Fara í innihald

Kenan Evren

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kenan Evren
Evren árið 1988.
Forseti Tyrklands
Í embætti
12. september 1980 – 9. nóvember 1989
ForsætisráðherraBülend Ulusu
Turgut Özal
ForveriFahri Korutürk
EftirmaðurTurgut Özal
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. júlí 1917
Alaşehir, Tyrkjaveldi
Látinn9. maí 2015 (97 ára) Ankara, Tyrklandi
ÞjóðerniTyrkneskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiSekine Muslu (g. 1944; d. 1982)
Börn3
Undirskrift

Ahmet Kenan Evren (17. júlí 1917 – 9. maí 2015) var tyrkneskur stjórnmálamaður og herforingi sem var sjöundi forseti Tyrklands frá 1980 til 1989. Hann tók við embætti forseta eftir að hann leiddi valdarán hersins árið 1980.

Þann 18. júní 2014 dæmdi tyrkneskur dómstóll Evren í ævilangt fangelsi og lækkaði hann niður í tign óbreytts hermanns fyrir að leiða valdaránið 1980. Hann var sakfelldur fyrir að hindra framgang lýðræðis með því að steypa Süleyman Demirel forsætisráðherra af stóli og leysa upp þingið, öldungaráðið og stjórnarskrána. Áfrýjun málsins var enn í meðferð þegar Evren lést.[1]

Kenan Evren gekk strax í tyrkneska herinn þegar hann hafði aldur til. Hann lauk námi við herskólann í Istanbúl árið 1938 og varð seinna liðsforingi í stórskotaliði hersins. Þegar Sameinuðu þjóðirnar gripu inn í Kóreustríðið sendu Tyrkir herlið þangað sem barðist undir formerkjum þeirra. Evren stjórnaði stórskotaliðsdeild tyrkneska herliðsins, sem varð rómað fyrir frammistöðu sína í stríðinu. Upp frá þessu varð Evren mjög hlynntur Bandaríkjamönnum.[2]

Evren var hækkaður í tign eftir að hann sneri heim frá Kóreu. Hann vann sig upp metorðastigann þar til hann var skipaður yfirmaður herráðsins, sem er æðsta staðan í hernum, árið 1977. Áður hafði hann verið varaformaður herráðsins. Í þessum embættum átti Evren í miklum samskiptum við hershöfðingja Atlantshafsbandalagsins sem gegndu störfum í Tyrklandi. Hann átti einnig í nokkrum samskiptum við Sovétmenn, meðal annars sem formaður nefndar hernaðarsérfræðinga sem fór til Moskvu árið 1975 í tilefni að því að Bandaríkin höfðu stöðvað vopnasölu til Tyrklands vegna innrásar Tyrkja í Kýpur.[2]

Þann 12. september 1980 stýrði Evren valdaráni hersins gegn borgaralegri ríkisstjórn Tyrklands. Hryðjuverkaalda var þá vaxandi í Tyrklandi og Evren hafði gert stjórnum Bülents Ecevit og Süleymans Demirel ljóst að ef ástandið skánaði ekki myndi herinn skerast í leikinn. Evren tók sér forsetavald eftir valdaránið og fól öryggisráði hersins að mynda ríkisstjórnina. Hann kvað helstu verkefni stjórnarinnar vera að koma á lögum og reglu og rétta við efnahag landsins, en að síðan myndi borgaraleg stjórn taka við völdum á ný.[2]

Stjórn Evrens lét banna starfsemi stjórnmálaflokka og lét ákæra og rétta yfir Bülent Ecevit fyrrum forsætisráðherra.[3] Árið 1982 kallaði Evren saman stjórnlagaþing til að semja nýja stjórnarskrá fyrir Tyrkland. Í nýju stjórnarskránni var töluvert hert að borgaralegum réttindum, meðal annars með takmörkunum á tjáningarfrelsi, verkfallsrétti og félagafrelsi. Vald forseta var jafnframt aukið og honum veitt víðtækt vald til að leysa upp þing, boða til kosninga og stjórna með stjórnartilskipunum í neyðaraðstæðum.[4] Um 97 prósent tyrkneskra kjósenda kusu að samþykkja stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt opinberum talningum. Evren var um leið formlega kjörinn forseti Tyrklands til sjö ára. Hann naut á þessum tíma almennra vinsælda vegna árangurs stjórnarinnar í efnahags- og öryggismálum.[5]

