„Davíð Oddsson“: Munur á milli breytinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efni eytt Efni bætt við
Fjarlægi "Forystuhæfileikum hans hefur oft ...". "oft" þarf eitthvað aðeins meira en tilvísun í bloggið hjá HHG
Lína 124: Lína 124:
* [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1043434 ''Davíð Oddsson''; grein í Morgunblaðinu 13. okt. 2005]
* [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1043434 ''Davíð Oddsson''; grein í Morgunblaðinu 13. okt. 2005]
* [http://www.ruv.is/frett/samstarfserfidleikar-hofdu-ahrif ''Samstarfserfiðleikar höfðu áhrif''; af Rúv.is 12. apríl 2010]
* [http://www.ruv.is/frett/samstarfserfidleikar-hofdu-ahrif ''Samstarfserfiðleikar höfðu áhrif''; af Rúv.is 12. apríl 2010]
* [http://blog.eyjan.is/larahanna/files/2010/04/DV_100416_Nærvera_Daviðs.jpg ''Nærvera Davíðs hafði vond áhrif''; grein úr DV 2010]
'''Verk og greinar eftir Davíð Oddsson'''
'''Verk og greinar eftir Davíð Oddsson'''
* [http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3529801 ''Losað um greipar dauðans''; smásaga, birtist í Lesbók Morgunblaðsins 2002]
* [http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3529801 ''Losað um greipar dauðans''; smásaga, birtist í Lesbók Morgunblaðsins 2002]

Útgáfa síðunnar 21. apríl 2010 kl. 09:41

Davíð Oddsson
Mynd:Davidoddsson.jpg

Fæðingardagur: 17. janúar 1948 (1948-01-17) (76 ára)
Fæðingarstaður: Reykjavík
Flokkur: Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðisflokkurinn
Þingsetutímabil
1991-2003 í Reykv. fyrir Sjálfstfl.
2003-2005 í Reykv. n. fyrir Sjálfstfl.
= stjórnarsinni
Embætti
1991-2004 Forsætisráðherra
2004-2005 Utanríkisráðherra
Tenglar
Æviágrip á vef Alþingis

Davíð Oddsson (fæddur 17. janúar 1948) er íslenskur lögfræðingur og ritstjóri Morgunblaðsins.[1] Davíð er einn sigursælasti og vinsælasti, en um leið umdeildasti, stjórnmálamaður Íslandssögunnar. Hann var forsætisráðherra Íslands frá árinu 1991 til ársins 2004 lengst allra, en var einnig borgarstjóri í Reykjavík frá árinu 1982 til 1991, utanríkisráðherra frá 2004 til 2005 og formaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 1991 til 2005. Davíð gegndi stöðu aðalbankastjóra Seðlabankans 2005 til 2009. Davíð hefur einnig vakið athygli sem smásagnahöfundur, leikskáld og textahöfundur.

Fjölskylda, menntun og störf fram að stjórnmálaferli

Davíð Oddsson fæddist í Reykjavík, þótt hann dveldist fyrstu árin á heimili móðurforeldra sinna á Selfossi. Foreldrar hans eru Oddur Ólafsson (f. 11. maí 1914, d. 4. janúar 1977) barnalæknir og Ingibjörg Kristín Lúðvíksdóttir (f. 28. apríl 1922) ritari. Faðir hans var af hinni kunnu Briemsætt, og voru þeir Oddur og Gunnar Thoroddsen fjórmenningar. Eftir að Davíð fluttist til Reykjavíkur, ólst hann upp með móður sinni og móðurömmu. Davíð íhugaði að fara í leiklistarnám til Japan en varð ástfanginn af Ástríði, sem hann seinna giftist, og lauk hann því stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1970.[2] Þar var Davíð inspector scholae (formaður nemendafélagsins) í sjötta bekk en hann hefur sagt frá því að í skólanum töldu menn að hann hefði „blekkt þá til fylgis við mig; ég hefði klæðzt eins og vinstri maður, hárgreiðslan var eins og á vinstri manni og svo talaði ég eins og vinstri maður“.[3] Geir H. Haarde varð inspector scholae næst á eftir honum. Davíð lék aðalhlutverkið 1969 í leikritinu Bubba kóng eftir A. Jarry í Herranótt Menntaskólans, en það var líka sýnt í sjónvarpi. [4] Leikur Davíðs vakti athygli Sveins Einarssonar sem réði hann sem leikhúsritara Leikfélags Reykjavíkur árin 1970-2.[2]

