Dóra Þórhallsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dóra Þórhallsdóttir
Dóra Þórhallsdóttir

Dóra Þórhallsdóttir (23. febrúar 189310. september 1964) var forsetafrú Íslands og eiginkona Ásgeirs Ásgeirssonar forseta Íslands.

Dóra fæddist í Reykjavík og var dóttir hjónanna Þórhalls Bjarnarsonar biskups Íslands og konu hans Valgerðar Jónsdóttur. Á meðal systkina Dóru var Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra. Dóra ólst upp í húsinu Laufás við Laufásveg 48 í Reykjavík.

3. október 1917 giftist Dóra, Ásgeiri Ásgeirssyni, guðfræðingi, alþingismanni, forsætisráðherra og öðrum forseta Íslands. Börn Dóru og Ásgeirs voru Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri, Vala Ásgeirsdóttir Thoroddsen forsætisráðherrafrú og Björg Ásgeirsdóttir sendiherrafrú.

Dóra sótti fundi ungmennafélaga á æskuárum sinum, sat í stjórn Lestrarfélags kvenna, í skólanefnd Kvennaskólans í Reykjavík og sóknarnefnd Dómkirkjunnar. Kirkjusókn var henni hugleikin sem og málefni Þjóðkirkjunnar. Dóra lagði gjarnan áherslu á að rækt yrði lögð við söngkennslu í skólum og var auk þess mikil hannyrðakona og lætur eftir sig fjölda fallegra muna.[1]

Dóra var 59 ára gömul þegar hún varð forsetafrú. Við embættistöku Ásgeirs klæddist hún íslenskum skautbúningi og hafa forsetafrúr allar götur síðan fylgt þeim sið að klæðast skautbúningi við embættistöku eiginmanna sinna.

Á fullveldisdaginn, 1. desember 1954 var hún sæmd stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu.

Dóra lést úr bráðahvítblæði í september árið 1964, rúmum mánuði eftir að fjórða kjörtímabil Ásgeirs í embætti forseta hófst.

Tilvísun[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Forsetafrúin er látin“. Tíminn. 11. september 1964.