Fara í innihald

„Frostaveturinn mikli 1917-18“: Munur á milli breytinga

ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
[[Flokkur:1917]]
[[Flokkur:1918]]
Veturinn 1918 er þekktur sem ''frostaveturinn mikli''. Þá er átt við kuldana í janúar en það var eins og ýmislegt hafi áður ''boðað'' þá miklu kulda. Október 1917 var sá kaldasti sem mælst hefur eftir að danska veðurstofan tók við veðurathugunum á landinu, nóvember var líka mjög kaldur og desember var sá sjöundi kaldasti sem mælst hefur. Haustið, október til nóvember, var hið kaldasta frá því fyrir miðja nítjándu öld og allt til okkar daga. Þann 16. desember kom mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á landinu í desember, 1054,0 hPa. Og í mánuðinum kom einnig mesta frost sem mælst hefur í þeim mánuði á landinu -34,5 stig á Möðrudal á Fjöllum. Það var þó ekki fyrr en í janúar sem kuldinn fór að verða alveg stórkostlega afbrigðilegur.
 
Árið 1918 hófst með reyndar mildri breytilegri átt. Klukkan 8 að morgni nýársdags var 7 stiga hiti á Teigarhorni við Berufjörð, 6 í Vestmannaeyjum og 4 í Reykjavík. Aðeins í Grímsey var dálítið frost. Hæðarhryggur var skammt vestur af landinu og teygði sig frá Grænlandi til Bretlandseyja.
 
 
Hryggurinn var meiri daginn eftir og var aðalhæðin milli Vestfjarða og Grænlands. Hún var yfir 1040 hPa og stefndi suður á bóginn. Kólnað hafði á landinu og var víðast hvar frost nema í Vestmannaeyjum.
 
Næsta dag hlánaði þó á ný og herti vind og var hæðin þá komin suður fyrir land. Hitinn fór í 12,2 stig á Teigarhorni sem var mesti hiti á landinu í þessum mánuði. Hlákan hélt áfram næsta dag og var jafnvel enn þá meiri, en suðvestan-og vestanhvassviðri var við ströndina á norður og austurlandi. Um kvöldið var alls staðar frostlaust, jafnvel á Grímsstöðum á Fjöllum var hitinn 0,1 stig. Blaðið Landið segir 4. janúar að hlákan hafi mjög bætt útlitið fyrir bændur víða um land en það hafi verið hið ískyggilegasta en nú sé sums staðar komin dágóð jörð fyrir sauðfé og víða hrossahagi.
 
Daglegt líf í bænum gekk sinn vanagang og fólk var grunlaust um það sem í vændum var. Og til þess að allt gengi nú virkilega létt og liðugt fyrir sig bauð Hið íslensla steinolíufélag upp á smurningsolíu ávallt fyrirliggjandi. Gamla bíó sýndi Nýársnótt á herragarðinum Randrup, heimsfrægan sjónleik í 6 þáttum, eins og tekið var fram í auglýsingum. Myndin var sögð átakanlega vel leikin og svo viðburðarrík að fólk vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Fyrir börnin var líka verið að sýna Chaplin dansar tangó. Á fjölum Leikfélags Reykjavíkur var glímd Konungsglíman sem var feikilega vinsælt drama eftir sjálfan Guðmund Kamban.
 
Lægðardrag fór um nóttina suður yfir landið og þá kólnaði mjög og fór að snjóa fyrir norðan. Klukkan 7 um morguninn þ. 5. var aðeins eins stigs frost í Reykjavík í alskýjuðu veðri og norðvestanátt en frostið var komið niður í 7 stig kl. 17 síðdegis en þá var orðið léttskýjað. Klukkan 8 að morgni var 8 stiga frost í Stykkishólmi en var orðið 18 stig kl. 21. Í Grímsey var hins vegar strax klukkan átta komið 19 stiga frost í snjókomu en á sama tíma var ekki nema 5 stiga frost á Grímsstöðum, en var komið niður í 20 stig kl. 14 í hægri norðanátt og alskýjuðu veðri. Þar létti síðan til og um kvöldið var frostið komið í 23 stig. Í Grímsey fór frostið fljótlega yfir 20 stig þegar líða fór á og var það sem eftir var dagsins. Í Vestmannaeyjum var enn frostlaust kl. 8, hiti 1,2 stig í skýjuðu veðri, en kl. 14 hafði létt til og hitinn var aðeins undir frostmarkinu en kl. 21 var léttskýjað og fjögurra stiga frost.
 
