastur þess.

Gadsden gaf einnig þingi Suður-Karólínu í Charleston fánann þann 9. febrúar árið 1776.

Því meira sem nýlendurnar byrjuðu að samsama sig með samfélögum sínum og hugtakinu um frelsi urðu tákn sem voru sérstök fyrir Bandaríkjamenn sífellt vinsælli. Þar á meðal skröltormurinn, skallaörninn og indjánarnir. Þessir hlutir urðu svo táknrænir fyrir bandarísk gildi og samfélag.

  Þessi Bandaríkja-tengda grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.