Asni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Asni á beit.

Asni (fræðiheiti: Equus asinus) er hófdýr af hestaættkvísl, sem maðurinn tamdi sem húsdýr fyrir eitthvað fimm þúsund árum.[1] Einnig finnast í Afríku og Asíu villiasnar, sem er skipt í fjórar tegundir.

Líkamsbygging og lifnaðarhættir[breyta | breyta frumkóða]

Asnar eru harðgerar og sterkar skepnur, sem þola allvel þurrt loftslag í heitum löndum. Dæmigerður asni er nálægt 125 sentimetrar á hæð um axlirnar (sumir þó talsvert lægri, aðrir nokkru hærri), hefur löng eyru, sem hann er auðkenndur á,[2] og er grár að lit en heldur ljósari eða hvítur á kvið og snoppu. Hálsinn er ekki mjög langur, og asnar hafa hárbrúsk neðst á halanum. Þeir eru fótvissir og geta því ferðast um brattlendi og jafnvel fjöll. Þeir eru grasbítar en leggja sér fleira til munns, ekki síst gulrætur en jafnvel runnagróður, enda eru meltingarfæri þeirra góð. Asnar geta náð meira en 25 ára aldri, jafnvel allt að 50 ára aldri. Þeir verjast árás á sama hátt og hestar: sparka með afturfótunum, slá með framfótunum og bíta. Villiasnar eru sprettharðir. Í Asíu munu þeir á stuttri vegalengd geta náð allt að 70 kílómetra hraða á klukkustund, en í tveggja klukkustunda þolhlaupi allt að 25 kílómetra meðalhraða á klukkustund. Villiasnar eru félagslyndir og mynda oft hjarðir (einnig finnst orðið asnastóð í prentuðu máli). Áætlað hefur verið, að á jörðinni séu að minnsta kosti 44 milljónir af ösnum, ef til vill mun fleiri.[3][4][5]

Afkvæmi[breyta | breyta frumkóða]

Þriggja vikna gamalt folald.

Karldýrið kallast asni og kvendýrið asna. Hestar og asnar geta átt afkvæmi saman. Afkvæmi asna og hryssu kallast múldýr. Afkvæmi ösnu og hests kallast múlasni. Sebrahestur og asna eiga ógjarnan afkvæmi saman, þótt það hafi komið fyrir í dýragörðum.[6][7] Stungið hefur verið upp á að kalla þá dýrategund sebraasna.[8] Ösnur eru að meðaltali fylfullar í tólf mánuði og eignast eitt afkvæmi hverju sinni, sem er kallað foli eða folald.

Ösnumjólk[breyta | breyta frumkóða]

Ösnumjólk líkist móðurmjólk. Í henni er meiri mjólkursykur og minni fita en í kúamjólk. Þess vegna hefur ösnumjólk verið gefin ungbörnum, ef mæður þeirra mjólka lítið. Ösnumjólk hefur einnig verið notuð sem áburður á húðina, því að hún geri hana fallegri. Sagt er, að þeirrar skoðunar hafi verið Kleópatra drottning í Egyptalandi, Poppaea Sabina miðkona Nerós keisara og Pálína systir Napóleons keisara. Ösnumjólk er víða ófáanleg, en í sumum löndum er hún verslunarvara, til dæmis á Ítalíu.[9][10]

Notkun á ösnum[breyta | breyta frumkóða]

Asnar eru einkum hafðir til reiðar, burðar og dráttar. Hægt er að temja ösnur til að gæta sauðfjár og geita, halda bæði þessum skepnum saman og vernda þær fyrir refum, sléttuúlfum og hundum. Asnar geta tamið hestfola og kálfa að því marki að gera þá bandvana. Einnig er álitið gagnlegt fyrir hestfolöld að geta umgengist asna, þegar þau eru vanin frá mæðrum sínum. Hið sama á við órólega, sjúka og slasaða hesta. Þeir sækja styrk í skapferli asnans. Börn og fatlað fólk eiga oft auðveldara með að ríða ösnum en hestum, því að þeir eru minni, hreyfa sig hægar og fara gætilega. Ösnur eru einnig að nokkru marki notaðar til að gæta barna.[11] Dvergasnar eru vinsæl gæludýr.[12][13] Í Afganistan hafa hryðjuverkamenn reynt að koma fyrir sprengiefni á ösnum til að granda fólki.[14] Plinius eldri ritaði, að menningarvitinn Gaius Maecenas hefði látið matbúa kjöt af asnafolöldum, en eftir hans dag hafi það ekki verið álitinn góður matur.[15] Asnakjöt hefur þó lengi verið haft til matar bæði á Ítalíu, í Frakklandi og víðar en dregið hefur úr neyslu þess á síðari árum og sumstaðar hefur verið barist gegn sölu á því.[16] Á Ítalíu hefur það meðal annars verið notað í staðbundna rétti eins og pastasósuna stracotto di asino í Mantova, svo og í pylsur eins og salame di asino.[17]

Hljóð asnans[breyta | breyta frumkóða]

Sagt er, að asnar hríni, þegar þeir gefa frá sér hljóð.[18] Orðið asnagnegg finnst einnig í ritmálssafni hjá Orðabók Háskólans. Þeir eru ekki alltaf lágværir í tjáskiptum sínum.[19]

Asnar í bókmenntum og listum[breyta | breyta frumkóða]

Í dæmisögum Esóps koma asnar á allmörgum stöðum fyrir. Í eitt skiptið bjargar asni sér með hyggindum úr klóm úlfs, en oftar eru atvik ösnunum ekki til sóma eða hamingju. Rómverski rithöfundurinn Apuleius ritaði seint á annarri öld bókina Gullni asninn (Asinus Aureus) og lét aðalsöguhetjuna Lucius í upphafi bókar breytast í asna. Á líkan hátt lét William Shakespeare höfuðið á einni persónu í leikritinu Draumur á Jónsmessunótt breytast í asnahöfuð. Carlo Collodi lét í bók sinn um Gosa óþæga stráka breytast í asna.