Mönnum varð nokkuð um þessi miklu veðrabrigði: Svo segir í Vísi þ. 6.: "Það urðu snögg umskipti á veðrinu í gær. Fyrri hluta dagsins var blíðviðri en síðari hlutann hörkufrost."
 
Á þrettándanum var hvasst og enn kólnandi. Víða varð kringum 20 stiga frost. Að morgni var heiðskírt og 17 stiga frost í Reykjavík, en á norður og austurlandi var snjókoma og enn meira frost. Í Stykkishólmi hafði frostið fallið niður í 27 stig um nóttina. Jafnvel í Vestmannaeyjum var 17 stiga frost um kvöldið. Yfir Grænlandi var mikil hæð en lægð yfir Norðurlöndum. Um kvöldið var boð heima hjá Guðmundi Finnbogasyni prófessor á Rauðará. Meðal gesta var Courmont konsúll Frakka á Íslandi og Þórbergur Þórðarson upprennandi rithöfundur sem gekk svo heim til sín á Vesturgötu eftir boðið. Hann segir svo frá: "Þá var komið óláta norðanrok og grimmdargaddur. Um nóttina fraus á koppunum." Þetta sama kvöld var grímuball í Góðtemplarahúsinu í Hafnarfirði og kostaði aðgangseyrinn heila 60 aura.
 
Hæðin yfir Grænlandi klofnaði daginn eftir og var annar hluti hennar yfir Grænlandshafi. Enn var hríð á austurlandi en sæmilegasta veður á vesturlandi og víða bjart, logn síðari hluta dagsins í Reykjavík og heiðskírt. Alls staðar var hörkufrost. Daginn eftir var lægðardrag milli Vestfjarða og Grænlands og mildaðist dálítið. Þá þykknaði upp í höfuðstaðnum og snjóaði síðdegis í þriggja stiga frosti. Snjór var reyndar mjög lítill í bænum þegar kuldakastið gekk í garð. Um morguninn þ. 9 kl. 7 var frostið aðeins eitt stig í Reykjavík. Ekki voru þar hámarksmælingar þennan tíma en hitinn aðeins athugaður kl. 7, 14 og 17. Vísir segir þ. 10. að kvöldið áður hafi verið frostlaust í bænum og suddi í lofti. Lögrétta getur þess einnig að frostlaust hafi orðið. Ekki hefur sá hiti þó getað verið meiri en svo að skríða bara rétt yfir frostmarkið. En þennan dag hlánaði reyndar lítillega í Vestmannaeyjum.
 