Davíð kvæntist 5. september 1970 Ástríði Thorarensen (f. 20. október 1951), og eiga þau einn son, Þorstein Davíðsson (f. 12. nóvember 1971). Davíð hóf lögfræðinám við Háskóla Íslands haustið 1970. Jafnframt sá hann í tvö sumur um hinn vinsæla gamanþátt Matthildi í útvarpinu ásamt skólabræðrum sínum og vinum Þórarni Eldjárn og Hrafni Gunnlaugssyni. Hann var einnig blaðamaður á Morgunblaðinu með námi og sat í stjórnum Stúdentafélags Reykjavíkur, Sambands ungra sjálfstæðismanna og Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu. Á námsárum sínum þýddi Davíð bókina Eistland - Smáþjóð undir oki erlends valds eftir eistneska blaðamanninn Anders Küng. Davíð náði kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur 1974 og vann meðfram því sem útgáfustjóri Almenna bókafélagsins 1975. Eftir að hann lauk lagaprófi 1976 gerðist hann skrifstofustjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur og varð síðan framkvæmdastjóri þess 1978.

Borgarfulltrúi og borgarstjóri

Mynd:Perlan.jpeg
Perlan var reist að frumkvæði Davíðs Oddssonar

Davíð skipaði níunda sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1974 og náði kjöri. Í kosningabaráttu sinni beitti Davíð þeirri nýbreytni að halda opinn fund við verslunarmiðstöðina Glæsibæ.[5] Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta sínum í borgarstjórn Reykjavíkur í kosningunum 1978 og, eftir að Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, hætti afskiptum af borgarmálum og settist á þing, varð Davíð leiðtogi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Hann sigraði Albert Guðmundsson naumlega í harðri baráttu í prófkjöri um efsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1982. Undir forystu Davíðs vann Sjálfstæðisflokkurinn aftur meirihluta í borgarstjórn.[6][7] Eitt fyrsta verk Davíðs sem borgarstjóri var að fækka borgarfulltrúum úr 21 í 15, en flokkarnir þrír, sem mynduðu meirihluta í borgarstjórn 1978-1982, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur, höfðu fjölgað þeim.[8]

Davíð hafði árin 1972-76 verið einn af útgefendum tímaritsins Eimreiðarinnar ásamt Þorsteini Pálssyni, Magnúsi Gunnarssyni, Geir H. Haarde, Kjartani Gunnarssyni, Brynjólfi Bjarnasyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og fleirum. Vildi „Eimreiðarhópurinn“ sveigja stefnu Sjálfstæðisflokksins í átt til frjálshyggju og sótti hugmyndir til hagfræðinganna Ólafs Björnssonar og Jónasar Haralz hér á landi og Miltons Friedman og Friedrichs A. von Hayek erlendis.[9] Skömmu eftir að Davíð varð borgarstjóri, hafði hann forgöngu um það, að Bæjarútgerð Reykjavíkur var sameinuð einkafyrirtækinu Ísbirninum, en síðan var hið nýja fyrirtæki, sem bar nafnið Grandi selt. Var Brynjólfur Bjarnason forstjóri Granda. Má segja, að með þessu hafi „einkavæðing“ íslensks atvinnulífs hafist. Bæjarútgerðin hafði verið rekin með tapi mörg ár á undan.

