Kaldársel
Kaldársel er austan við Hafnarfjörð í nágrenni Helgafells. Þar rennur Kaldá sem staðurin heitir eftir. Þar eru sumarbúðir KFUK
Sumarbúðirnar í Kaldárseli eru í hrauninu ofan við Hafnarfjörð. Þar er fjöldi hella sem vert er að skoða. Hjá Kaldárseli rennur Kaldá sem gefur staðnum skemmtilegan svip og tækifæri til að vaða á hlýjum dögum eða sigla litlum duggum. Í næsta nágrenni við Kaldársel eru spennandi staðir, svo sem vinin Valaból, eldstöðin Búrfell, móbergsfjallið Helgafell, ýmsir hellar, skóglendi og önnur útivistarsvæði sem gaman er að skoða.
Skálinn í Kaldárseli er tvískiptur. Í vestari hluta er eldhús, matsalur, salernisaðstaða, tveir svefnsalir, auk þriggja minni herbergja. Í austari hluta er íþróttasalur, tómstundaherbergi, kvöldvökusalur, svefnsalur, tvö svefnherbergi, salernisaðstaða og geymslur. Elsti hluti skálans er frá 1925 en tvisvar hefur verið byggt við hann.