Lægðaradragið fór suðaustur yfir landið þegar líða tók á þ. 9. og þá kólnaði mjög á ný. Um kvöldið hélt Ágúst H. Bjarnson prófessor opinberan fyrirlestur í Háskólanum um siðferðilegt uppeldi barna og unglinga erlendis og hefur það áreiðalega verið kuldalega uppbyggilegt. Á Raufarhöfn var hins vegar ekki mildinni fyrir að fara. Þar var frostið 22 stig og töluverður ís úti fyrir. Daginn eftir var sagt að við Reykjahlíð við Mývatn væri stórhríð og 27 stiga frost. Mikil hæð var yfir Grænlandi næstu vikuna en suður í hafi fóru lægðir í austur. Hvasst var stundum. Allan tímann var feiknarlegur kuldi. Ekki er getið um hvort hann hafði áhrif á aðsókina á fyrirlestur Guðmundar Finnbogasonar fyrir almenning um nokkur atriði fagurfræðinnar í háskólanum þ. 10. Skyldi Þórbergur hafa verið þar? Þá var frostið kringum 16 stig í bænum. Daginn eftir urðu menn að hætta grjótvinnu í Öskuhlíð því suma verkamennina var farið að kala í andliti enda var frostið 19-20 stig og norðan stormur. En menn gátu yljað sér í Nýja bíói við það að horfa á stórmyndina John Storm (viðeigandi nafn) sem var reyndar svo stór að hún var sýnd í tveimur hlutum. Luku allir upp einum munni að myndin væri stórkostleg og væri einhver sú besta sem hér hefði verið sýnd. Daginn eftir var logn allan daginn í Reykjavík og 21 stigs frost undir heiðskírum himni um morguninn, frostið var þá 22 í Stykkishólmi en 29 stig á Grímsstöðum síðar um daginn. Líklegt er að í Borgarfjarðardölum hafi verið hátt upp í 30 stiga frost þennan dag. Sunnudaginn 13. var messufall í Fríkirkjunni vegna kulda. Um morguninn var frostið í bænum 22,5 stig en 19 stig síðdegis. Það var heiðskírt í norðaustan strekkingi sem varð að stormi er leið á daginn. Skip í Reykjavík áttu þá orðið erfitt með að brjóta sér leið út úr höfninni og ísskæni komið út um allar eyjar. Þennan messufallsdag var svo mikil hríð á norðaustur og austurlandi að ekki sást til hafs. Þá var frostið 21 stig um miðjan dag á Seyðisfirði og Teigarhorni. Blaðið Skeggi í Vestmannaeyjum segir að lítið hafi vantað upp á það að höfnin þar frysi um þetta leyti en í Eyjum var kaldast í mánuðinum þ. 13. þegar frostið fór í 21 stig. Mælingarnar fóru fram við Stakkagerðistún skammt frá sjónum en sagt er að 24 stig hafi mælst "fyrir ofan hraun" á óopinbera mæla. Þess voru reyndar dæmi að koli og sandsíli frysu í hrönnum í höfninni í Vestmanaeyjum síðar í mánuðinum.
 
Blaðið Fram á Siglufirði segir þ. 12 að hríð hafi verið alla vikuna og hafísinn hafi komið á þrettándanum í 23ja stiga frosti og hafi fjörðurinn frosið út yfir Eyrarodda. Næstu daga hafi frostið verið um 20 stig og og fraus allt saman, hafísinn og lagnaðarísinn. Ekki kom þetta þó í veg fyrir að haldin var barnaskemmtun daginn eftir þrettánda þar sem dansað var kringum jólatréð. Nokkrum dögum síðar nefndi blaðið mest 29 stiga frost, en það hafi oftast verið um 20 stig en stundum stigið upp í 10 gráður en fallið jafnharðarn niður aftur. Í byrjun febrúar var fjörðurinn enn fullur af ís. Hann var þó ekki hreyfingarlaus eins og sumir gætu haldið heldur lyftist með flóði og olli miklu tjóni á bryggjum.
 
Reykjavíkurhöfn hafði farið að leggja þegar frostin færðust í aukana. Að sögn Vísis var ísinn þó ótraustur þ. 8. og samt voru stundum stórir hópar fólks úti á honum þar til lögreglan bannaði ferðir út á hann að óþörfu. Allmikið íshröngl rak inn á ytri höfnina í Reykjavík þ. 15, segir Vísir, og varð af samhangandi breiða frá Örfirisey meðfram hafnargörðunum og alllangt inn eftir. Til að sjá sýndist höfnin allögð út fyrir eyjar. Skip gátu þó enn brotist út úr ísnum og höfnin lokaðist aldrei alveg en menn urðu að saga skipin út úr ísnum er á leið. Daginn eftir var að sögn Morgunblaðiðsins gengið frá Viðey að Kleppi. Ísinn var þó ekki þykkari en svo að hægt var að reka prik í gegnum hann í einu höggi. Þann 18. hafði ísinn allan rekið af ytri höfninni milli Engeyjar og lands.
 