Davíð veitti afnot af Höfða, móttökuhúsi borgarstjórnar Reykjavíkur, þegar þeir Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, og Mikhail Gorbatsjof, leiðtogi Ráðstjórnarríkjanna, hittust á sögulegum fundi sumarið 1986. Davíð beitti sér einnig fyrir því, að Reykjavíkurborg eignaðist verulegt land í Grafarvogi, og myndaðist þar mikil byggð, en árin á undan hafði verið lítið framboð á lóðum. Hann lét gera við Viðeyjarstofu, sem ríkið hafði gefið Reykjavík á tvö hundruð ára afmæli borgarinnar 1986.[10] Hann hóf einnig framkvæmdir við ráðhús við Tjörnina og veitingahúsið Perluna í Öskjuhlíð þrátt fyrir harða gagnrýni. Hann veitti einnig Leikfélagi Reykjavíkur ríflegan stuðning við smíði Borgarleikhússins í nýja miðbænum við Kringluna. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í kosningunum 1986 og 1990.

Forsætisráðherra

Davíð Oddsson hafði verið kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1989.[11] Skömmu fyrir landsfundinn 1991 tilkynnti Davíð, að hann gæfi kost á sér til formanns, en Þorsteinn Pálsson hafði gegnt þeirri stöðu frá 1983.[12] Var formannskjörið tvísýnt, en Davíð hlaut nauman sigur. Undir forystu Davíðs bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig miklu fylgi í þingkosningunum 1991 frá því, sem verið hafði fjórum árum áður.

Stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995

Eftir kosningarnar 1991 myndaði Davíð á stuttum tíma ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem hefur verið kölluð „Viðeyjarstjórnin“. Varð Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, utanríkisráðherra. Stjórnin kvaðst berjast við mikinn „fortíðarvanda“, sem fælist í hallarekstri á ríkissjóði, tómum sjóðum vegna misheppnaðra fjárfestinga í fiskeldi og loðdýrarækt og hættu á verðbólgu. Með aðhaldi í fjármálum og peningamálum tókst að halda verðbólgu í skefjum, en það auðveldaði stjórninni leikinn, að aðilar vinnumarkaðarins höfðu gert svonefnda „þjóðarsátt“ árið 1990 um hóflegar launahækkanir. Einnig voru ýmsir opinberir sjóðir lagðir niður, svo sem Framkvæmdasjóður, Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingarsjóður og strangar reglur settar um Byggðasjóð. Eitt fyrsta verk stjórnarinnar að ráði þeirra Davíðs og Jóns Baldvins var að viðurkenna á ný sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens, eftir hrun Sovétríkjanna, og varð Ísland fyrst ríkja til þess að gera.

Halla í rekstri ríkisins var á nokkrum árum snúið í afgang, sem síðan var notaður til að lækka skuldir. Aðstöðugjald var fellt niður og tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 50% í 30% í því skyni að skapa atvinnulífinu betri skilyrði, en vegna minnkandi afla á Íslandsmiðum og óhagstæðrar verðlagsþróunar á alþjóðavettvangi var nokkurt atvinnuleysi fyrstu ár hinnar nýju stjórnar. Atvinnulífið opnaðist einnig verulega, þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994. Í sjávarútvegi var kvótakerfið svonefnda — kerfi varanlegra og framseljanlegra aflakvóta — fest í sessi með margvíslegri löggjöf. Nokkur ágreiningur var þó milli stjórnarflokkanna, því að Alþýðuflokkurinn vildi taka upp auðlindagjald eða sölu veiðileyfa, en Davíð taldi, að það myndi raska rekstri útgerðarfyrirtækja um of. Jafnframt hóf ríkisstjórnin sölu ríkisfyrirtækja eða „einkavæðingu“. Alþýðuflokkurinn vildi þó ekki samþykkja sölu viðskiptabankanna tveggja í ríkiseigu.

Stjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995-2004

George W. Bush og Davíð Oddsson í Hvíta húsinu í júlí 2004

Alþýðuflokkurinn hafði klofnað 1994, þegar Jóhanna Sigurðardóttir gekk úr honum og stofnaði Þjóðvaka. Ríkisstjórnin hélt þó meiri hluta sínum í kosningunum 1995, en aðeins með einu atkvæði. Davíð myndaði því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og varð Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra.[13][14] Davíð sagði á blaðamannafundi sumarið 1995, að kreppu síðustu ára væri lokið og góðæri tekið við. Við tók mikill vöxtur í atvinnulífinu næstu ár. Einnig voru tveir ríkisbankar seldir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, og mörg önnur opinber fyrirtæki. Sala bankanna sætti nokkurri gagnrýni, aðallega vegna þess að kaupendur Búnaðarbankans voru taldir tengjast Framsóknarflokknum, en ríkisendurskoðandi komst að þeirri niðurstöðu í sérstakri skýrslu, að ekkert hefði verið athugavert við hana. Davíð Oddsson gaf út smásagnasafnið Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar 1997, en þegar hann varð fimmtugur 1998, kom út mikið afmælisrit eftir fjölda manns, helgað honum. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í þingkosningunum 1999, þótt hann hefði haft stjórnarforystu í átta ár. Davíð gaf út annað smásagnasafn 2002, Stolið frá höfundi stafrófsins.

Samskipti Davíðs og ýmissa frammámanna úr viðskiptalífinu hafa oft verið stirð. Þar má nefna Jón Ólafsson, sem oft er kenndur við Skífuna, og Jón Ásgeir Jóhannesson og aðra stjórnendur Baugs, en Jónarnir hafa báðir sakað Sjálfstæðisflokkinn um óeðlileg afskipti af fyrirtækjum sínum. Davíð hefur á móti látið í ljós áhyggjur af fákeppni á matvörumarkaði, þar sem Baugur hefur stóra hlutdeild, og einnig vegna eignarhalds sama fyrirtækis í stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins (sem nú heitir Dagsbrún hf.). Í kosningunum vorið 2003 tapaði Sjálfstæðisflokkurinn talsverðu fylgi. Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin þingmeirihluta sínum, og sömdu stjórnarflokkarnir um að halda samstarfi sínu áfram, og tæki Halldór Ásgrímsson við stöðu forsætisráðherra eftir eitt og hálft ár. Var ákveðið að ráðast í frekari skattalækkanir. Tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður í 18%, eignarskattur var felldur niður og erfðaskattur stórlega lækkaður. Tekjuskattur einstaklinga var einnig lækkaður.

Davíð beitti sér vorið 2004 fyrir frumvarpi, sem setti hömlur við eignarhaldi stórfyrirtækja á fjölmiðlum og samþjöppun eignarhalds. Fjölmiðlafrumvarpið svonefnda var mjög umdeilt, enda blasti við að það myndi aðallega bitna á Norðurljósum hf. (nú Dagsbrún hf.), fjölmiðlafyrirtæki sem var að stórum hluta í eigu Baugsfeðga. Frumvarpið var samþykkt eftir talsverðar breytingar sumarið 2004. En forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, synjaði frumvarpinu staðfestingar og var það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins að forseti synjaði frumvarpi frá Alþingi staðfestingar. Davíð gagnrýndi þá ákvörðun bæði vegna persónulegra tengsla forsetans við Baug og einnig vegna þess að stjórnarskrárákvæðið sem hann beitti væri í raun óvirkt þar sem lög hafa aldrei verið sett um hvernig framkvæma eigi þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem mælt er fyrir um í því. Eftir nokkurt þóf samþykkti Alþingi að taka frumvarpið aftur, og varð því ekki úr þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Skömmu eftir þessar málalyktir greindist Davíð með krabbamein í nýrum og hálsi, en hann náði fullum bata og tók við stöðu utanríkisráðherra haustið 2004.

Utanríkisráðherra

Í utanríkismálum hefur var Davíð eindreginn stuðningsmaður vestræns varnarsamstarfs og bandamaður Bandaríkjanna, en ekki hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann gegndi stöðu utanríkisráðherra þó aðeins í eitt ár, því að haustið 2005 tilkynnti hann, að hann myndi ekki gefa kost á sér til formanns í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi, sem þá var framundan, og hætta um leið afskiptum af stjórnmálum. Kvaðst hann vilja rýma fyrir yngri mönnum. Geir H. Haarde, sem verið hafði varaformaður, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og tók við stöðu utanríkisráðherra, en Davíð var skipaður aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands af Halldóri Ásgrímssyni sem þá var orðinn forsætisráðherra í stað Davíðs.

