Fara í innihald

Kastalavirkið í Graz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kastalavirkið í borginni Graz í Austurríki liggur á 123ja metra hárri hæð í miðborginni. Uhrturm (Klukkuturninn) sem þar stendur er einkennismerki borgarinnar. Virkið gildir sem óvinnandi og er skráð í heimsmetabók Guinnes sem sterkasta virki heims. Samstæðan öll er á heimsminjaskrá UNESCO.

Saga virkisins

[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðsaga

[breyta | breyta frumkóða]

Til er þjóðsaga um tilurð hæðarinnar sem virkið stendur á. Íbúarnir í bænum báðu kölska um að búa til stóra klettahæð sem þeir gætu reist virki á. Kölski samþykkti en krafðist fyrir vikið sálina úr fyrsta manninum sem stigi upp hæðina. Þetta samþykktu íbúarnir. Þegar í stað fór kölski af stað og sótti gríðarstóran klett. En þegar hann kom til bæjarins á ný, tók hann eftir helgigöngu, enda var páskadagur. Á þeim degi hafði kölski engan mátt yfir mönnum. Í reiði sinni þeytti hann klettinum í átt að bænum. En kletturinn sprakk í tvennt. Stærri hlutinn varð að klettahæðinni þar sem nú stendur virkið. Minni hlutinn varð að smærri hæð sem í dag heitir Kalvaríuhæð.

Saga virkisins

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1125 var reist lítið virki á klettahæðinni og hlaut það nafnið Gradec á slóvensku, en af því er heitið Graz dregið. Eftir þetta var sífellt bætt við virkið og því umbreytt. Friðrik III keisari flutti í kastalavirkið um miðja 15. öld og varð Graz því höfuðborg þýska ríkisins í nokkur ár. Virkið tengdist borgarmúrum Graz og þótti óvinnanlegt. 1480 réðust Tyrkir (osmanir) á Graz, en fengu hvorki unnið borgina né virkið. 1532 var soldáninn Súleiman I aftur á ferð við Graz en náði heldur ekki að vinna borgina þá. Eftir þetta var virkið lagfært og umbreytt á ný. 1809 hertóku Frakkar Graz. Þeir náðu hins vegar ekki virkinu, því þar voru Austurríkismenn til varnar undir forystu ofurstans Franz Xaver Hackher zu Hart. Það var ekki fyrr en Frakkar hótuðu að eyðileggja Vín að Austurríkismenn ákváðu að opna virkið fyrir Frökkum. Þegar hinir síðastnefndu hugðust sprengja það, báðu íbúar Graz um að fá að bjarga tveimur turnum úr virkinu og var það leyft gegn háu gjaldi. Virkið var síðan sprengt. 1839 var almenningsgarður lagður í kringum rústirnar. Meðan heimstyrjöldin síðari geysaði voru neðanjarðarbirgi grafin undir rústunum en í þeim var rými fyrir 40 þúsund manns. Árið 1999 var kastalavirkið og allt sem tilheyrði því sett á heimsminjaskrá UNESCO. Virkið er einnig skráð í heimsmetabók Guinnes sem sterkasta virki heims.

Enginn akvegur liggur upp hæðina, en þangað má komast með ýmsu öðru móti.

Tannhjólabrautin

1894 var lögð járnbraut upp hæðina. Lengdin var einungis 212 metrar, en hæðarmunurinn var tæpir 109 metrar. Brattinn var því tæp 60%. Venjulegar járnbrautir réðu ekki við slíkan bratta, enda er hér um tannhjólabraut að ræða. Fyrstu vagnarnir, sem voru tveir, voru með sextán sæti og sextán stæði. Járnbraut þessi gekk fram til 1960 en þá var kerfið allt endurnýjað. Árið 2004 var járnbrautin endurnýjuð aftur og eru afar nýtískulegir.

1914 til 1918, meðan heimstyrjöldin fyrri geysaði, voru sérstakar tröppur höggnar í bergið upp í virkið. Í fyrstu unnu austurrískir hermenn að verkinu en seinni partinn voru rússneskir stríðsfangar notaðir í vinnuna. Því hlutu tröppurnar í fyrstu heitið Rússatröppur en heitinu var síðar breytt í Stríðströppur. Á árunum 1924-28 voru aðrar tröppur lagðar upp hæðina í tilefni af 800 ára afmæli borgarinnar Graz.

Árið 2000 var mikið gat borað í klettinn og í það sett lyfta upp í virkið. Lyfturnar eru reyndar tvær og ganga þær upp 77 metra lóðrétt upp. Þær geta borið fimmtán manns í einu og tekur ferðin um 30 sekúndur.

