Fara í innihald

Karl Liebknecht

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl Liebknecht
Liebknecht í kringum 1912.
Fæddur
Karl Paul August Friedrich Liebknecht

13. ágúst 1871
Dáinn15. janúar 1919 (47 ára)
ÞjóðerniÞýskur
MenntunBerlínarháskóli
StörfStjórnmálamaður, lögfræðingur, byltingarmaður
Flokkur
Maki
Börn3
ForeldrarWilhelm Liebknecht (faðir)
Natalie Reh Liebknecht (móðir)

Karl Paul August Friedrich Liebknecht (13. ágúst 1871 – 15. janúar 1919) var þýskur stjórnmálamaður og sósíalískur byltingarmaður.

Liebknecht var í upphafi meðlimur í þýska Jafnaðarmannaflokknum (SPD), sem faðir hans, Wilhelm Liebknecht, hafði einnig verið í. Á vettvangi flokksins barðist hann fyrir rétti ungmenna til að vera meðlimir í stjórnmálasamtökum og sér í lagi gegn hernaðarhyggju. Bók Liebknecht um andstöðu við hernaðarhyggju leiddi til þess að hann var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar. Hann var kjörinn á prússneska landsþingið á meðan hann afplánaði dóminn.

Liebknecht var á móti þátttöku Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni, sem leiddi til þess að hann var fangelsaður á ný og rekinn úr Jafnaðarmannaflokknum. Á tíma stríðsins stofnaði hann ásamt Rosu Luxemburg Spartakistabandalagið og síðan Kommúnistaflokk Þýskalands (KPD) undir lok styrjaldarinnar. Um tveimur vikum eftir stofnun flokksins var Liebknecht myrtur ásamt Luxemburg þegar ný stjórnvöld Þýskalands bældu niður uppreisn Spartakista í Berlín.

Karl Liebknecht fæddist árið 1871 og var sonur Wilhelms Liebknecht, sem var helsti leiðtogi þýska Jafnaðarmannaflokksins ásamt August Bebel undir lok 19. aldar. Faðir Liebknechts var handtekinn ásamt Bebel á tíma fransk-prússneska stríðsins fyrir að mótmæla stríðinu. Karl Liebknecht ólst því upp bæði við sósíalisma og andstöðu gegn hernaðarstefnu. Eftir að Liebknecht lauk námi gekk hann í ungliðahreyfingu sósíalista og varð einn helsti leiðtogi hennar á alþjóðavettvangi. Hann var kjörinn forseti alþjóðasambands ungra sósíalista á fyrsta heimsþingi þeirra í Stuttgart árið 1902.[1] Liebknecht var kjörinn í borgarstjórn Berlínar árið 1901.[2]

Árið 1907 gaf Liebknecht út bókina Militarismus und Antimilitarismus (ísl. Hernaðarstefnan og baráttan gegn henni). Bókin var bönnuð í Þýskalandi en var þýdd á fjölda tungumála og náði mikilli útbreiðslu. Í bókinni færði Liebknecht rök fyrir því að auðvaldsstefna stæði að baki hernaðarstefnu og sagði nauðsynlegt að jafnaðarmenn beittu sér gegn henni, einkum þar sem heimsstyrjöld væri bersýnilega yfirvofandi. Jafnframt lagði hann áherslu á hlutverk æskulýðsins í baráttu gegn hernaðarstefnu stjórnarinnar.[1] Þýsk stjórnvöld höfðuðu landráðamál gegn Liebknecht vegna bókarinnar og dæmdu hann til fangelsisvistar, sem hann afplánaði frá 24. nóvember 1907 til 1. júní 1909. Þegar hann losnaði úr fangelsi var búið að kjósa Liebknecht á þing Prússlands.[2]

Liebknecht var kjörinn á þýska ríkisþingið í ársbyrjun 1912 fyrir „keisarakjördæmið“ svokallaða, sem náði yfir Potsdam og nágrenni þess. Hann var fyrsti sósíalistinn sem náði kjöri þar. Á þeim vettvangi beitti hann sér af æ meira afli gegn hernaðarstefnu stjórnvalda.[2] Árið 1913 las Liebknecht upp fjölda leyniskýrslna frá vopnaframleiðslunni Krupp á ríkisþinginu til að sýna fram á að Krupp hefði beitt iðnnjósnum gegn keppinautum sínum til að afla sér einokunar á vopnasölu til ríkisins og hefði stórhækkað verð á brynstáli og fallbyssum á kostnað þýskra skattgreiðenda. Liebknecht krafðist opinberrar rannsóknar á Krupp, sem var hleypt af stokkunum en hún síðan felld niður. Bernhard von Bülow lét síðan reka Liebknecht úr rannsóknarnefndinni og var Liebknecht síðan gerður ábyrgur fyrir öllu málinu.[3]

