David Lewis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vestræn heimspeki
Heimspeki 20. aldar
Nafn: David Kellogg Lewis
Fæddur: 28. september 1941
Látinn: 14. október 2001 (60 ára)
Skóli/hefð: Rökgreiningarheimspeki
Helstu viðfangsefni: Frumspeki
Markverðar hugmyndir: Hluthyggja um mögulega heima
Áhrifavaldar: Gilbert Ryle, H.P. Grice, P.F. Strawson, J.L. Austin, W.V.O. Quine, J.J.C. Smart
Hafði áhrif á: J.J.C. Smart

David Kellogg Lewis (28. september 194114. október 2001) er talinn meðal fremstu rökgreiningarheimspekinga á síðari hluta 20. aldar. Lewis fæddist í Bandaríkjunum og kenndi þar heimspeki (við UCLA og síðan Princeton) en var einnig tengdur heimspekisamfélaginu í Ástralíu sem hann heimsótti nær árlega í yfir þrjátíu ár. Hann er frægastur fyrir hluthyggju um hætti sína en einnig fyrir brautryðjendastarf sitt í málspeki, hugspeki, frumspeki, þekkingarfræði og heimspekilegri rökfræði.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Lewis fæddist í Oberlin í Ohio í Bandaríkjunum. Faðir hans var prófessor í stjórnsýslufræðum við Oberlin College og móðir hans var þekktur sagnfræðingur. Hann varð kunnur af gríðarmiklum gáfum sínum sem voru sagðar næstum ógnvekjandi. Þessa varð þegar vart á menntaskólaárum hans í Oberlin High School er hann sótti námskeið á háskólastigi í efnafræði.

Lewis hélt til Swarthmore College í háskólanám og varði ári við Oxford University (1959-1960). Þar kenndi honum Iris Murdoch og hann sótti fyrirlestra hjá Gilbert Ryle, H.P. Grice, P.F. Strawson og J.L. Austin. Þetta ár í Oxford reyndist hafa haft mikilvæg áhrif á hann er hann ákvað að leggja fyrir sig heimspekina og var snar þáttur í mótun hans sem rökgreiningarheimspekingsins sem hann var allt til æviloka. Lewis hélt til Harvard í framhaldsnám þar sem hann nam undir handleiðslu W.V.O. Quine. Hann hlaut þaðan doktorsgráðu í heimspeki árið 1967. Á árunum við Harvard mynduðust fyrst tengsl hans við Ástralíu þegar hann sótti tíma hjá ástralska heimspekingnum J.J.C. Smart. „Ég kenndi Lewis“ á Smart að hafa sagt, „eða öllu heldur kenndi hann mér.“

Heimspeki Lewis[breyta | breyta frumkóða]

Meðal mikilvægustu verka Lewis eru: Convention (1969), þar sem Lewis notaðist við hugtök úr leikjafræði til að greina eðli málvenja; Counterfactuals (1973), sem olli straumhvörfum í heimi heimspekinnar með nýstárlegri greiningu á óraunverulegum skilyrðissamböndum í ljósi kenningar um mögulega heima; og On the Plurality of Worlds (1986), þar sem Lewis setti fram og varði hluthyggju um hætti (Lewis var þá þegar farinn að sjá eftir að hafa nefnt kenningu sína svo en heitið festist við kenninguna) en kenninguna setti hann fyrst fram í Counterfactuals; í síðustu bók sinni, Parts of Classes (1991), reyndi Lewis að smætta mengjafræði í hlutafræði. Lewis gaf einnig út fimm greinasöfn með greinum sem fjölluðu um margvísleg efni innan heimspekinnar.

Lewis var mjög sykursjúkur maður mestalla ævina; ástandi hans hrakaði og leiddi að lokum til nýrnabilunar. Í júlí 2000 var grætt í hann nýtt nýra úr eiginkonu hans, Stephanie. Nýrnagjöfin gerði honum kleift að vinna og ferðast í eitt ár enn, áður en hann lést skyndilega og óvænt vegna frekari afleiðinga af sykursýki sinni þann 14. október, 2001.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

  • Convention: A Philosophical Study (London: Blackwell Publishers, 2002). ISBN 0-631-23257-5
  • Counterfactuals (London: Blackwell Publishers, 2000). ISBN 0-631-22425-4
  • Papers in Ethics and Social Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 1999). ISBN 0-521-58786-7
  • Papers in Metaphysics and Epistemology (Cambridge: Cambridge University Press, 1999). ISBN 0-521-58787-5
  • Papers in Philosophical Logic (Cambridge: Cambridge University Press, 1997). ISBN 0-521-58788-3
  • Philosophical Papers vol. 2 (Oxford: Oxford University Press, 1987). ISBN 0-19-503646-8
  • Philosophical Papers vol. 1 (Oxford: Oxford University Press, 1983). ISBN 0-19-503204-7

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tengill[breyta | breyta frumkóða]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]