Fossafélagið Títan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hugmynd Fossafélagsins Títans um Urriðafossvirkjun frá 1918.
Ekkert varð úr þeirri virkjun

Fossafélagið Títan (eða á dönsku Aktieselskabet Titan) var félag sem Einar Benediktsson skáld stofnaði árið 1914 ásamt fleiri aðilum til að virkja Þjórsá og fleiri íslensk fallvötn. Á árunum 1914 til 1919 aflaði félagið sér hlutafjár og vatnsréttinda með samningum við jarðeigendur og stóð fyrir rannsóknum. Norski vélfræðingurinn Gotfred Sætersmoen kom til Íslands á vegum félagsins og árin 1915 -1917 rannsakaði hann Þjórsársvæðið. Félagið gaf út bókina „Vandkraften i Thjorsá elv, Island“ árið 1918 og fjallaði hún um niðurstöður rannsókna á Þjórsársvæðinu og virkjunaráform félagsins. Fossafélagið Títan áformaði að virkja Búrfell og Urriðafoss. Alþingi hafði sett á stofn fossnefnd til að gera tillögu um framtíðarstefnu í virkjanamálum og vonuðust stjórnendur Fossafélagsins eftir því að sú nefnd yrði þeim hliðholl.

Árið 1918 var Einar Benediktsson og Fossafélagið Títan búnir að kaupa upp flest vatnsréttindi í afréttum hreppa í uppsveitum Árnessýslu. Landsstjórnin sendi þá símskeyti til allra sýslumanna og benti á að vatnsréttindi væru almenningseign og að svokölluð fossnefnd teldi alla þá sölusamninga sem hreppar hefðu gert um vatns- og landsréttindi í afréttum ólögmæta.

Árið 1927 fékk félagið leyfi til að reisa 160.000 hestafla aflstöð við Urriðafoss en ekkert varð úr framkvæmdum. Fossafélagið Títan keypti hálfa jörðina Skildinganes í því augnamiði að koma þar upp hafnaraðstöðu.

Eftirmálar af vatnsréttindakaupum[breyta | breyta frumkóða]

Fossafélagið Títan var leyst upp árið 1951 og árið 1952 keypti íslenska ríkið öll réttindi og greiddi 600 þúsund norskar krónur og 200 þúsund íslenskar krónur fyrir vatnsréttindin. Þessi vatnsréttindi voru svo lögð af Ríkissjóði til Landsvirkjunar árið 1965. Hins vegar er í úrskurði Óbyggðanefndar um eignarréttindi á Gnúpverjaafrétti frá 21. mars 2003 komist að þeirri niðurstöðu að framsal vatnsréttinda í byrjun aldarinnar hafi byggst á vanheimild og hafi því Gnúpverjahreppur ekki átt vatnsréttindin þegar þau voru seld til Títans því þau hafi verið í eigu ríkisins.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]