„Spánn“: Munur á milli breytinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efni eytt Efni bætt við
mEkkert breytingarágrip
Alexbot (spjall | framlög)
Lína 173: Lína 173:


{{Tengill GG|es}}
{{Tengill GG|es}}

[[krc:Испания]]


[[ace:Seupanyo]]
[[ace:Seupanyo]]
Lína 271: Lína 269:
[[kk:Испания]]
[[kk:Испания]]
[[kl:Spanien]]
[[kl:Spanien]]
[[km:ប្រទេសអេស្ប៉ាញ]]
[[kn:ಸ್ಪೇನ್]]
[[kn:ಸ್ಪೇನ್]]
[[ko:스페인]]
[[ko:스페인]]
[[krc:Испания]]
[[ks:Spēna]]
[[ks:Spēna]]
[[ku:Spanya]]
[[ku:Spanya]]

Útgáfa síðunnar 18. maí 2010 kl. 19:07

Reino de España
Fáni Spánar Skjaldarmerki Spánar
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Plus Ultra
Þjóðsöngur:
Marcha Real
Staðsetning Spánar
Höfuðborg Madrid
Opinbert tungumál spænska (kastillíska)
(katalónska, baskneska og galisíska eru einnig opinber tungumál í sumum héruðum.)
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur
Forsætisráðherra
Jóhann Karl I
Jose Luis Rodríguez Zapatero
Evrópusambandsaðild 1. janúar 1986
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
50. sæti
504.030 km²
1,04
Mannfjöldi
 • Samtals (2007)
 • Þéttleiki byggðar
28. sæti
45.061.274
88,39/km²
VLF (KMJ) áætl. 2005
 • Samtals 1.141.000.000 millj. dala (11. sæti)
 • Á mann 27.522 dalir (27. sæti)
VÞL 0,938 (19. sæti)
Gjaldmiðill Evra (€) (EUR)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Þjóðarlén .es
Landsnúmer +34

Spánn[1] (spænska: España) er konungsríki á Íberíuskaga í Suðvestur-Evrópu. Lönd sem liggja að Spáni eru Portúgal að vestan og Frakkland að austan. Auk þess er örríkið Andorra í Pýreneafjöllum á landamærum Spánar og Frakklands. Syðst á Spáni er kletturinn Gíbraltar, sem er lítið landsvæði undir yfirráðum Breta. Að norðaustan liggur Biskajaflói að Spáni, Atlantshafið að suðvestan og að sunnan er Gíbraltarsund og svo Miðjarðarhafið að suðaustan og austan. Syðsti oddi Spánar er jafnframt syðsti oddi meginlands Evrópu. Þar er smábær sem heitir Tarifa. Hann er á nákvæmlega 36°N. Hið opinbera heiti landsins er Konungsríkið Spánn (Reino de España). Spáni tilheyra Baleareyjar í Miðjarðarhafi (Majorka, Menorka og Íbísa), Kanaríeyjar í Atlantshafi og útlendurnar Ceuta og Melilla í Norður-Afríku. Landið er rúmlega 500.000 ferkílómetrarflatarmáli, eða um það bil fimm sinnum stærra en Ísland. Á Spáni búa um 45 milljónir manna.

Stærstu borgir Spánar eru höfuðborgin, Madríd og Barselóna. Í Madríd búa um 5,5 milljónir manna og tæpar 5 í Barselóna. Spánn er fornfrægt menningarríki. Arabar og Berbar lögðu hluta af Spáni undir sig á miðöldum og voru þar kallaðir Márar. Miklar minjar eru um dvöl þeirra á Spáni, meðal annars Alhambrahöllin. Barselóna þykir mjög athyglisverð fyrir nútímabyggingarlist og ber þar helst að nefna Antonio Gaudí, en byggingar hans eru víða í borginni.

Spánn var einræðisríki undir stjórn Franciscos Franco einræðisherra frá 1939 til 1975. Jóhann Karl 1. hefur verið konungur Spánar frá 1975.