Klukkuturninn (með úri)

[breyta | breyta frumkóða]
Klukkuturninn er einkennisbygging Graz

Klukkuturninn er 28 metra hár turn við virkið og er einkennisbygging borgarinnar Graz. Hann var sennilega reistur á 13. öld (ekki nákvæmlega vitað) og kom fyrst við skjöl 1265. 1560 hlaut hann núverandi ásýnd. Á turninum er klukka á öllum fjórum hliðum. Núverandi vísar eru frá 1712 og eru vísihringarnir rúmlega fimm metrar í þvermáli. Utan um klukkurnar er yfirbyggður gangur allt í hring en frá honum var fylgst með eldhættu í miðborginni. Þegar Frakkar hertóku borgina ætluðu þeir að sprengja virkið og turninn með. En íbúar Graz báðu turninum griða og fengu að kaupa hann frían fyrir tæp 3.000 gyllini. Því stendur turninn enn. Í honum eru þrjár bjöllur. Stundabjallan glymur á klukkutíma fresti, en hún er frá 1382. Önnur er brunabjalla frá 1645 og átti að vara við eldsvoða. Þriðja klukkan var syndaklukkan frá því um 1450 en henni var hringt við aftökur. Á 19. öld var aftökum hætt en þá var bjallan notuð til að tilkynna lokunartíma á ölkelduhús í borginni. Turninn fékk ærlega andlitslyftingu árið 2008-2011. Fyrir neðan turninn er steinstytta af hundi. Þjóðsagan segir að geltandi hundur hafi bjargað Kunigunde, dóttir keisarans Friðriks III, frá því að verða handsömuð af ungverskum hermönnum. Í þakklætisskyni lét keisari gera þessa styttu.

Klukkuturninn (með bjöllum)

[breyta | breyta frumkóða]
Í klukkuturninum er þriðja stærsta bjalla Steiermark

Við virkið er annar turn, að þessu sinni með bjöllum. Hann var reistur 1588 af erkihertoganum Karli II og er 34 metra hár. Í turninum er þriðja stærsta bjalla Steiermark. Hún vegur 4,6 tonn og heitir Liesl (stytting af kvennafninu Elísabet). Bjalla þessi slær daglega 101 sinni kl. 7, 12 og 19. Siður þessi komst á sökum þess að bjallan var sögð gerð úr 101 fallbyssukúlu Tyrkja á 16. öld. Það er þó ekki sennilegt, því að bjallan er gerð úr bronsi. Klukkuturninn átti að falla er Frakkar sprengdu virkið en íbúar Graz fengu að bjarga honum gegn háu gjaldi. Í kjallaranum er dýflissa.

Tómasarkapellan

[breyta | breyta frumkóða]
Tómasarkapellan eru rústir einar

Á 12. öld var lítil kapella reist á hæðinni, um það leyti sem virkið sjálft varð til. Kapellan var helguð Tómasi postula og var hringlaga. Hún var ekki sprengd er Frakkar eyddu virkinu, en þeir tóku hins vegar þakið af kapellunni, enda var það gert úr kopar. Veggirnir hrundu svo með tímanum og grjótið var oft borið burt og notað annars staðar. Í dag er eingöngu grunnurinn eftir.

Fallbyssuhúsið

[breyta | breyta frumkóða]

Fallbyssuhúsið var reist um miðja 16. öld og var í upphafi hluti af virkinu. Í húsinu voru fjórar fallbyssur sem hlutu gælunafnið Guðspjallamennirnir fjórir. Frakkar tóku fallbyssurnar 1809 sem herfang og sprengdu síðan virkið. Fallbyssuhúsið nær gjöreyðilagðist við það. 1978-79 var húsið endurreist. Þar eru í dag tvær stórar og tvær litlar fallbyssur sem smíðaðar voru í París. Í húsinu er hermannasafn opið almenningi.

Starcke-húsið

[breyta | breyta frumkóða]
Starcke-húsið. Í forgrunni er Tyrkjabrunnurinn.

1575 var reist mikið vopnabúr við virkið. 1809 sprengdu Frakkar húsið ásamt virkinu öllu. Á rústum hússins reisti dr. Bonaventura Hödl víngerðarhús 1820 og bjó til víngarð í hlíðinni fyrir neðan húsið. Vínviður vex þar enn en húsinu var breytt um aldamótin 1900. Þar bjó þá konunglegi leikarinn Gustav Starcke til 1921 og samdi ljóð. Í dag er veitingahús í Starcke-húsinu, en þaðan er gott útsýni yfir vesturhluta borgarinnar Graz.

Tyrkjabrunnurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Brunnurinn var grafinn 1554-58 og gengur 94 metra niður að grunnvatni árinnar Mur. Núverandi heiti hlaut brunnurinn ekki fyrr en á 19. öld þar sem tyrkneskir fangar voru fengnir til að grafa fyrir honum. Brunnurinn sjálfur skemmdist ekki við sprengingu virkisins, en öll aðstaða til að ná í vatnið eyðilagðist 1934.

1544-47 var gríðarstórt ker höggvið í grjótið og átti að safna regnvatni. Vatn þetta átti að koma til góðs ef ske kynni að gert væri umsátur um Graz og virkið einangrað. Kerið er sextán metra djúpt og tekur 900 þúsund lítra af vatni. Vatnið var síðan síað og leitt burt. Á rigningarlausum dögum var sett fagurlega skreytt lok á keropið. Vatnið er í dag notað fyrir slökkviliðið ef kvikna skyldi í í virkinu.