Hafís rak að landi í þessari kuldahrinu. Hans var fyrst getið á þrettándanum. Þá segir Vísir að ís sé landfastur við Horn og hafi áður rekið íshrafl inn á Ísafjarðardjúp og allt til Skutulsfjaðrar en síðan farið þaðan. Næstu daga segir að mikill ís sé á Húnaflóa, Siglufjörður sé fullur af ís og Eyjafjörður að Hjalteyri og einnig sé töluverður ís á Axarfirði. Í frosthörkunum myndaðist mikill lagnaðarís og fraus hann saman við hafísinn. Varð af ein íshella fyrir öllu norður-og austurlandi, alla leið að Glettingarnesi, svo langt á haf út sem augað eygði. Frusu skip inni á höfnum. Ísbirnir gengu á land í Núpasveit, Melrakkasléttu, Skagafirði og Skagaströnd og voru nokkrir þeirra felldir. Á Látrastönd voru 90 höfrungar reknir í land og drepnir. Kjötið var selt á 11 aura pundið. Hvalir voru einnig drepnir þegar þeir sátu fastir í vökum í hafísnum á Húnaflóa og víðar. Fuglar drápust í hrönnum í harðindunum. Svanir frusu fastir á tjörnum á Álftanesi! Útigangshross í Landeyjum frusu í hel dýravinum til mikillar sorgar og hneykslunar. Menn fóru á ísnum þvert og endilagt innan fjarðar og flóa. Þannig fóru menn úr Flatey á Breiðafirði upp á Barðaströnd með klyfjaða hesta. Frá Arngerðareyri við Ísafjarðardjúp var farið bæði gangandi og ríðandi á ísnum alla leið út á Skutulsfjörð. Eyjafjörður var lagður út fyrir Hrísey.
 
Fimmtudaginn 17. komst lægð inn á Grænlandshaf og þá hlýnaði heldur, þannig að frostið var „aðeins" 10 stig víðast hvar, en síðan tók kuldinn við að nýju. Þann 19. var lægðardrag skammt suðaustur af landinu og þá tók að snjóa um mest allt land, þar með talið í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Víða var hvasst.
 
Dagarnir 20. og 21. voru kaldastir víðast hvar á landinu. Vísir segir að þ. 20. hafi frostið verið kl. 4 síðdegis 28 stig á Akureyri, 32 á Sauðárkróki, 29 í Borgarnesi og 34 á Kolviðarhóli og var enn að herða. Um kvöldið flutti þýski verkfræðingurinn Funk alþýðufyrirlestur í Reykjavík um þjóðarbúskapið Þjóðverja. Hafði verkfræðingurinn dvalist hér á landi í nokkur ár og flutti mál sitt á svo góðri íslensku að til þess var tekið. Ekki fer sögum af mætingu á fyrirlestur þessa ágæta manns sem eflaust var hinn hlýlegasti náungi. En frostið úti var 23 stig! Á Kolviðarhóli var það sagt 27 stig kl. 5 síðdegis þennan sama dag.
 
Mánudaginn 21. og næsta dag var hæð yfir landinu, ekki þó mikil, kringum 1016 hPa mest, en djúp lægð við Svalbarða. Við suðurströndina var éljagangur og farið að mildast nokkuð í Vestmanneyjum þar sem ekki var meira en 6 stiga frost um kvöldið. Víðast hvar annars staðar náðu kuldarnir þó hámarki þennan dag. Í Reykjavík var frostið 24,5 stig kl. 7 að morgni í logni og heiðskíru veðri en á Möðrudal á Fjöllum mældist það 38 stig og 37,9 á Grímsstöðum. Þetta er mesta frost sem nokkurn tíma hefur mælst á Íslandi. Hér er hægt að lesa nánar um þennan mikla kulda. Í Stykkishólmi fór frostið í 29,7 stig, á Ísafirði 28 stig, 33,3 á Möðruvöllum í Hörgárdal, 33,0 á Akureyri, 30,8 í Grímsey, 25,2 á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði, sem manni finnst vel sloppið, 26,0 á Seyðisfirði og 25,5 á Teigarhorni.
 
Svipað veður hélst þ. 22. en þó hlýnaði nokkuð á vesturlandi og hvessti af suðri. Hæðin mjakaðist austur á bóginn. Höfnin í Reykjavik var að sögn Vísis þennan dag "allögð ... milli lands og eyja og sér hvergi í auðan sjó heldur alla leið upp á Akranes."
 