Saga

Á Spáni hafa fundist elstu merki um menn frá forsögulegum tíma í Evrópu frá því fyrir meira en milljón árum síðan. Krómagnonmenn komu inn á skagann fyrir 35.000 árum síðan. Þekktustu minjar um menn frá þessum tíma eru meðal annars hellamálverkin í Altamira í Kantabríu sem eru frá því um 15.000 f.Kr..

Helstu þjóðirnar á Spáni í fornöld voru Íberar, sem settust að við Miðjarðarhafsströndina í austri, og Keltar, sem settust að við Atlantshafsströndina í vestri. Að auki bjuggu þá Baskar í vesturhluta Pýreneafjalla. Aðrir þjóðflokkar byggðu svo suðurströndina þar sem nú er Andalúsía. Föníkar og Grikkir stofnuðu nýlendur á Miðjarðarhafsströndinni og verslun blómstraði með málma úr námum á Spáni.

Rómaveldi

Á 3. öld f.Kr., undir lok Annars púnverska stríðsins, lögðu Rómverjar undir sig nýlendur Karþagóbúa á Spáni og náðu brátt yfirráðum yfir öllum Íberíuskaganum. Rómversk yfirráð stóðu í hálft árþúsund og höfðu varanleg áhrif á tungumál, menningu og siði íbúanna. Meðal þess sem Rómverjar komu á voru stórjarðeignir undir yfirráðum lends aðals sem framleiddu landbúnaðarvörur fyrir heimsveldið. Hispanía var rómverskt skattland. Henni var upphaflega skipt í tvennt; Hispania Citerior (norðausturhluti skagans) og Hispania Ulterior (suðvesturhluti skagans). Síðar skipti Ágústus keisari skaganum í þrjú skattlönd: Hispania Baetica (höfuðborg Córdoba), Hispania Lusitania (höfuðborg Mérida) og Hispania Citerior (höfuðborg Tarragona).

Vesturgotar

Með hnignun Vestrómverska keisaradæmisins á 5. öld lögðu germanskir þjóðflokkar, Svefar, Vandalar og að lokum Vesturgotar, Íberíuskagann undir sig. Konungar Vesturgota voru að nafninu til undirkonungar (patrisíar) sem ríktu í nafni Rómarkeisara. Þeir gerðu Tóledó að höfuðborg. Á þeim tíma efldust menningarleg og trúarleg kaþólsku kirkjunnar mikið þótt Vesturgotar væru arískt kristnir eða heiðnir fram til loka 6. aldar þegar konungur þeirra tók upp kaþólska trú.

al-Andalus

Múslimskir Márar og Arabar frá Norður-Afríku lögðu nánast allan Íberíuskagann undir sig á aðeins sjö árum 711 til 718 undir stjórn Úmajada. Veldi Vesturgota, sem þá var margklofið vegna deilna um ríkiserfðir, kom engum vörnum við og síðasti konungurinn Roderic lést í bardaga. Innrásarherinn stofnaði ríkið al-Andalus. Þegar Abbasídar tóku völdin af Úmajödum árið 750 stofnaði einn af prinsum Úmajada í útlegð, Abd-ar-Rahman 1., sjálfstætt emírat í Córdoba og neitaði að beygja sig undir yfirráð Abbasída. Undir yfirráðum Abd-al-Rahman 3. sem lýsti sig kalífa á 10. öld gengu Córdoba og al-Andalus í gegnum blómaskeið þar sem þau nutu menningarlegra og viðskiptalegra tengsla við Arabaheiminn, en héldu samt sem áður sjálfstæði gagnvart kalífatinu í Bagdad.

Reconquista

Ferdinand og Ísabella við fótskör Maríu meyjar.

Í upphafi 11. aldar klofnaði ríkið hins vegar í mörg sjálfstæð ríki eftir borgarastyrjöld. Kristnu smáríkin í norðaustri, León, Kastilía og Baskaland tóku að sækja í sig veðrið við endurheimt Spánar (Reconquista) einkum undir stjórn Alfons 6. sem varð konungur bæði Kastilíu og León árið 1072. Múslimsku konungarnir óskuðu þá eftir aðstoð frá Almoravídum sem ríktu yfir Marokkó. Þeir lögðu öll múslimsku ríkin á skaganum, nema Saragossa, undir sig 1094. Áður höfðu kristnu ríkin lagt Tóledó undir sig. Almóhadar tóku við völdum í Marokkó af Almóravídum á 12. öld en náðu ekki að standast framrás kristnu konunganna sem lögðu meirihluta skagans undir sig í röð átaka á 13. öld. Portúgal varð til þegar Afonsó 1. lýsti sig konung Portúgals árið 1139. Eina ríkið sem eftir var undir stjórn Múslima var Granada á syðsta odda skagans. Marínídum tókst ekki að leggja al-Andalus undir sig með innrásum á 13. og 14. öld.

