Fara í innihald

Karol Nawrocki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karol Nawrocki
Karol Nawrocki árið 2025.
Forseti Póllands
Tekur við embætti
6. ágúst 2025
ForsætisráðherraDonald Tusk
ForveriAndrzej Duda
Formaður Minningastofnunar þjóðarinnar Póllands
Núverandi
Tók við embætti
23. júlí 2021
Persónulegar upplýsingar
Fæddur3. mars 1983 (1983-03-03) (42 ára)
Gdańsk, Póllandi
ÞjóðerniPólskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
Hæð1,86 m
MakiMarta Nawrocka
Börn3
BústaðurSiedlce, Gdańsk
MenntunDoktorspróf í sagnfræði
HáskóliHáskólinn í Gdańsk
Tækniháskólinn í Gdańsk
Laun18.676,17 PLN

Karol Tadeusz Nawrocki (f. 3. mars 1983) er pólskur sagnfræðingur, fyrrum atvinnuíþróttamaður og stjórnmálamaður sem er verðandi forseti Póllands.[1] Hann hefur verið formaður Þjóðminningarstofnunar Póllands frá árinu 2021 og var safnstjóri Safns um seinni heimsstyrjöldina í Gdańsk frá 2017 til 2021. Nawrocki bauð sig fram í forsetakosningum Póllands árið 2025 með stuðningi Laga og réttlætis og bar sigur úr býtum í seinni umferð þeirra gegn Rafał Trzaskowski, borgarstjóra Varsjár.[2]

Karol Nawrocki er fyrrverandi hnefaleikakappi. Hann er með doktorspróf í sagnfræði frá Háskólanum í Gdańsk. Fyrir forsetakjör sitt var Nawrocki forstöðumaður Þjóðminningarstofnunar, sem sinnir rannsóknum á nútímasögu Póllands og á glæpum nasista og kommúnistastjórnar landsins á 20. öld. Í því embætti hóf stofnunin herferð til að rífa niður minnisvarða frá kommúnistatímanum. Nawrocki stýrði jafnframt safni um seinni heimsstyrjöldina í Gdańsk en var þar gagnrýndur fyrir að draga úr þætti helfararinnar í sögu stríðsins í Póllandi.[3]

Nawrocki varð forsetaframbjóðandi í forsetakosningum Póllands árið 2025 með stuðningi stjórnmálaflokksins Laga og réttlætis. Í kosningabaráttunni stillti hann sér upp sem hluta af alþjóðlegri hreyfingu þjóðernissinnaðra íhaldsmanna og naut stuðnings erlendra leiðtoga á borð við Donald Trump Bandaríkjaforseta og Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands. Nawrocki lofaði að stórefla pólska herinn og halda áfram stuðningi við Úkraínu í stríði landsins við Rússland. Hann gagnrýndi hins vegar úkraínskt flóttafólk sem hafði komið til Póllands vegna stríðsins.[3]

Í kosningabaráttunni vakti sjö ára gamalt viðtal við Nawrocki athygli, en hann hafði veitt viðtalið í dulargervi undir dulnefninu Tadeusz Batyr og hafði hrósað sjálfum sér í hástert fyrir fræðastörf sín. Á sama tíma hafði Nawrocki einnig birt samfélagsmiðlafærslu þar sem hann sagðist hafa hitt Batyr til að leiðbeina honum og kallaði bók sem birt var undir hans nafni áhugaverða.[4]

Í fyrstu umferð tapaði hann fyrir Rafał Trzaskowski með 29,54% atkvæða gegn 31,36%. Í seinni umferð forsetakosninganna, sem fram fór 1. júní 2025, vann Nawrocki sigur. Hann hlaut 50,89 prósent atkvæðanna en mótframbjóðandi hans, Rafał Trzaskowski, hlaut 49,11 prósent.[5]

Stjórnmálaskoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

Nawrocki er á móti því að Úkraína gerist aðili að NATO og Evrópusambandinu þar til leyst hefur verið úr ágreiningi í samskiptum Póllands og Úkraínu, þar á meðal með skilum á líkamsleifum Pólverja sem voru í myrtir í seinni heimsstyrjöldinni.[6] Hann er mótfallinn innflytjendastefnu ESB og hefur tilkynnt að hann ætli að segja upp flóttamannasamningi sambandsins.[7] Á þingflokksþingi sínu kynnti hann „Áætlun 21“ sem felur meðal annars í sér: tryggingu um að ekki verði hækkaðir skattar, lækkun virðisaukaskatts, hækkun annars skattþreps, núllskatt á tekjuskatt fyrir fjölskyldur með að minnsta kosti tvö börn, auk þess að fella niður erfðafjárskatt og fjármagnstekjuskatt.[8][9] Síðar lagði hann einnig fram tillögur um þróun kjarnorku, á meðan kol væri áfram notað til bráðabirgða.[10]

Þann 5. apríl 2025 kynnti Nawrocki landbúnaðaráætlun sína þar sem hann lýsti yfir andstöðu gegn evrópska græna sáttmálanum og samningum ESB við Mercosur-ríkin. Hann gagnrýndi nýjar reglugerðir sem takmarka landbúnaðarframleiðslu, byggingu vindmylla nálægt byggðum og afnám takmarkana á innflutningi matvæla frá Úkraínu. Einnig boðaði hann styrkingu stuðningskerfa og sérkjara lánveitinga fyrir fjölskyldubú. Hann sagðist vilja að pólskir bændur hlytu forgangsmeðferð og að takmarkanir á kaupum útlendinga á landbúnaðarjörðum sem gilda til ársins 2026 yrðu framlengdar.[11]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Markús Þ. Þórhallsson (2. júní 2025). „Karol Nawrocki er næsti forseti“. RÚV. Sótt 3. júní 2025.
  2. „Wybory prezydenckie 2025: Kiedy Karol Nawrocki zostanie Prezydentem RP? [TERMINY]“. www.gazetaprawna.pl (pólska). 2 júní 2025. Sótt 2 júní 2025.
  3. 3,0 3,1 Rafn Ágúst Ragnarsson (2. júní 2025). „Ný­kjörinn for­seti Pól­lands: Trú­rækinn sagn­fræðingur og fyrr­verandi hnefaleikakappi“. Vísir. Sótt 3. júní 2025.
  4. „Fór í dulargervi til að lofsama sjálfan sig“. mbl.is. 29. mars 2025. Sótt 3. júní 2025.
  5. „Nawrocki kjörinn forseti Póllands“. mbl.is. 2. júní 2025. Sótt 3. júní 2025.
  6. „Zełenski odpowiedział Nawrockiemu. Dworczyk: jego wypowiedź była niepotrzebna i należy ją skrytykować“. www.pap.pl. PAP. 16 janúar 2025.
  7. „Nawrocki: Jak zostanę prezydentem, jednostronnie wypowiem pakt migracyjny“. www.gazetaprawna.pl (pólska). 8 febrúar 2025. Sótt 7 júní 2025.
  8. Nawrocki, K. (2025, 2. mars). Karol Nawrocki ogłosił 'Plan 21'. Co zawiera? WP Wiadomości. https://wiadomosci.wp.pl/karol-nawrocki-oglosil-plan-21-co-zawiera-7130814394903488a
  9. „Nawrocki przedstawił "plan 21". Są obietnice zmian podatkowych“. Do Rzeczy (pólska). 2. mars 2025. Sótt 7 júní 2025.
  10. „Karol Nawrocki wchodzi do drugiej tury. Jaki jest jego program wyborczy?“. Business Insider Polska (pólska). 29 maí 2025. Sótt 7 júní 2025.
  11. „Stop Zielonemu ładowi, wsparcie dla rolników. Nawrocki z planem dla polskiej wsi“. Bankier.pl (pólska). 5 apríl 2025. Sótt 7 júní 2025.


Fyrirrennari:
Andrzej Duda
Forseti Póllands
(6. ágúst 2025 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.