Keflavíkurgangan 1965

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Keflavíkurgangan 1965 var haldin af Samtökum hernámsandstæðinga þann 9. júní árið 1965. Þetta var fjórða Keflavíkurgangan og beindist gegn bandarískri hersetu á Íslandi. Hún var jafnframt haldin til minningar um að 25 ár voru liðin frá hernámi breta í seinni heimsstyrjöldinni.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Keflavíkurgangan 1965 var haldin í lok Menningarviku Samtaka hernámsandstæðinga sem haldin var í Lindarbæ.[1] Meðal minnisstæðra atburða í dagskrá hennar var frumflutningur á tónverki Páls Pálssonar við Sóleyjarkvæði, en sú útgáfa var síðar gefin út á hljómplötu.

Baráttan gegn neikvæðum menningarlegum áhrifum hersetunnar og Keflavíkursjónvarpinu sérstaklega var áberandi í tengslum við gönguna sem var haldin undir slagorðinu Lokið dátasjónvarpinu - lifi þjóðmenningin.

Tæplega 300 manns gengu af stað frá herstöðvarhliðinu á Miðnesheiði að loknu ávarpi Bryndísar Schram en fjölgaði talsvert í hópnum þegar á leið og var útifundurinn í göngulok í porti Miðbæjarskólans talinn afar fjölmennur. Morgunblaðið staðhæfði þó að meirihluti viðstaddra hefðu verið þar staddir fyrir forvitnissakir eða til að láta í ljós fyrirlitningu sína á göngunni. Þá tók blaðið fram að þegar lagt var af stað úr Kúagerði hefðu göngumenn verið 192 talsins, þar af helmingurinn konur og allmargt barna.[2]

Jón Múli Árnason útvarpsþulur var fundarstjóri, ávörp fluttu Magnús Kjartansson ritstjóri og Ingimar Erlendur Sigurðsson rithöfundur. Jóhannes úr Kötlum las ljóð. Í tengslum við gönguna og menningarvikuna var bryddað upp á þeirri nýjung að selja sérstakt göngumerki til fjáröflunar og kostaði það 50 krónur.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Keflavíkurgöngur - sögusýning á Landsbókasafni“ (PDF).
  2. „Morgunblaðið, 11. júní 1965“.