1469 gengu konungsríkin Aragón og Kastilía í konungssamband með hjónabandi Ísabellu af Kastilíu og Ferdinands af Aragón. Ferdinand og Ísabella lögðu Granada undir sig sama ár og Kristófer Kólumbus kom til Nýja heimsins í leiðangri sem þau fjármögnuðu. Þau hófu líka skipulegar ofsóknir á hendur Márum og Gyðingum á Spáni og stóðu fyrir stofnun Spænska rannsóknarréttarins.

Gullöld Spánar

Með sameiningu ríkjanna Aragón, León, Kastilíu og Navarra var grundvöllur lagður að nútímaríkinu Spáni og Spænska heimsveldinu sem náði hátindi sínum undir stjórn Karls 5. sem var samtímis konungur Spánar og keisari hins Heilaga rómverska ríkis frá 1519 til 1556. Með honum komust Habsborgarar til valda á Spáni. 1580 varð Filippus 2. Spánarkonungur einnig konungur Portúgals sem sameinaði þessi tvö heimsveldi í eitt konungssamband til ársins 1640. Spánn og Portúgal lögðu á þessum tíma undir sig Rómönsku Ameríku, meirihluta Karíbahafsins og einokuðu auk þess verslun við Afríku og Austur-Indíur. Gullöld Spánar er venjulega talin frá 1492 til 1659.

Flotinn ósigrandi leggur upp frá Spáni.

Þegar á 16. öld tók þessu mikla heimsveldi að hnigna. Englendingar og Frakkar sóttu gegn nýlendum Spánar í Nýja heiminum, bæði með sjóránum gegn skipum sem fluttu góðmálma til Spánar og eins með launverslun við nýlendurnar sem Spánn reyndist ófær um að sjá fyrir nauðsynjum. Mikið flæði gulls og silfurs frá Nýja heiminum olli síðan óðaverðbólgu á Íberíuskaganum sem skaðaði efnahag Spánar enn frekar. Tilraun Filippusar 2. til að sýna Englandi í tvo heimana með Flotanum ósigrandi 1588 mistókst herfilega og Hollendingar sögðu sig úr lögum við Spán 1585 og rændu hverri höfninni af annarri frá Portúgölum í Austur-Indíum.

Þrjátíu ára stríðið 1618 til 1648, þar sem Spánverjar reyndu að leggja Holland aftur undir sig, hafði slæm áhrif á efnahag landsins. Portúgal sagði sig úr konungssambandinu 1640 og Spánn varð að gefa Frakklandi eftir landsvæði með Pýreneasáttmálanum 1659 eftir tíu ára styrjöld milli ríkjanna. Eftir Spænska erfðastríðið 1701-1714 missti Spánn svo öll landsvæði sín í Evrópu utan Íberíuskagans til annarra ríkja og frönsk konungsætt, Búrbónar, tók við völdum.

19. öldin

Dos de mayo eftir Francisco de Goya.

Spánn réðist inn í Frakkland í kjölfar Frönsku byltingarinnar en beið ósigur og varð að lokum leppríki Napoléons 1795. Sama ár lýsti Spánn yfir stríði á hendur Bretlandi og Portúgal (sem höfðu gert bandalag). Hörmulegt efnahagsástand leiddi til afsagnar Karls 4. 1808 og Joseph Bonaparte, bróðir Napoléons, tók við völdum. 2. maí sama ár hófst uppreisn gegn hinum erlenda konungi sem markar upphafið að Sjálfstæðisstríði Spánar. Frakkar voru hraktir frá völdum á Spáni 1814. Kreppa Spánar í upphafi 19. aldar leiddi líka til missis nær allra nýlendnanna í Ameríku. 1898 braust Spænsk-bandaríska stríðið út sem leiddi til missis Filippseyja, Gvam og Púertó Ríkó í hendur Bandaríkjanna og sjálfstæðis Kúbu.