Á helgimyndum má sjá heilagan Antóníus frá Padúa með asna, sem bar svo til, að hann prédikaði eitt sinn iðrun og afturhvarf fyrir bónda nokkrum. Sá skeytti því engu, og hóf þá Antóníus á loft helgaða hostíu. Þegar asni eða múlasni bóndans sá það, kraup hann frammi fyrir kennimanninum, og þá fyrst snérist bónda hugur.[20][21] Jesús Kristur er sýndur á helgimyndum frá pálmasunnudeginum sem ríðandi inn í Jerúsalem á ösnu.[22][23][24] Sömuleiðis eru María mey og Jesúbarnið sýnd á helgimyndum ríðandi á asna á flóttanum til Egyptalands.[25][26][27] Enn eitt myndefni úr Biblíunni er af því, þegar asna Bíleams hafði vit fyrir honum á ferðalagi, svo að engill Drottins dræpi hann ekki með sverði sínu. En Bíleam sá ekki það, sem hún sá, og barði hana þrisvar sinnum, þangað til Drottinn lauk upp munni hennar, svo að hún gat talað við húsbónda sinn.[28][29][30]

Löggjöf um asna[breyta | breyta frumkóða]

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákvað með reglum nr. 504/2008 frá 6. júní 2008, að gefa skuli út vegabréf handa öllum ösnum, sem eiga heima innan sambandsins eða flytja þangað frá öðrum löndum. Folöld fá þó ekki skilríki sín útgefin fyrr en þau ná sex mánaða aldri.[31][32]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Science Daily 28. júlí 2010. Skoðað 19. október 2010.
  2. Bjarni Vilhjálmsson og Óskar Halldórsson: Íslenzkir málshættir, 2. útgáfa, bls. 13, Reykjavík 1979.
  3. Encyclopedia of Creation Science: Donkey Geymt 18 október 2010 í Wayback Machine. Skoðað 19. október 2010.
  4. Den store danske @ Gyldendal: Æsler. Skoðað 19. október 2010.
  5. a – z animals: Donkey. Skoðað 19. október 2010.
  6. Illustreret videnskab IV nr. 7/2006 s. 10. Skoðað 19. október 2010.
  7. a – z animals: Zonkey. Skoðað 19. október 2010.
  8. Jón Már Halldórsson: „Af hverju er ekki hægt að temja sebrahesta?“. Vísindavefurinn 2.9.2005 Geymt 15 júlí 2011 í Wayback Machine. Skoðað 19. október 2010.
  9. Latte DI Asina Geymt 25 júní 2011 í Wayback Machine. Skoðað 20. október 2010.
  10. Lait d’ânesse, une véritable fontaine de jouvence @ Aquadesign (2006) Geymt 30 maí 2010 í Wayback Machine. Skoðað 19. október 2010.
  11. Robinson Ranch, Madisonville, Texas Geymt 30 október 2010 í Wayback Machine. Skoðað 21. október 2010.
  12. Miniature Mediterranean Donkey Association. Skoðað 21. október 2010.
  13. National Miniature Donkey Association. Skoðað 21. október 2010.
  14. Fox News 8. júní 2006. Skoðað 21. október 2010.
  15. Naturalis Historia, bók VIII, kafli XLIII.
  16. BBC News 23. júní 2002. Skoðað 23. október 2010.
  17. Pellegrino Artusi: Science in the Kitchen and the Art of Eating Well. New York 1997.
  18. „Hestar hneggja, hundar gelta og kettir mjálma, en hvað gera til dæmis asnar, fílar, selir og gíraffar?“. Vísindavefurinn.
  19. Screaming Donkey @ YouTube (helmits, 2007). Skoðað 19. október 2010.
  20. Antonius Patavinus @ Helgisetur. Skoðað 19. október 2010.
  21. Olíumálverk eftir Jósef yngri Heintz í Basilica dei Santi Giovanni e Paolo, Venezia @ Web Gallery of Art. Skoðað 21. október 2010.
  22. Matteusarguðspjall, 21. kapítuli.
  23. Trérista frá 1511 eftir Albrecht Dürer í British Museum, London @ Web Gallery of Art. Skoðað 21. október 2010.
  24. Freska frá ca. 1305 eftir Giotto di Bondone í Cappella Scrovegni, Padova @ Web Gallery of Art. Skoðað 21. október 2010.
  25. Matteusarguðspjall, 2. kapítuli, 21. vers.
  26. Málverk frá um 1450 eftir Fra Angelico í Museo di San Marco, Firenze @ Web Gallery of Art. Skoðað 21. október 2010.
  27. Málverk eftir Herri met de Bles í Государственный Эрмитаж í Sankti Pétursborg @ Web Gallery of Art. Skoðað 21. október 2010.
  28. Fjórða Mósebók, 22. kapítuli.
  29. Rembrandt van Rijn: Málverk frá 1626 í Musée Cognacq-Jay, Paris @ Web Gallery of Art. Skoðað 21. október 2010.
  30. Myndskreyting úr Saltara heilags Lúðvíks (ca. 1260) í Bibliothèque Nationale, Paris @ Web Gallery of Art. Skoðað 21. október 2010.
  31. Europa Kommissionen í Danmark, tilkynning frá 9. júní 2008. Skoðað 21. október 2010.
  32. Lex Europa 32008R0504. Skoðað 21. október 2010.

Heimildir, ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu