Amtmaður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Amtmaður var æðsti embættismaður í amti, stjórnsýslueiningu sem var við lýði í ýmsum þýskumælandi löndum. Þessi titill var tekin upp samhliða einveldinu í Dansk-norska ríkinu árið 1662 um leið og lén voru lögð niður. Ólíkt lénsmanni sem heyrði beint undir konung og bar ábyrgð á landvörnum og skattheimtu, bar amtmaður aðallega ábyrgð á löggæslu og dómsvaldi í héraði. Á Íslandi voru amtmenn skipaðir frá árinu 1684 (lénið Ísland var lagt niður eftir lát Henriks Bjelke) til ársins 1904.

Á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Amtmaður yfir öllu Íslandi var skipaður 21. apríl 1688. Skipun amtmanns má rekja til stjórnkerfisbreytinga sem urðu í danska ríkinu við einveldistökuna 1661 en þá fékk konungur óskorað vald yfir öllum þegnum sínum og réð og rak embættismenn. Stjórnsýslan varð miðstýrðari og var danska ríkinu skipt í ömt sem var stjórnað af launuðum embættismönnum, amtsmönnum. Ríkisráð og stéttarþing voru aflögð en í staðinn komið á fót eða endurskipulagðar stjórnardeildir (kollegier) en þar voru helstar kansellí og rentukammer.

Breytingar á stjórnsýslu Íslands voru í nokkurm skrefum. Síðasti lénsherra Íslands var Henrik Bjelke en hann lést 1683. Landfógeta var veitt leyfisbréf 16. maí. 1683 og leysti hann fógeta Bjelke af hólmi. Ári seinna 26. janúar 1684 var skipaður stiftamtmaður (stiftbefahlingsmann) yfir Íslandi. Hann kom í stað höfuðsmanns sem sat í Kaupmannahöfn og var áður æðsti fulltrúi konungsvalds á Íslandi. Í embætti stiftamtmanns var sett 5 ára gamalt barn en það var Ulrik Christian Gyldenløve sem var launsonur konungs. Vegna aldurs stiftamtmannsins þurfi annan mann til að vinna starfið og varð það ekki fyrr en árið 1688 og nefndist sá amtmaður og varð fulltrúi stiftamtmannsins.

Skrifræði og eftirlit varð meira, og stjórnsýsla tók mið af hugmyndum um hagsýsluveldi (kameralisma).

Amtmaður heyrði undir stiftamtmann á tímabilinu 1684-1872 og undir landshöfðingja á tímabilinu 1872-1904. Embætti amtmanns og landshöfðingja voru lögð af þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904.

Amtmaður átti að vera búfastur á Íslandi og hafa umsjón með löggæslu, dómsmálum og kirkjumálum í fjarvist stiftamtmanns og eftirlit með veraldlegum embætismönnum. Sá sem fyrstur var skipaður í þetta embætti var Christian Müller, danskur maður, og varð hann áður langt leið illa þokkaður af landsmönnum fyrir þjösnaskap og embættisglöp.

Yfirstjórn allra landsmála eftir upptöku amtmannsembættis var í Kaupmannahöfn og lágu fjármálin og atvinnumálin oftast undir Rentukammerið sem kallað var, en dómsmál og landsstjórnarmál undir Kansellíið og gengu svo þaðan til konungs. Var þetta mikil breyting, því að áður hafði höfuðsmaðurinn einn haft allan veg og vanda af landsstjórninni og staðið beinlínis undir konungi. Alþingi Íslendinga fór upp frá þessu síhnignandi, og lögum og réttarfari var breytt á ýmsa lund eftir útlenskri fyrirmynd, en konungur tók sjálfur að skipa biskupa og lögmenn í embætti, sem áður höfðu vanalega verið kosnir af landsmönnum, og voru þetta allt saman afleiðingar af einveldinu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi stjórnmálagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.