Eyvindarfjörður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eyvindarjörður er lítill fjörður á Ströndum sem liggur á milli Ófeigsfjarðar fyrir sunnan og Drangavíkur fyrir norðan. Samkvæmt því sem segir í Landnámabók er fjörðurinn kenndur við landnámsmanninn Eyvind Herröðarson, en bræður hans, Ingólfur og Ófeigur, námu land í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði.

Einn bær var áður í firðinum eða við mynni hans, undir Drangavíkurfjalli, en hann er löngu farinn í eyði. Í fjörðinn fellur Eyvindarfjarðará og er göngubrú yfir hana.

Árið 1787 strandaði verslunarskipið Fortuna rétt fyrir utan fjörðinn og fórst öll áhöfnin. Af því strandi urðu allmikil eftirmál því ýmsum varningi af skipinu skolaði á land og átti Halldór Jakobsson, sýslumaður Strandamanna, að hafa umsjón með björgun þess og sölu en svo vildi til að á meðal strandgóssins var töluvert af brennivíni og urðu björgunarmenn fljótt ölvaðir og sýslumaður ofurölvi. Sumt af því sem bjargaðist grotnaði niður en annað hirti Halldór sýslumaður sjálfur eða seldi á óauglýstu uppboði á strandstað á lágu verði. Honum var síðar vikið úr embætti vegna þessa máls.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Vestfjarðarvefurinn

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.