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 tók forysta Jafnaðarmannaflokksins með Friedrich Ebert og Philipp Scheidemann í fararbroddi upp svokallaða „kastalafriðarstefnu“ (þ. Burgfrieden), sem fólst í því að styðja stríðsrekstur þýsku keisarastjórnarinnar frekar en að vinna gegn stríðinu ásamt alþjóðlegu verkalýðshreyfingunni. Liebknecht var einn fárra meðlima flokksins sem neituðu að styðja stríðið.[4] Þann 2. desember 1914 greiddi Liebknecht atkvæði gegn fjárveitingum til stríðsins á ríkisþinginu og var í kjölfarið rekinn úr þingflokki Jafnaðarmanna.[1]

Á stríðstímanum barðist Liebknecht opinskátt fyrir því að uppreisn yrði gerð gegn stríðsrekstrinum. Árið 1915 stofnaði hann hið svokallaða Spartakistabandalag ásamt Clöru Zetkin, Rosu Luxemburg, Franz Mehring og Wilhelm Pieck og hóf að dreifa mótmælabæklingum gegn stríðinu með undirskriftinni „Spartakus“.[5]

Þann 1. maí 1916 var Liebknecht handtekinn á meðan hann hélt útiræðu gegn stríðinu og ríkisstjórninni á Potsdamer Platz í Berlín. Liebknecht var ákærður fyrir landráð og dæmdur í fjögurra ára fangelsi.[1] Liebknecht var látinn laus þann 23. október 1918, þegar staða Þýskalands hafði hríðversnað og landið rambaði á barmi byltingar. Liebknecht hélt umsvifalaust áfram að mótmæla stjórninni og kalla eftir stjórnarbyltingu. Var hann þá orðinn vinsælt tákn fyrir baráttu verkalýðsins gegn stríðinu, sem hafði kostað ótal mannslíf.[6]

Stuttu eftir að Liebknecht var látinn laus sömdu ný stjórnvöld Þýskalands um vopnahlé í styrjöldinni og var henni þar með lokið með ósigri Þjóðverja. Um svipað leyti braust nóvemberbyltingin svokallaða út í Þýskalandi, sem leiddi til hruns þýska keisaradæmisins og stofnunar Weimar-lýðveldisins. Þann 9. nóvember 1918 dró Liebknecht rauðan fána að húni yfir keisarahöllinni í Berlín og lýsti yfir stofnun sósíalísks lýðveldis í Þýskalandi.[5] Eiginlegir leiðtogar byltingarstjórnarinnar urðu hins vegar Friedrich Ebert og aðrir jafnaðarmenn sem nutu stuðnings sjóhersins og fríliðasveita. Liebknecht, Luxemburg og félögum þeirra varð hins vegar lítið ágengt samstarfi við þá og því sleit Spartakistabandalagið sambandinu við Jafnaðarmannaflokkinn í janúar 1919 og stofnaði Kommúnistaflokk Þýskalands.[5]

Í janúar 1919 braust út vopnuð uppreisn verkamanna gegn nýju stjórninni í Berlín. Þótt Liebknecht hefði ekki átt frumkvæði að uppreisninni gekk hann til liðs við hana sem foringi eftir að hún var hafin. Uppreisnin var barin niður á skömmum tíma og hóf stjórn lýðveldisins þá hatramma leit að Liebknecht og Luxemburg. Þau neyddust til að fara í felur en þann 15. janúar voru þau bæði handtekin ásamt Wilhelm Pieck og framseld sveitum hvítliða á Eden-hótelinu. Þau Liebknecht og Luxemburg voru bæði skotin til bana án dóms og laga fyrir utan hótelið um kvöldið.[6]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Karl Liebknecht“. Þjóðviljinn. 15. janúar 1941. bls. 2–3.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Karl Liebknecht“. Réttur. 1. ágúst 1971. bls. 135–138.
  3. Sven Ulric Palme (1. desember 1952). „Fallbyssukóngar og keisarar“. Úrval. bls. 35–40.
  4. Hjörleifur Guttormsson (12. febrúar 1959). „Örlagavetur á Þýzkalandi fyir 40 árum“. Nýi tíminn. bls. 7; 5.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Hinir sigruðu í dag verða sigurvegarar framtíðarinnar“. Þjóðviljinn. 15. janúar 1959. bls. 17.
  6. 6,0 6,1 „Morðin á Rósu Luxemborg og Karli Liebknecht“. Þjóðviljinn. 15. janúar 1969. bls. 6–7.