Herforingjastjórn Evrens aflétti banni við starfsemi stjórnmálaflokka í apríl árið 1983. Fyrir þingkosningar sama ár var aðeins þremur flokkum hins vegar gefið leyfi til að bjóða sig fram.[6] Af þeim voru tveir íhaldsflokkar sem voru hlynntir herforingjastjórninni en sá þriðji var Fósturjarðarflokkurinn, flokkur „alþýðusinna“ undir forystu Turguts Özal.[7] Fyrir kosningarnar lýsti Evren yfir stuðningi við flokk hershöfðingjans Turguts Sunalp, en vaxandi óvinsældir stjórnarinnar stuðluðu að því að sá flokkur hlaut minnst fylgi og flokkur Özals vann afgerandi sigur. Evren féllst í kjölfarið á að veita Özal stjórnarmyndunarumboð.[8]

Evren gegndi forsetaembættinu til ársins 1989, en þá var Özal kjörinn til að taka við af honum.[9]

Árið 2012 var Evren, ásamt hershöfðinganum Tahsin Şahinkaya, ákærður fyrir valdaránið 1980. Árið 2010 höfðu Tyrkir samþykkt breytingar á stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu sem afnam friðhelgi herforingjanna sem tóku þátt í valdaráninu. Evren sagðist ekki sjá eftir valdaráninu og að hann myndi frekar svipta sig lífi en mæta fyrir rétt.[10] Evren var dæmdur í lífstíðarfangelsi þann 18. júní 2014.[11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Kenan Evren ve Tahsin Şahinkaya hakkındaki dosya 6 aydır Yargıtay'a gönderilmedi“. Hürriyet. 24 nóvember 2014. Sótt 15 maí 2015.
  2. 2,0 2,1 2,2 Þórarinn Þórarinsson (20. september 1980). „Stefna Ataturks er leiðarljós Evrens“. Tíminn. bls. 6.
  3. Þórarinn Þórarinsson (1. apríl 1982). „Bannar herinn flokk Ecevits?“. Tíminn. bls. 7.
  4. „Í nýju stjórnarskránni verða miklar takmarkanir á frelsi manna“. Alþýðublaðið. 7. október 1982. bls. 1.
  5. Jóhanna Kristjónsdóttir (10. nóvember 1982). „Kosningaúrslitin í Tyrklandi koma auðvitað ekki á óvart“. Morgunblaðið. bls. 20.
  6. „Bannaðir stjórnmálaflokkar gera þingkosningar vafasamar“. Dagblaðið Vísir. 24. ágúst 1983. bls. 10.
  7. Jóhanna Kristjónsdóttir (9. september 1983). „Þremur stjórnmálaflokkum í Tyrklandi leyft að bjóða sig fram“. Morgunblaðið. bls. 23.
  8. Þórarinn Þórarinsson (12. nóvember 1983). „Kosningarnar í Tyrklandi voru að mestu sjónarspil“. Tíminn. bls. 7.
  9. „Özal forseti“. Þjóðviljinn. 1. nóvember 1989. bls. 6.
  10. „Ákærðir fyrir valdaránið 1980“. mbl.is. 10. janúar 2012. Sótt 3. apríl 2025.
  11. „Herforingjar dæmdir í Tyrklandi“. RÚV. 18. júní 2014. Sótt 3. apríl 2025.


Fyrirrennari:
Fahri Korutürk
Forseti Tyrklands
(12. september 19809. nóvember 1989)
Eftirmaður:
Turgut Özal