20. öldin

Franco ásamt Dwight D. Eisenhower Bandaríkjaforseta í Madríd 1959.

Í upphafi 20. aldar tók Spánn stuttlega þátt í kapphlaupinu um Afríku og lagði undir sig Miðbaugs-Gíneu, Vestur-Sahara og Spænsku Marokkó. Alræðisstjórn Miguel Primo de Rivera 1923-1931 leiddi til stofnunar Annars spænska lýðveldisins sem gaf Baskalandi, Galisíu og Katalóníu sjálfsstjórn að hluta og konum kosningarétt. 1936 braust Spænska borgarastyrjöldin út. Hún stóð til 1939 og lyktaði með sigri Falangista undir stjórn Francisco Franco hershöfðingja. Franco kom á flokksræði á Spáni sem byggðist á áherslu á hefðbundin þjóðleg gildi, andkommúnisma og kaþólska trú.

Spánn var hlutlaus í Síðari heimsstyrjöldinni og eftir ósigur Öxulveldanna var landið einangrað í efnahagslegu og stjórnmálalegu tilliti. Með tilkomu Kalda stríðsins varð landið mikilvægt sem bandamaður Bandaríkjamanna og efnahagslífið blómstraði á 7. áratugnum. Við lát Francos 1975 tók Jóhann Karl 1. við völdum sem konungur Spánar. Lýðræði var aftur komið á með nýrri stjórnarskrá 1978 þrátt fyrir andstöðu margra gamalla stuðningsmanna Francos sem meðal annars reyndu að gera herforingjabyltingu árið 1981.

2002 tók Spánn um evru sem gjaldmiðil í stað peseta. Mikill efnahagsuppgangur einkenndi fyrstu ár 21. aldar á Spáni með tilheyrandi verðhækkunum neysluvara og hækkunum á húsnæðisverði.

Landafræði

Kort sem sýnir ólíkt veðurfar á Spáni.

Spánn er 504.782 km² að stærð, 51. stærsta land heims, álíka stórt og Frakkland og fimm sinnum stærra en Ísland. Í vestri á landið landamæri að Portúgal og í suðri að breska yfirráðasvæðinu Gíbraltar og Marokkó við spænsku borgirnar Ceuta og Melilla á norðurströnd Afríku. Í norðaustri liggja landamæri Spánar og Frakklands eftir Pýreneafjöllunum þar sem einnig er smáríkið Andorra. Spáni tilheyra eyjaklasarnir Kanaríeyjar í Atlantshafi undan vesturströnd Norður-Afríku og Baleareyjar í Miðjarðarhafinu austan við Spán. Að auki ná yfirráð Spánar yfir nokkrar óbyggðar eyjar Miðjarðarhafsmegin við Gíbraltarsund. Lítil útlenda, Llívia, er innan Frakklands í Pýreneafjöllunum.

Stærstur hluti meginlands Spánar er háslétta og fjallgarðar á borð við Sierra Nevada. Þaðan renna helstu árnar, Tagus, Ebró, Duero, Guadiana og Guadalquivir. Flóðsléttur er að finna meðfram ströndinni, þá stærstu við Guadalquivir í Andalúsíu.

Veðurfar á Spáni er mjög mismunandi eftir landsvæðum. Gróflega má skipta því í þrennt: Milt meginlandsloftslag ríkir inni á skaganum, Miðjarðarhafsloftslag við austurströndina og úthafsloftslag í Galisíu og við Biskajaflóa í norðvestri.

Stjórnsýsluumdæmi

Spánn skiptist í sautján sjálfstjórnarhéruð (comunidades autónomas) og tvær sjálfstjórnarborgir (ciudades autónomas) - Ceuta og Melilla á norðurströnd Afríku.

Að auki skiptist Spánn í fimmtíu sýslur. Sjö sjálfstjórnarhéruð eru aðeins ein sýsla: Astúrías, Baleareyjar, Kantabría, La Rioja, Madríd, Múrsía og Navarra. Að auki skiptast sum héruðin sögulega í nokkrar sveitir (comarcas). Lægsta stjórnsýslustigið eru sveitarfélögin.

