„Angíótensín II“: Munur á milli breytinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efni eytt Efni bætt við
Annato (spjall | framlög)
Ný síða: Angíótensín II kemur víða við sögu í stjórnkerfi blóðþrýstings og vökvajafnvægis í mannslíkamanum. Áhrif angíótensíns II sameinast í virkni þess á þvag- ...
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 4. nóvember 2008 kl. 01:22

Angíótensín II kemur víða við sögu í stjórnkerfi blóðþrýstings og vökvajafnvægis í mannslíkamanum. Áhrif angíótensíns II sameinast í virkni þess á þvag- og blóðrásarkerfið. Angíótensín II er virka efnið í renín-angíótensín kerfinu eða renín-angíótensín-aldósterón kerfinu (2).


Renín-angíótensín kerfið

Renín-angíótensín kerfið er flókið hormónakerfi sem stjórnar blóðþrýstingi. (2) Renín-angíótensín kerfið virkjast þegar hormóninu reníni er seytt frá nærhnoðrafrumum nærhnoðaratækis í aðlægum slagæðlingum nýrnarhnoðra t.d. þegar blóðrúmmál minnkar, súrefnisbindigeta nýrnunga er léleg eða blóðþrýstingur fellur. Þegar reníni er seytt út í blóðrásina umbreytir það óvirka peptíðinu angíótensínógen, sem framleitt er í lifur, í angíótensín I. Óvirku angíótensín I er svo breytt í virkt angíótensín II fyrir tilstuðlan angíótensín breytiensímsins (ACE) (1,2,3)). Angíótensín breytiensímið var áður talið aðeins finnast í háræðaþeli lungna en nú er vitað að breytiensímið finnst í miklu magni í æðaþeli um allan líkamann (2).

                                             Renín            ACE
                                               ↓               ↓
                               Angíótensínógen → Angíótensín I → Angíótensín II


Áhrif Angíótensíns II á nýrnastarfsemi og stjórnun blóðþrýsting

Angíótensín II gegnir margþættu hlutverki á samvægi líkamans (homeostasis) en eitt helsta hlutverk angíótensíns eru bein áhirf þess á rúmmál slagæða og þ.a.l. blóðþrýsting og örvun þess á seytingu aldesteróns frá nýrnahettuberki (3). Angíótensín II er virkur æðaþrengir um allan líkamann og spilar stórt hlutverk í viðhaldi blóðþrýstings og blóðflæðis, sérstaklega til nýrna. Hnoðrasíunarhraða (GFR) í nýrungum er viðhaldið innan ákveðinna marka og er það að stórum hluta fyrir tilstuðlan angíótensíns II. Þar sem hnoðrasíunarhraði endurspeglast í þrýstingi í hnoðra hverju sinni (og gegndræpi hans) verður líkaminn að viðhalda ákveðnum blóðþrýstingi og tryggja blóðflæði til nýrna. Þegar blóðþrýstingur fellur eða blóðflæði til nýrna skerðist skynja nærhnoðafrumur í aðlægum slagæðlingum hnoðra minnkað flæði og losa renín. Eins og kom fram hér áðan hvetur renín til myndunar á angíótensín I sem svo verður að angíótensín II fyrir tilstuðlan angíótensín breytiensíms. Angíótensín II sest í sérstaka viðtaka í æðum og veldur æðasamdrætti. Aukið viðnám í æðakerfinu og þá sérstaklega í frálægum slagæðlingum hnoðra eykur þrýstinginn inn í hnoðrum og hnoðrasíunarhraði kemst í fyrra horf. Einnig er talið að angíótensín II auki gegndræpi hnoðra og viðhaldi þannig hnoðrasíunarhraða (2). Þannig viðhöldum við nægilegri síun blóðs í nýrum þrátt fyrir að heildar blóðflæði um nýrun sé minnkað:


    ↓blóðþrýstingur→ ↓GFR→  ↑renín → ↑angíótensín II → ↑viðnám æða → ↑blóðþrýstingur→ ↑GFR


Angíótensín II fer einnig aðrar leiðir til að hafa áhrif á blóðþrýsting. Angíótensín II nemar í undirstúku heila virkja losun þvagtemprandi hormóns (ADH) eða vasópressíns úr aftari hluta heiladinguls. Þvagtemprandi hormón veldur því að vökva er haldið eftir í nýrum þannig að blóðrúmmál eykst og blóðþrýstingi er viðhaldið (2). Aukið magn angíótensín II í blóði framkallar þorstatilfinningu og við aukna vökvainntekt eykst rúmmál blóðsins og blóðþrýstingur eykst (2,3)). Einnig eru angíótensín II viðtakar í hjarta- og blóðrásarstjórnstöðvum í mænukylfu. Þegar þeir virkjast aukast drifkerfisáhrif á hjartað og æðar, þ.e. aukning á útfalli hjartans og aukinn æðasamdráttur sem verður til þess að blóðþrýstingur hækkar. Í nýrnahettuberki hvetur angíótensín (ekki er vitað hvort um sé að ræða angíótensín II eða III) til losunar á aldósteróni. Aldósterón er hormón sem virkar á nýrnapíplurnar og safnrásirnar í nýrunum og eykur þar endurupptöku á natríum og vatni frá þvagi sem stuðlar enn frekar að hækkuðum blóðþrýstingi (2).


