Bárður Snæfellsás

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minnisvarði um Bárð Snæfellsás

Bárður er aðalsöguhetja í fornsögunni Bárðar saga Snæfellsáss. Sagan er talin rituð á síðari hluta 14. aldar. Með sögunni hefst ný bókmenntagrein þ.e. fornaldarsögurnar sem áttu sér fornar rætur í munnlegri frásögn. Þær eru fullar af kynjaverum og alls konar ýkjum, margar þeirra eru mjög ævintýralegar. Þessar sögur voru í blóma um aldarlok 13. aldar.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Bárður er í sögunni sagður sonur Dumbs konungs og Mjallar Snæsdóttur. Dumbur konungur var kominn af risakyni í föðurætt, en tröllum í móðurætt. Í arf hafði Dumbur fengið einkenni beggja. Hann var sterkur og vænn með þægilega skapsmuni. Hann gat því haft samskipti við mennska menn. Þetta hafði hann frá risunum í föðurætt. Úr móðurætt eða frá tröllunum hafði hann það að vera sterkur og stórvirkur, umskiptasamur og illskiptinn, ef honum líkaði ekki eitthvað. Bárður Dumbsson erfði alla þessa eiginleika frá föður sínum en einnig þá mannlegu frá móður sinni. Frá henni erfði hann einnig útlitið, en hann þótti með fegurri mönnum. Aðdragandi þess að Bárður hverfur í jökulinn og fær nafnið Snæfellsás er sá að Helgu dóttur hans rekur frá landinu á ísjaka. Þátt í þessu atviki áttu bróðursynir Bárðar. Hann barðist við bróður sinn og eftir það varð hann bæði þögull og erfiður í umgengni. Bárður gaf síðan jarðir sínar og kvaddi Sigmund vin sinn með þeim orðum að sökum ættar sinnar og stórra harma ætti hann ekki skap með mönnum. Í sögunni er sagt að hann hafi flutt í stóran helli í jöklinum og það hafi verið meira í eðli hans að búa í hellum frekar en húsum.

Hollvættur í jöklinum[breyta | breyta frumkóða]

Snæfellsjökull

Í Barðar sögu kemur fram að menn álíti hann hollvætt í jöklinum og ákalli hann sér til hjálpar og hafi fyrir heitguð sinn. Jafnframt segir að hann hafi orðið mörgum á nesinu hinn mesti bjargvættur. Bárður þekktist jafnan, þegar hann sveimaði um landið, á því að hann var í gráum kufli með skinnreipi um sig, klafakerlingu í hendi og fjaðurbrodd langan og digran. Það var ekki aðeins á landi sem Bárður kom mönnum til aðstoðar í nauðum því hann bjargaði mönnum einnig úr sjávarháska. Fram kemur að Bárður hafi kunnað ýmislegt fyrir sér og getað haft stjórn á veðri til að villa um fyrir mönnum ef hann vildi fá þá á sinn fund.

Börn Bárðar[breyta | breyta frumkóða]

Bárður átti dótturina Helgu sem hvarf á ísjaka frá landi eftir leik með frændum sínum. Sagt er að hún hafi verið kvenna vænst en karlgild að afli enda komin af tröllum. Hún lenti á ísjakanum við Grænland og var þar veturlangt. Þegar hún kom til baka til Íslands undi hún ekki hjá föður sínum. Hún festi hvergi við og flæktist um landið. Bárður átti einnig soninn Gest tók kristna trú, til að bjarga sér úr ógöngum, við lítinn fögnuð Bárðar. En nóttina sem Gestur var skírður dreymdi hann að Bárður kæmi til hans og segði hann hafa gert ill að láta trú sína sem forfeður hans hefur haft. Og skyldi hann missa bæði augun fyrir þessa lítilmennsku. Þegar Gestur vaknaði fékk hann mikinn augnverk og sprungu út bæði augu hans.

Þjóðtrú tengd Bárðarsögu[breyta | breyta frumkóða]

Bárðar saga er fyrst og fremst ævintýrasaga. Ólíkt þeirri trú í öðrum Íslendingasögum að menni deyi á fjöllum þá hverfur Bárður í jökulinn í lifanda lífi, þar sem hann verður hollvættur manna sem búsettir eru kring um jökulinn. Jónas Hallgrímsson ferðaðist um Ísland sumarið 1841 og kom þá meðal annars á Snæfellsnesið. Hann segir í dagbók sinni að sagnir um Bárð lifi enn meðal fólks á nesinu í breyttu og ýktu formi og þær séu yfirleitt tengdar örnefnum kenndum við hann, svo sem Bárðarlaug og Bárðarkistu, þar sem Bárður á að hafa geymt fjársjóði sína. Þá segja sumir að hann búi enn í jöklinum og verndar íbúa í byggðarlaginu. Það hefur þótt gott að heita á Bárð. Meðal annars hafa þófarar heitið á hann. Sá siður er sagður til kominn af atviki sem á að hafa gerst á bænum Steini undir Jökli. Þangað kom maður sem kallaði sig Gest. Hann fékk næturgistingu gegn því að þæfa vaðmál. Þetta gerði hann á steininum sem bærinn dregur nafn sitt af. Menn gátu sér til að þarna hefði Bárður verið á ferð og hefur þófurum síðan þótt gott að heita á hann. Er þá hafður yfir formáli (Bárður minn á jökli) sem byrjar yfirleitt á þessa leið:

Gæsalappir

Bárður min í Jökli,
leggstu á þófið mitt;
ég skal gefa þér lóna
innan í skóna
og vettlingana á klóna.

— .

Mikið er til af sögum um fjársjóði Bárðar, bæði í Bárðarkistu og í helli hans. Það er sagt um Bárðarkistu að þangað hafi Bárður borið fé og sagt að enginn gæti opnað kistuna og notið auðæfanna er héti eftir sér, hefði sömu trú og gengi undir meri í þrjú ár. Önnur saga segir að þeir einir geti náð auðæfunum sem fæddir eru af sjötugri meykerlingu, ekki hafa nærst á öðru en meramjólk í 12 samfelld ár og ekkert gott hafa lært. Ævintýralegar sögur eru til um helli Bárðar og miklar sagnir hafa orðið til um gull og gersemar í hellinum. í Bárðarsögu hvílir mikill leyndardómur yfir hellinum. Þangað kemst enginn nema í fylgd Bárðar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Íslenzk Fornrit XIII. "Bárðar saga Snæfellsáss". Þórhallur Vilmundarson og Bjari Vilhjálmsson gáfu út. Reykjavík 1991
  • Einar Ólafur Sveinsson: Um Íslenskar þjóðsögur. Reykjavík 1940
  • Jónas Hallgrímsson: Rit III, Dagbækur, yfirlitsgreinar og fleira. Reykjavík 1933
  • Eðvarð Ingólfsson: Við klettótta strönd. Mannlífsþættir undan Jökli. Reykajvík 1983
  • Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók III, Skýrslur um Rannsóknir á Íslandi 1882-1889. Reykjavík 1959