Chlodwig zu Hohenlohe-Schillingsfürst

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Chlodwig zu Hohenlohe-Schillingsfürst
Kanslari Þýskalands
Í embætti
29. október 1894 – 17. október 1900
ÞjóðhöfðingiVilhjálmur 2.
ForveriLeo von Caprivi
EftirmaðurBernhard von Bülow
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. mars 1819
Rotenburg an der Fulda, Hesse
Látinn6. júlí 1901 (82 ára) Bad Ragaz, Sviss
ÞjóðerniÞýskur
MakiMarie von Sayn-Wittgenstein-Sayn
BörnPhilipp Ernst, Elisabeth Constanze Leonille, Stephanie Marie Antonie, Albert, Alexander, Moritz
Undirskrift

Chlodwig Carl Viktor, fursti af Hohenlohe-Schillingsfürst og prins af Ratibor og Corvey (31. mars 1819 – 6. júlí 1901), yfirleitt kallaður furstinn af Hohenlohe,[1] var þýskur stjórnmálamaður sem var kanslari Þýskalands og forsætisráðherra Prússlands frá 1894 til 1900. Hann hafði gegnt ýmsum embættum fyrir kanslaratíð sína: Meðal annars hafði hann verið forsætisráðherra Bæjaralands (1866–1870), sendiherra til Parísar (1873–1880), utanríkisráðherra (1880) og landstjóri Alsace-Lorraine (1885–1894). Hann var einn áhrifamesti frjálslyndi stjórnmálamaður síns tíma í Þýskalandi.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Chlodwig zu Hohenlohe-Schillingsfürst var kominn af aðalsætt sem hafði ráðið yfir furstadæminu Hohenlohe-Schillingsfürst í Heilaga rómverska ríkinu. Þegar Chlodwig fæddist árið 1819 hafði furstadæmið verið innlimað í konungsríkið Bæjaraland vegna herfara Napóleons.

Eftir ósigur Bæjara í austurrísk-prússneska stríðinu árið 1866 útnefndi Lúðvík 2. konungur Hohenlohe forsætisráðherra Bæjaralands. Hohenlohe var hlynntur samruna Bæjaralands við nýja þýska keisaraveldið, enda var þjóðerniskennd hans sem Bæjara ekki ýkja sterk. Eftir að Þýskaland sameinaðist í kjölfar fransk-prússneska stríðsins var Hohenlohe útnefndur varaforseti þýska ríkisþingsins og síðan sendiherra Þjóðverja til Parísar.

Árið 1894 féllst Hohenlohe, þá 75 ára, á beiðni Vilhjálms 2. Þýskalandskeisara um að taka við kanslaraembættinu af Leo von Caprivi. Ýmsar ástæður lágu að baki vali keisarans á Hohenlohe: Furstinn var trúr Hohenzollern-ættinni, hafði verið vinur Bismarcks og var því í náðinni hjá fjölmiðlum sem tengdust Bismarck og höfðu gagnrýnt Caprivi. Auk þess var Hohenlohe af góðum ættum sem prússnesku junkerarnir báru virðingu fyrir.

Hohenlohe lét minna á sér bera sem kanslari en forverar hans: Hann kom sjaldan fyrir þýsku þingin og leyfði ráðherrum sínum að starfa nokkuð sjálfstætt. Á kanslaratíð Hohenlohe tók fyrsta einkamálalögbók Þýskalands (Bürgerliches Gesetzbuch eða BGB) gildi. Hún er enn í gildi í dag og þykir ein sú besta sinnar tegundar.

Hohenlohe reyndi í orði kveðnu að hafa hemil á herskárri utanríkisstefnu keisarans og halda keisaranum fyrir utan borgaraleg stjórnmál en tókst ekki vel upp. Samband Þjóðverja við Breta versnaði mjög á þessum tíma vegna glannalegra ummæla Vilhjálms keisara og Hohenlohe fékk lítið að gert. Hohenlohe sagði af sér sem kanslari þann 17. október árið 1900.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Prince Hohenlohe Dead. Ex-Chancellor of Germany Expires in Switzerland. Was Eighty-two Years Old. Kaiser Likely to Postpone Trip to Norway in Order to Attend the Funeral“. New York Times. 7. júlí 1901. Sótt 26. ágúst 2018.


Fyrirrennari:
Leo von Caprivi
Kanslari Þýskalands
(29. október 189417. október 1900)
Eftirmaður:
Bernhard von Bülow