Kastalinn í Heidelberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kastalinn í Heidelberg gnæfir yfir borgina

Kastalinn í Heidelberg er stærsta og ein merkasta kastalarúst Þýskalands. Hann er jafnframt helsta kennileiti borgarinnar Heidelberg. Kastalinn var eyðilagður af Frökkum í erfðastríðinu í Pfalz 1693 og hefur verið rústir síðan.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf og höfuðborg ríkisins[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er vitað hvenær nákvæmlega kastalinn var reistur. Árið 1196 kemur borgin Heidelberg fyrst við skjöl og er talið að þá þegar hafi kastalavirki verið til staðar. Kastalinn sjálfur kemur ekki við skjöl fyrr en 1225. Líklegt er að lítið sé eftir af honum, því kastalinn hefur verið endurgerður og margstækkaður. Árið 1294 er í síðasta sinn minnst á kastalann í eintölu. Eftir það var hann stækkaður talsvert og var eins og heil borg innan múra. Árið 1400 var kjörfurstinn Ruprecht kosinn til konungs í þýska ríkinu. Hans aðsetur var þá þegar í kastalanum. Sem konungur lét hann stækka kastalann enn, því hann bjó þá þegar í þrengslum. Heidelberg var orðin að höfuðborg þýska ríkisins og nauðsynlegt að hýsa diplómata. Ruprecht lést 1410 og var Heidelberg, og kastalinn, því höfuðborg þýska ríkisins í tíu ár.

Marteinn Lúter[breyta | breyta frumkóða]

1518 var Marteinn Lúter í Heidelberg til að taka þátt í trúarkappræðum. Meðan á dvöl hans í Heidelberg stóð, sótti hann kastalann heim. Greifinn Wolfgang, bróðir kjörfurstans, sýndi honum allt og var leiðsögumaður hans. Í bréfi sem Lúter skrifaði eftirá sagðist hann vera mjög hrifinn af fegurð kastalans og hernaðarmætti hans.

30 ára stríðið[breyta | breyta frumkóða]

'Vetrarkonungurinn' Friðrik V leysti úr læðingi 30 ára stríðið

Í 30 ára stríðinu var í fyrsta hleypt af skoti á kastalann. Kjörfurstinn og kastalaherrann Friðrik V var gerður að konungi Bæheims í Prag 1619. Hann tapaði í orrustu við keisaraherinn og fór í útlegð til Niðurlanda. En keisaraherinn lét ekki þar við sitja. Árið 1622 fór Tilly hershöfðingi til Heidelberg og sat um borgina í þrjá mánuði, uns hún gafst upp. Tilly hertók borgina og nokkrum dögum síðar kastalann og sat þar um hríð. Ellefu árum seinna náði sænskur her að komast til borgarinnar. Þeir hertóku borgina og hófu skothríð á kastalann þar til hinn fámenni varðher keisarans gafst upp. Keisaraherinn mætti hins vegar aftur á staðinn ári seinna og hóf aftur skothríð á kastalann, þar til Svíar hrökluðust burt. Þegar 30 ára stríðinu lauk 1648 fékk sonur Friðriks að koma til Heidelberg og ríkja í kastalanum sem kjörfursti á ný.

Eyðilegging[breyta | breyta frumkóða]

Kastalinn í Heidelberg er stærsta kastalarúst Þýskalands

Erfðastríðið í Pfalz varð banabiti kastalans. Loðvík XIV konungur Frakklands gerði tilkall til héraðsins Pfalz og réðist því 1688 með her til Heidelberg, þar sem hún var höfuðborg héraðsins. Frakkar stórskemmdu kastalann og varnarmúra borgarinnar og fóru við svo búið til næstu borgar. Árið 1693 voru þeir aftur mættir til Heidelberg en þá sáu þeir að búið var að gera við varnarmúrana. Þeir náðu þó að hertaka hana í annað sinn. Þar sem þeir komust ekki inn í kastalann, eyðilögðu þeir borgina til að einangra kastalann og varðliðið þar. En strax daginn eftir gafst varðliðið upp. Frakkar tók þá einnig kastalann og voru ekkert að tvínóna við hlutina. Þeir eyðilögðu hann einnig og báru að lokum eld í allt. Þegar þeir yfirgáfu borgina var hún aðeins sót og aska. Þetta voru endalok kastalans. Heidelberg var byggð upp á ný en ekki kastalinn. Kjörfurstinn ákvað að flytja aðsetur sitt, þar sem borgarbúar vildu ekki endurreisa kastalann að hans hugmyndum. Hann stofnaði því borgina Mannheim og lét reisa sér glæsilegan kastala þar. Síðan þá hefur kastalinn í Heidelberg legið í rúsum.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Friedrichsbau er eini hluti kastalans sem hefur að hluta verið gerður upp

Á næstu öldum fóru borgarbúar stundum upp eftir til að ná í grjót og annað. Árið 1878 kom bandaríski rithöfundurinn Mark Twain til Heidelberg og skrifaði um kastalann í ferðabók. Síðla á 19. öld kom til tals að endurreisa kastalann og var skipuð nefnd til að hanna verkáætlun. En nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ógerlegt. Aðeins miðjuhúsið, Friedrichsbau, var að hluta gerður upp. Það hafði aldrei verið rústir en það hafði brunnið út og stórskemmst. Framkvæmdum lauk árið 1900. Eftir það er kastalinn einn vinsælasta kastalarúst Þýskalands. Aldamótaárið 2000 komu til dæmis ein milljón ferðamenn til Heidelberg. Árið 2004 sótti borgin um að kastalinn yrði settur á heimsminjaskrá UNESCO en umsókninni var hafnað. Hann er opinn almenningi til skoðunar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]