Bastillan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bastillan í París 1789.
Bastillan séð úr austri.
Júlísúlan og Óperuhúsið við Bastillutorgið.

Bastillan (franska: La Bastille) er sögufrægt virki í París, sem reist var 1357 og var þá nefnd Bastille Saint-Antoiene. Bastillan var notuð sem fangelsi frá 1417 og varð smám saman tákn kúgunar og einveldis. Bastillan var oft kölluð fangakastalinn og hún var seinna einnig notuð sem vopnabúr en var rifin í frönsku byltingunni.

Saga Bastillunnar[breyta | breyta frumkóða]

Bastillan var byggð sem virki í París í Hundrað ára stríðinu milli Englands og Frakklands. Vinnan við virkið hófst árið 1357 og stóð fram yfir 1370. Virkið hafði átta turna og varði borgarhliðið Porte Saint-Antoine í austurhluta Parísarborgar.

Virkið var gert að ríkisfangelsi árið 1417. Loðvík 14. notaði fangakastalann fyrst og fremst fyrir menn úr hástéttum sem höfðu verið andstæðingar hans eða vakið gremju hans. Frá 1659 til 1789 var Bastillan aðallega notuð sem ríkisfangelsi þar sem samtals 5.279 fangar sátu inni. Í valdatíð Loðvíks 15. og Loðvíks 16. var fangelsinu breytt þannig að ekki aðeins fangar af efri stéttum sátu þar, heldur fleiri fangar með ýmsan bakgrunn. Þó svo að fangarnir væru í tiltölulega góðu ástandi fór gagnrýni á fangakastalann, Bastilluna, í vöxt á 18. öld. Endurbætur á kastalanum hófust þá og föngum fækkaði töluvert. Árið 1789 hafði pólítísk spenna aukist mjög í Frakklandi og 14. júlí varð bylting þar sem fjölda manna tókst að brjótast inn í Bastilluna og komast yfir dýrmæta byssupúðrið sem var geymt þar.

14. júlí 1789[breyta | breyta frumkóða]

Þann 14. júlí árið 1789 þrömmuðu Parísarbúar um götur með hrópum og háreysti. Þetta voru smákaupmenn, handiðnaðarmenn, verkamenn og atvinnuleysingjar í leit að vopnum á leið til Bastillunar. Almúginn var þrúgaður af verðbólgu og atvinnuleysi og knúði það fólk til aðgerða. Margir höfðu setið inni í fangelsi Bastillunnar fyrir það eitt að sætta sig ekki við einveldisstjórn Frakkakonungs. Bastillan var tákn um algjöra harðstjórn, kúgun og einveldi konungs, Loðvíks 16. Fólkið braust inn fyrir varnarveggina, barðist í marga klukkutíma þar til fangelsisstjórnin gafst upp og streymdi svo inn í Bastilluna. Með þessari árás var stjórnarbyltingin mikla hafin. Konungur var neyddur til að láta af áformum sínum um að beita hervaldi og varð hann að fallast á að sett yrði ný borgarstjórn í París. Frá 1880 hefur 14. júlí verið haldinn hátíðlegur sem þjóðhátíðardagur Frakka (Bastilludagurinn) vegna þess að mörgum fannst sigur Parísarbúa á Bastillunni vera tákn fyrir sigur fólksins á einveldinu og harðstjórninni.

Bastillutorgið[breyta | breyta frumkóða]

Á árunum 1789-1790 var kastalinn rifinn til grunna og í stað hans var gert torg sem kallast Bastillutorg eða Place de la Bastille. Torgið varð seinna vettvangur margra hinna stjórnmálalegu byltingahátíða. Árið 1989 þegar 200 ár voru liðin frá falli fangakastallans var þar byggt óperuhús sem ber nafnið Opéra Bastille. Svæðið í kring hefur verið endurhannað að miklu leyti, meðal annars verið gerð þar smábátahöfn. Á miðju torginu stendur minnismerkið Júlísúlan, sem var reist 1833 og er tákn fyrir byltinguna í júlí 1830 þegar Karl 10. Frakkakonungur var hrakinn frá völdum og Loðvík Filippus tók við. Nöfn þeirra Parísarbúa sem féllu í júlíbyltingunni eru grafin með gulli í turninn. Efst á turninum stendur engill sem er tákn fyrir frelsi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Bastille“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 28. mars 2012.
  • Bastille day Geymt 19 apríl 2012 í Wayback Machine
  • John T. Lauridsen, Nils A. Sorensen og Thorsten Borring Olesen, Mannkynssaga-Ný öld-upphaf nútíma (Reykjavík: Iðnú, 1994)
  • A. Sveen og S.A. Aastad, Mannkynssaga fram til 1850 (Reykjavík: Mál og menning, 1987)
  Þessi sagnfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.