Eldfærin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eldfærin eftir H.C. Andersen. Dátinn hittir hundana.

Eldfærin er ævintýri eftir H.C. Andersen. Þar segir frá dáta nokkrum sem gömul kerling sendi inn í holt tré að sækja fyrir sig eldfæri.

Inni í trénu hitti hann fyrir þrjá hunda, hvern af öðrum, og hafði sá minnsti augu á við undirskálar, sá næsti augu á stærð við mylluhjól og sá þriðji augu á stærð við Sívalaturn. Þeir sátu á kistum fullum af peningum og fyllti dátinn alla vasa af gullpeningum úr kistu stærsta hundsins. Hann fann svo eldfærin og færði kerlingunni en þegar hún vildi ekki segja honum af hverju hún vildi fá þau afhöfðaði hann hana.

Síðan fór hann til höfuðborgarinnar og lifði í vellystingum en þegar peningarnir voru búnir datt honum í hug að nota eldfærin og þá komu hundarnir og sóttu fyrir hann hvað sem hann vildi. Dátinn lét þá fyrst sækja meiri peninga en síðan langaði hann að sjá prinsessuna, sem var lokuð inni í turni sínum til að reyna að koma í veg fyrir að sá spádómur rættist að hún giftist ótignum manni. Hann lét hundana sækja sofandi prinsessuna nótt eftir nótt en þegar komst upp um hann var honum varpað í dýflissu og átti að taka hann af lífi.

Á aftökupallinum fékk hann að kveikja sér í síðustu pípunni og þegar hann notaði eldfærin komu allir hundarnir, vörpuðu kóngi og drottningu og ráðgjöfum þeirra upp í loftið svo þau brotnuðu í mola þegar þau lentu en dátinn og prinsessan giftust og hundarnir sátu veisluna.

H.C. Andersen byggði ævintýri sitt á gömlu skandinavísku ævintýri, þar sem hermaður notar töfrakerti til að kalla til sín járnmann sem uppfyllir óskir hans, en einnig eru augljós tengsl við söguna af Aladdín úr 1001 nótt. Einnig má finna tengsl við ævintýrin um Hans og Grétu, Rapunzel og Ali Baba.

Eldfærin er eitt af elstu ævintýrum Andersens og komu fyrst út 8. maí 1835 í bæklingi með nokkrum öðrum ævintýrum, meðal annars Prinsessunni á bauninni.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]