Sjálfsstjórnarhéruðin eru:

Fáni Nafn Nafn á spænsku Höfuðstaður
Andalúsía Andalucía Sevilla
Aragón Aragón Saragossa
Astúrías Principado de Asturias Oviedo
Baleareyjar Illes Balears Palma
Baskaland Euskal Herria Vitoria
Extremadúra Extremadura Mérida
Galisía Galicia Santiago de Compostela
Kanaríeyjar Islas Canarias Las Palmas/Tenerife
Kantabría Cantabria Santander
Kastilía-La Mancha Castilla-La Mancha Toledo/Albacete
Kastilía og León Castilla y León Valladolid/Burgos/León
Katalónía Catalunya Barcelona
Madríd Madrid Madríd
Múrsía Región de Murcia Múrsía/Cartagena
Navarra Comunidad Foral de Navarra Pamplóna
La Rioja La Rioja Logroño
Valensía País Valencià Valensía (borg)

Efnahagslíf

Fjármálahverfið AZCA í Madríd.

Samkvæmt gögnum Alþjóðabankans er hagkerfi Spánar það níunda stærsta í heimi og það fimmta stærsta í Evrópu. Verg landsframleiðsla var áætluð 1.362 milljarðar bandaríkjadala árið 2007 og VLF á mann miðað við kaupmáttarjöfnuð var áætluð 33.700 bandaríkjadalir sama ár sem er hærra en Ítalía og svipað og Japan og Frakkland. Spænska hagkerfið hefur verið í stöðugum vexti síðustu ár, öfugt við hagkerfi hinna stóru Vestur-Evrópuríkjanna sem hafa nánast staðið í stað.

Hagkerfi Spánar er dæmigert þjónustuhagkerfi þar sem nær 65% vinnuafls vinnur við þjónustu, 30% við iðnað og rúm 5% við landbúnað.

Spáni tókst, undir hægri-ríkisstjórn José María Aznar að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins fyrir upptöku evrunnar sem kom í stað pesetans fyrir almenn viðskipti árið 2002. Atvinnuleysi var 7,6% árið 2006 sem telst framför miðað við um 20% atvinnuleysi snemma á 10. áratugnum. Helstu vandamál eru stórt neðanjarðarhagkerfi og há verðbólga. Spænska hagkerfið óx mikið vegna alþjóðlegra hækkana á húsnæðisverði í byrjun 21. aldar og hlutur byggingariðnaðar af vergri landsframleiðslu var 16%. Um leið hefur skuldastaða heimilanna versnað.

Menning

Áhrif spænska heimsveldisins: Lönd þar sem spænska er opinbert tungumál.

Menning Spánar á rætur að rekja til þeirra ólíku þjóða sem hafa byggt Íberíuskagann frá örófi alda, frá Keltum og Íberum, til Rómverja, Vesturgota, Berba og Araba. Fyrir utan basknesku eru þau tungumál og mállýskur sem töluð eru á Spáni rómönsk mál, afleiðing af 500 ára yfirráðum Rómverja. Opinbert tungumál alls staðar á spáni er kastillíska en önnur tungumál, s.s. katalónska, baskneska og galisíska hafa opinbera stöðu.

Um 75% Spánverja eru rómversk-kaþólskir en 20% telja sig trúlausa.

Á heimsveldistíma Spánar varð spænsk tunga og spænsk menning, þar með talið kaþólsk trú, ríkjandi menning í nýlendum Spánar um allan heim. Þessa sér enn stað í Rómönsku Ameríku, Filippseyjum í Kyrrahafinu og Miðbaugs-Gíneu í Afríku.

Spánn er í öðru sæti (á eftir Ítalíu) yfir þau lönd sem hafa flestar færslur á Heimsminjaskrá UNESCO; 40 færslur.

Tilvísanir

  1. Beygingarlýsing íslensks nútímamáls

Snið:Tengill ÚG Snið:Tengill ÚG

Snið:Tengill ÚG

Snið:Tengill ÚG

Snið:Tengill GG