    ↑angótensín II→ ↑aldósterón→ ↑endurupptaka vatns og natríums→↑blóðþrýstingur


Angíótensín breytiensímshemlar

Vísindamenn hafa þróað blóðþrýstingslyf út frá þeirri þekkingu sem hefur þróast á blóðþrýstingshækkandi áhrifum angíótensíns II. Aðallega er um að ræða svokallaða blóðþrýstingslækkandi angíótensín breytiensímshemla (ACE-inhibitors) en eins og fram hefur komið hvatar angíótensín breytiensím breytingu óvirks angíótensíns I í virkt angíótensín II. Angíótensín breytiensímshemlar koma þannig í veg fyrir breytingu angíótensíns I í angíótensín II og hindrar þannig öll þau áhrif sem hormónið hefur á blóðþrýsting (1,2,3):


    ↓angíótensín II → ↓viðnám í æðum → ↓blóðþrýstingur


    ↓angíótensín II → ↓aldósterón → ↓endurupptaka vatns og natríums → ↓blóðþrýstingur


Önnur áhrif angíótensín breytiensíms er að það veldur niðurbroti á æðavíkkandi hormóninu bradýkínín en þegar angíótensín breytiensímshemlar eru gefnir er komið í veg fyrir niðurbrotið með þeim afleiðingum að blóðþrýstingur lækkar (2). Angíótensín breytiensímshemlar hafa því tvöfalda virkni, þeir koma í veg fyrir áhrif angíótensín II á blóðþrýsting þannig að viðnám slagæða minnkar, rúmmál bláæða eykst, viðnám í æðum nýrna minnkar auk þess sem að þau stuðla að auknu magni æðavíkkandi braýkíníns í blóði:


    1)  ↓ACE → ↓angíótensín II → ↓viðnám æða → ↓blóðþrýstingur
    2)  ↓ACE → ↑bradýkínín → ↓viðnám æða → ↓blóðþrýstingur


Afleiðingin er minnkaður blóðþrýstingur, minni framleiðsla og seytun á þvagtemprandi hormóni og minnkun á seytingu aldósteróns.


Angótensín II viðtakahemlar

Hjá sumum sjúklingum getur hækkað bradýkínin í blóði valdið þurrum, hörðum hósta og hafa því verið þróuð lyf sem kallast angótensín II viðtakahemlar, en þau koma í veg fyrir blóðþrýstingshækkandi áhrif angíótensíns II án þess að hafa áhrif á niðurbrot bradýkíníns (2). Angíótensín II viðtakahemlar eru hindrunarefni (antagonists) með sérhæfða sækni í AT1 viðtaka angíótensíns II. Þannig koma þeir í veg fyrir að angíótensín II setjist í viðtaka sína í vefjum, hvort sem þeir eru í æðum, heila eða nýrnahettuberki, og blóðþrýstingshækkandi áhrif þess (3). Áhrif angíótensín II viðtakahemla eru þar af leiðandi æðavíkkun (viðtakar í æðum), minnkun á framleiðslu og seytingu aldósteróns (viðtakar í nýrnahettuberki) og minnkar seytingu á þvagtemprandi hórmóni (viðtakar í heila). Samanlögð áhrif eru minnkun á blóðþrýstingi og lyfið því gefið við háþrýstingi, oft sjúklingum sem eru ónæmir eða með óþol fyrir angíótensín breytiensímshemlum (1,2,3).


(1) Karch, Amy M. (Ritstj.). 2008. Focus on Nursing Pharmacology. (4. útgáfa). Philadelphia, PA: Lippincott Williams & Wilkins.

(2) Silverthorn, Dee Unglaub (Ritstj.). 2007. Human Physiology: An Integrated Approach. (4. úgáfa). San Francisco, CA: Pearson Education, Inc.

(3) Widmaier, Eric P., Raff, H. og Strang, K.T. (Ritstj.). 2006. Vander´s Human Physiology: The Machanisms of Body Function. (10. útgáfa). New York, NY: McGraw-Hill, Inc.