Barnaskólanum í Reykjavík var lokað meðan mestu kuldarnir stóðu yfir. Daglegt líf hélt annars áfram sinn vanagang þó erfitt sé að ímynda sér hvernig það hefur verið á þessum tíma undir svona kringumstæðum. Þá var hvorki hitaveita né rafmagn. Eldiviðarleysið svarf mjög að mönnum um allt land. Lítið var til af kolum og þau voru svo dýr að alþýða manna gat ekki keypt þau. Stundum var alveg kolalaust nema það litla sem Landsverslunin sá um að dreifa út. Og jafnvel þó eldiviður væri fyrir hendi var kuldinn svo afskaplegur að illmögulegt var að hita upp húsin, að því er Vísir segir. Auk eldiviðarleysis var skortur á almennilegu fæði, hlýjum klæðnaði og rúmfötum. Sú hugmynd kom upp í lok kuldaskeiðsins að flytja börn hópum saman í Báruna eða Miðbæjarskólann og hita upp svo lífi þeirra og heilsu væri borgið. Um þetta var rætt í Vísi af mikilli alvöru. Aftur var gengið frá Viðey að Kleppi þ. 21. og lengi þar á undan hafði verið hægt að ganga yfir Skerjafjörð. Þennan dag var ís alveg upp á Kjalarnes. Daginn eftir var þó komin auður sjór milli Engeyjar og Kjalarness en þ. 23. var autt Engeyjarmegin.
 
Nú var Gamla bíó farið að sýna myndina Kappið um Rembrandtsmyndina en Nýja bíó "skemmtilega hlægilega" mynd sem hét Greifadóttir eða mjaltakona. Það var hins vegar ekkert spaug að hús í bænum voru farin að lyftast á grunnum sínum vegna frostanna og reykháfar að bresta. Á sumum húsum losnuðu þeir hreinlega frá. Vatnsskortur var einnig í Reykjavík og takmarkanir á vatnsnotkun. Vatnið fraus einfaldlega í pípunum. Fá hús munu hafa sloppið við skemmdir á leiðslum. Rekstrur gasstöðvarinnar við Hlemm var orðin erfiður í lok kuldakastsins vegna þess að frost komst í geymana þrátt fyrir mikla einangrun.
 
Vestri á Ísafirði segir frostin þar hafi mest orðið 30 stig (veðurskeytastöðin mældi mest um 29) en 36 stig inn til dala sem er líklega helst of mikið í lagt. En Djúpið hafði lagt á örfáum dögum og var farið frá Hnífsdals til Ögurness á ís og sömuleiðis frá Æðey til Ögurs. Þó var alltaf auð rauf með Snæfellsströndinni. Neyðarástand var á Ísafirði og leitaði bærinn ásjár stjórnarráðsins. Þar voru 374 heimili atvinnulaus og talið að 308 þeirra með 988 manns þörfnuðust hjálpar, bæði eldivið og peninga til nauðsynja. Skólum hafði lengi verið lokað og engar opinberar samkomur haldnar.
 
Hæðarhryggur var þ. 23. frá Noregi til Grænlands og var þá austanátt á landinu, frost og sæmilegasta veður. Í Reykjavík hafði um nóttina gert talsverðan austanvind sem braut upp lagísinn af Kollafirðinum og var þá auðan sjó að sjá fyrir utan eyjar en allagt fyrir framan þær. Síðdegis var frostið aðeins eitt stig í Reykjavík. Hitinn í Vestmannaeyjum var hins vegar lítið eitt ofan við frostmarkið allan daginn.
 
Það snjóaði víða þ. 24. og lægð var að nálgaðist úr suðvestri. Sums staðar var hvasst. Ísinn fór þá að brotna af Engeyjarsundi. Um morguninn var loks orðið frostlaust í Reykjavik í fyrsta sinn síðan 4. janúar. Og hvers vegna breyttist tíðarfarið svona, spurði Morgunblaðið og stóð svo ekki á svarinu: "Jú, það var vegna þess að Skautafélag Reykjavíkur hófst handa í fyrrakvöld og ætlaði að fara að gera sér skautasvell á Tjörninni hérna." Talið er að lægðin hafi farið yfir landið þennan dag en þann næsta 25. kom önnur úr suðvestri á Grænlandshaf. Hún þokaðist hægt til austurs þann daginn og daginn eftir. Snjókoma var víða seinni daginn en syðst á landinu hlánaði með suðvestanátt og fraus svo reyndar ekki aftur í Vestmannaeyjum það sem eftir var mánaðarins. Í Reykjavík var rigning og þoka og hiti um 3 stig mest allan daginn. Var fólk ósköp fegið að fá hlákuna.
 