Seðlabankastjóri

Í september árið 2005 tilkynnti Davíð að hann hygðist hætta í stjórnmálum og taka við stöðu seðlabankastjóra sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði hann í. Hann sagði af sér embætti ráðherra 27. september og tók við stöðu seðlabankastjóra 25. október sama ár. Sem seðlabankastjóri hefur hann oft verið talsmaður óvinsælla ákvarðana Seðlabanka Íslands um hækkanir á stýrivöxtum vegna verðbólguþrýstings á íslenskt efnahagslíf árin 2005 og 2006. Einnig hefur hann gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir skort á aðhaldi við þær aðstæður sem efnahagslífið bjó við.

Þáttur Davíðs í Bankahruninu

Sem seðlabankastjóri var Davíð afar áberandi þegar efnahagskreppa reið yfir Ísland um haustið 2008. Hann kom að umdeildum samningum við stjórnendur Glitnis um kaup ríkisins á 75% hlut í bankanum, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti, eftir að bankinn leitaði til seðlabankans um lán til þrautavara.

Þann 7. október 2008 kom Davíð fram í viðtali í Kastljósi RÚV. Þar kom fram að hann teldi íslensku krónuna eiga góða möguleika á að rétta úr kútnum í þeim ólgusjó sem hún væri í um þær mundir. Hann talaði um þá sem hann kallaði „óreiðumenn“ sem íslenska ríkið gæti ekki borgað skuldir fyrir. Davíð sagði það gott að eiga góða vini í Rússlandi og sá enga meinbugi á því að taka risalán hjá Rússum til að styrkja gjaldeyrisforðann. Hann hélt því skýrt fram að íslenska þjóðin myndi ekki borga erlendu skuldir bankanna. Hann taldi mögulegt að skilja að innlendar og erlendar skuldir íslensku bankanna og greiða aðeins 5 til 15 % af erlendu kröfunum, svipað og Bandaríkjamenn hefðu gert þegar bandaríski bankininn Washington Mutual fór í þrot.

Til marks um þá aðdáun sem höfð er á Davíð er hann sá stjórnmálaleiðtogi sem Íslendingar treysta best til þess að leiða sig út úr kreppunni samkvæmt könnun sem Viðskiptablaðið lét gera fyrir sig í október 2009, rúmu ári eftir hrunið.[15]

Áhrif og umsagnir

Í skoðanakönnunum, á meðan Davíð Oddsson gegndi forystuhlutverki í stjórnmálum, 1991-2005, var hann oft talinn vinsælasti stjórnmálamaðurinn, en einnig oft hinn óvinsælasti á sama tíma.[heimild vantar] Hann naut óskoraðs trausts flokkssystkina sinna og var á landsfundum jafnan kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með nær öllum greiddum atkvæðum. Í stjórnartíð hans gerbreyttist atvinnulífið, varð miklu frjálsara og opnara en áður, þótt auðvitað séu til ýmsar skýringar á því aðrar en frumkvæði Davíðs eins, til dæmis svipuð þróun víða um heim og aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Af stuðningsmönnum sínum hefur hann verið hann kallaður hugrakkur, röggsamur og skörulegur, skjótur til ákvarðana og hiklaus að segja álit sitt, hvort sem öðrum líkaði betur eða verr. Gagnrýnendur segja hann hinsvegar vera ráðríkan, reiðigjarnan og langrækinn, og hefði það komið fram í deilum hans við Jón Ólafsson og Baugsfeðga. Hallgrímur Helgason rithöfundur birti 21. janúar 2003 grein um „bláu höndina“ í Morgunblaðinu, þar sem hann lét að því liggja, að Davíð ætti einhvern þátt, hugsanlega óbeinan, í lögreglurannsókn á Baugi, sem hafði hafist nokkrum mánuðum áður. Algeng gagnrýni á hann er að á valdatíma hans hafi tekjuskipting orðið ójafnari, ekki væri skeytt um lítilmagnann og allt mælt á vogarskálum arðsemi.