Austanátt var og lægðardrag skammt fyrir sunnan land þ. 27. Aftur kólnaði en í Reykjavík var þó enn frostlaust. Snjókoma var fyrir norðan og austan. Daginn eftir var svipað veður en vægt frost í Reykjavík. Lægð var skammt fyrir sunnan land þ. 29. og hreyfðist norðnorðaustur og snjóaði víða. Mikil lægð var suðvestur í hafi næst síðasta dag mánaðarins og olli hér suðaustanátt. Áfram var frost fyrir norðan en á suðurlandi hlánaði. Síðasta dag mánaðarins voru lægðardrög við landið. Þá var býsna hlýtt á suðurlandi, 6 stig í Reykjavík en 7 í Vestmannaeyjum en fyrir norðan og austan var enn kuldatíð. Hlákan komst aldrei norður fyrir heiðar ekki einu sinni til Breiðafjarðar. Það var ekki fyrr en langt var liðið á febrúar að hlánaði á þessum slóðum.
 
Í lok þessa sögufræga janúar segir Vísir að hafísinn sé samfelldur frá Langanesi og suður að Papey. Þann dag fóru fram bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík.
 
Þessi janúar er kaldasti mánuður sem mælst hefur á landinu frá upphafi mælinga. Í Reykjavík var meðalhitinn -7,8 stig en var að meðaltali -0,5 stig 1961-1990. Hér er meðalhitinn á nokkrum stöðum í janúar 1918 og núgildandi meðaltal í svigum fyrir aftan: Stykkishólmur -12,2 stig (-1,3); Ísafjörður -13,1 (um -1,2); Bær í Hrútafirði -15,0 (um -3); -Möðruvellir í Hörgárdal -14,4 (óvíst); Akureyri,-13,1 (-2,2); Grímsey, -13,7 (-1,2); Grímsstaðir -16,4 (-5,3); Möðrudalur, -17,0 (um -6,5); Seyðisfjörður -9,5 (-0,5); Teigarhorn -8,2 (-0,3); Fagurhólsmýri,-5,7, (0,3); Stórnúpur í Hreppum, - 8,1 (-1,8); Vestmannaeyjakaupstaður -3,6 (2,0) en áætlaður hiti á Stórhöfða -4,4 stig.
 
Ekki voru úrkomu eða sólskinsmælingar í þessum mánuði í Reykjavík en hins vegar á Vífilsstöðum. Þar mældist úrkoman 27,9 mm sem er langt undir núverandi meðallagi. Úrkomudagar voru aðeins taldir fimm. Mánuðurinn var þurrviðrasamur mjög um allt land og er einn af allra þurrustu janúarmánuðum sem mælingar ná yfir. Sólskinsstundirnar voru 28 á Vífillstöðum sem er 16 klukkustundum meira en núgildandi meðaltal í Reykjavík.
 
Nú vaknar spurningin: Af hverju varð svona óskaplega kalt? Hvers vegna var þetta kuldakast svona miklu kaldara en öll önnur sem síðan hafa komið? Því er kannski ekki auðsvarað úr því sem komið er. Nokkur atriði eru þó ljós. Í fyrsta lagi var langvinn norðanátt sem dró að mjög kalt loft frá ísköldum pólsvæðum. Loftið kólnaði svo enn á lyftingu sinni yfir landið. Síðustu dagana, þegar kaldast varð, hafði þetta loft staðnað og það kólnaði svo upp úr öllu valdi vegna útgeilsunnar á snævi þöktu landinu í því logni og þeirri heiðríkju sem þá var um nær allt land. Í öðru lagi var einhver mesti hafís í norðurhöfum sem um getur. Talið er að Austur-Grænlandsísinn úr norðri, sem liggur meðfram austurströnd Grænlands og kominn var í norðuríslandsstrauminn, sem ber hann upp að ströndum landsins, hafi að þessu sinni runnið saman við ís sem kom að austan úr Barentshafi en það hefur mjög sjaldan gerst og aldrei eftir þetta. Loftið að norðan fór því hvergi yfir auðan sjó á leið til landsins og tók því ekki í sig varma eða raka frá hafinu. Loftið yfir landinu var því einstaklega þurrt og kalt. Ísland breyttist bókstaflega í framhald af heimskautasvæðunum. Auk þess hafði einmitt verið óvenjulega kalt í norðurhöfum undanfarið. Metuldi var veturinn áður á Svalbarða og reyndar var allt árið 1917 þar einstaklega kalt. Ísland fékk sinn skerf af þessum norðurhjarakulda með metköldum apríl og október 1917 og afar köldu hausti í heild. Svo kórónaði þessi mánuður ósköpin. Kuldinn var hluti af verðurfarslegu ferli sem tók yfir stóran hluta norðurhafa.
 
Víðar var kalt en hér. Í Þórshöfn í Færeyjum er þetta kaldasti janúar sem þar hefur mælst. Ekki hlánaði þar frá þrettándanum og til þess 18. eða í 13 daga samfleytt sem er sannarlega sjaldgæft ef ekki einsdæmi á þeim stað. Á Svalbarða var þetta einnig kaldasti janúar sem hefur verið mældur og sömu sögu er að segja um Angmaksalik á austurströnd Grænlands. Í Norður-Ameríku var sums staðar afar kalt og var þessi janúar t.d. með köldustu mánuðum í New York.
 
Þannig var þá þessi alræmdi janúar árið 1918 . Það er fyrst og fremst hann sem gefið hefur vetrinum nafnið "frostaveturinn mikli". Febrúar var að vísu illviðrasamur og fremur kaldur mánuður en ekkert þó í líkingu við janúar. Tók þá hafísinn að reka frá landinu. Mars var aftur á móti heldur hlýr og meinlaus, einkum sunnnlands.
 
Hér fyrir neðan má sjá kort sem sýnir meðallag hitans í mánuðinum á hverri stöð en lægri talan sýnir mesta frost sem mældist á stöðinni. Einnig er fylgiskjal þar sem hægt er að sjá gang veðursins: áttina, veðurhæðina, veðurlagið og hitann á athugunartímum nokkurra stöðva alla daga mánaðarins. Á dagatalinu eru sunnudagar merkir með stóru S svo menn geta gert sér grein fyrir vikudögunum. Ég hef einnig reiknað meðaltal hitamælinganna hvern dag. Stöðvarnar eru Reykjavík, Stykkishólmur, Grímsey, Grímsstaðir, Seyðisfjörður, Teigarhorn og Vestmannaeyjakaupstaður. Á sumum stöðvunum sést einnig mesti og minnsti hiti sólarhringsins. Tekið er fram að á þessum árum var skýjahulu skipt í tíu hluta en ekki átta eins og nú. Hér er þetta umskrifað á einfaldan en kannski ekki mjög nákvæman hátt: 0 er heiðskírt, 1-4 léttskýjað, 5 hálfskýjað, 6-9 er skýjað og 10 alskýjað. Skýjahulu er hér ekki getið þegar rignir eða snjóar. Veðurhæðin er í gömlu góðu Beaufortvindstigunum.
 
Heimildir: Matthías Johannesen: í Kompaníi við alllífið, 1959; Búnaðarritið Freyr 1919; Fram; Landið; Lögrétta; Morgunblaðið; Skeggi; Vestri; Vísir; ýmsar upplýsingar um gang veðrakerfanna frá vini mínum Trausta Jónssyni veðurfræðingi sem eru kærlega þakkaðar. Ljósmyndirnar frá Reykjavíkurhöfn eru teknar (í þessari röð) úr ritunum Öldin okkar 1901-1930 (ekki getið um ljósmyndara), Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson (ljósmyndari Magnús Ólafsson) og Ísland í aldanna rás 1900-1950 eftir Illuga Jökulsson (ljósmyndari Ólafur Magnússon). Kortagrunnur er af vef Veðursstofunnar.
 
Svo er hákon breki harðarsson faggi.
Óskráður notandi