Í áramótaávarpi 2002 tilkynnti Davíð að ríkisstjórnin hefði hug á að kaupa Gljúfrastein af ekkju Halldórs Laxness og opna þar safn til „að heiðra minningu skáldsins“, eins og það var orðað. Varð svo og ríkissjóður greiddi talsverða fjárhæð fyrir húsið og listaverk, sem þar voru innanstokks. (Látið var liggja að því að ekkja Halldórs „gæfi“ aðra innanstokksmuni og húsgögn til væntanlegs safns.) Sumarið 2003 hófust umfangsmiklar endurbætur og viðgerð á húsinu, sem lauk haustið 2004 og safnið var síðan opnað með pompi og prakt.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2003, hélt 9. febrúar 2003 ræðu í Borgarnesi, þar sem hún varpaði fram þeirri spurningu, hvort lögreglurannsóknin á Baugi og skattrannsókn á Jóni Ólafssyni tengdist því, sem hún taldi fjandskap Davíðs í garð einstakra athafnamanna. Stuðningsmenn Davíðs, til dæmis Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sem heldur úti vefsíðu um stjórnmál, hafa vísað þessu harðlega á bug og halda fram að áhyggjur Davíðs af atvinnulífinu hafi verið almenns eðlis. Þær hafi verið um það, að tryggja verði frjálsa samkeppni og dreifingu hagvaldsins.

Í kjölfar meðferðar gegn krabbameini á Landspítala 2004 tilkynnti Davíð að hann hefði hug á að nota fé sem fékkst við sölu Símans til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Varð það fljótlega samþykkt af ríkisstjórninni og eitt af síðustu verkum Davíðs sem forsætisráðherra var að tilkynna byggingu nýja hátæknispítalans. Í framhaldi var rykið dustað af 30 ára gömlum hugmyndum um færslu Hringbrautar til suðurs, sem hófust árið eftir.

Davíð Oddsson í miðlum

  • Meðan Davíð Oddsson var forsætisráðherra og síðar Seðlabankastjóri var hann oft skopskældur í Spaugstofunni, en sá sem lék hann oftar en aðrir var Örn Árnason. Oft var einnig gert grín að Davíð í Áramótaskaupum Sjónvarpsins, eins og árið 2001, t.d. með laginu „Dabbi kóngur“ (sjá myndband) og árið 2002.
  • Í apríl 2008 sagði Davíð í ræðu á ársfundi Seðlabankans að til álita kæmi að gera alþjóðlega rannsókn á því sem hann kallaði tilræði við heilbrigð fjármálakerfi, og sagði að nú stæði yfir atlaga óprúttinna aðila gegn íslenska ríkinu og innlendum bönkum. [16]
  • Davíð kom í viðtal í Kastljósi RÚV 25. febrúar 2009 og ræddi m.a. aðkomu sína og Seðlabankans að Bankahruninu.
  • Í mars 2009 var Davíð Oddsson valinn versti Seðlabankastjóri í Evrópu af Dagens Nyheter í Svíþjóð, og sagt að hann kenndi öllum um það sem illa fór nema sjálfum sér. [17]
  • Í ágúst 2009 sagði Anne Sibert, hagfræðiprófessor við Birkbeck College í London, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, að Davíð Oddsson hefði ekki búið yfir nægilegri þekkingu í hlutverki sínu sem Seðlabankastjóri til að koma í veg fyrir bankahrunið. [18]
  • Í byrjun desember 2009 skrifaði Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, grein í Pressuna og vildi vita hvort Davíð hefði sem seðlabankastjóri gerst sekur um umboðssvik með því að veita stórfelld lán til gjaldþrota bankakerfis. Sigurður taldi fróðlegt að fá upplýst hversu háar fjárhæðir Seðlabankinn hafi lánað bönkunum á árinu 2008 þegar þeir voru að hruni komnir líkt og Davíð átti að hafa sagt við Geir H. Haarde allt fram að þjóðnýtingu Glitnis. Sigurður tók fram að endurfjármögnun ríkissjóðs á Seðlabanka Íslands hafði verið 581 milljarðar króna, en af þeirri fjárhæð mætti rekja um 270 milljarða króna til tapaðra veðlána bankans til hérlendra fjármálafyrirtækja í bankastjóratíð Davíðs Oddssonar. [19] [20]
  • Þremur dögum áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út, komu fréttir um það á Vísi.is að Davíð Oddsson væri farinn úr landi og segir þar: Í ljósi þess að Davíð var seðlabankastjóri þegar bankahrunið varð og nokkra mánuði eftir hrunið þá má gera ráð fyrir því að drjúgur hluti skýrslunnar muni fjalla um hans embættisverk. [21]

Tilvísanir

  1. „Nýir ritstjórar til starfa“. 25. október 2009.
  2. 2,0 2,1 „Við straumhvörf“. Morgunblaðið. 13. október 2005.
  3. „Við straumhvörf“. Morgunblaðið. 13. október 2005.
  4. „„Þú ert sjálfur guðjón bak við tjöldin". Morgunblaðið. 26. janúar 1969.
  5. „„Uppákoma" við Glæsibæ“. 11. maí 1974.
  6. „Það getur oltið á þér - heimsókn til Davíðs Oddssonar og fjölskyldu“. Morgunblaðið. 20. maí 1982.
  7. „„Byrjum á að gera úttekt í fjármálunum". Dagblaðið Vísir. 24. maí 1982.
  8. „Fækkun borgarfulltrúa skal keyrð í gegn“. Þjóðviljinn. 24. maí 1982.
  9. „Eimreiðarhópurinn stefndi aldrei að valdatöku í Sjálfstæðisflokknum“. Þjóðviljinn. 17. desember 1983.
  10. „Viðgerðir í Viðey“. Alþýðublaðið. 19. ágúst 1986.
  11. „Víðtæk samstaða í flestum hinna tuttugu málefnanefnda“. Morgunblaðið. 10. október 1989.
  12. „Kapphlaupið í himnastiganum“. Morgunblaðið. 3. mars 1991.
  13. „Meirihlutinn með Alþýðuflokknum væri of knappur“. Dagblaðið Vísir. 19. apríl 1995.
  14. „Ríkisstjórnarskipti tveimur vikum eftir kosningar“. Morgunblaðið. 25. apríl 1995.
  15. Davíð treyst best 29. október 2009
  16. Ræða Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á ársfundi bankans 28. mars 2008
  17. Europas sämsta centralbankschef; af DN.is
  18. Segir Davíð ekki hafa búið yfir nægri reynslu og þekkingu; af Vísi.is 09. ágúst.2008
  19. Lögmaður spyr hvort Davíð hafi brotið lög; af Vísi.is 08. des. 2009
  20. Skuldin er arfleifð Sjálfstæðisflokksins; af Pressunni 8. des 2009
  21. Davíð Oddsson farinn úr landi; af Vísi.is 09. apr. 2010

Tenglar

Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni

Verk og greinar eftir Davíð Oddsson

Viðtöl við Davíð Oddsson


Fyrirrennari:
Egill Skúli Ingibergsson
Borgarstjóri Reykjavíkur
(27. maí 198216. júlí 1991)
Eftirmaður:
Markús Örn Antonsson
Fyrirrennari:
Steingrímur Hermannsson
Forsætisráðherra
(30. apríl 199115. september 2004)
Eftirmaður:
Halldór Ásgrímsson
Fyrirrennari:
Halldór Ásgrímsson
Utanríkisráðherra
(15. september 200427. september 2005)
Eftirmaður:
Geir H. Haarde
Fyrirrennari:
Þorsteinn Pálsson
Formaður Sjálfstæðisflokksins
(10. mars 199116. október 2005)
Eftirmaður:
Geir H. Haarde
Fyrirrennari:
Friðrik Sophusson
Varaformaður Sjálfstæðisflokksins
(8. október 198910. mars 1991)
Eftirmaður:
Friðrik Sophusson