Fara í innihald

Kárahnjúkavirkjun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kárahnúkar)
Kárahnjúkavirkjun (Fljótsdalsstöð)
Kárahnjúkastífla ágúst 2008
Byggingarár 2003-2007
Afl 690 MW
Virkjað vatnsfall Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og fleiri
Fallhæð 599 m
Framleiðslugeta 4.600 gígavattsstundir/ári
Meðalrennsli 110 /sek
Fjöldi hverfla 6 vélasamstæður
Tegund hverfla Francis á lóðréttum ási
Aðrennslisgöng 40 km löng
Frárennslisgöng 1,3 km út í Jökulsá á Fljótsdal
Eigandi Landsvirkjun

Kárahnjúkavirkjun öðru nafni Fljótsdalsstöð er 690 MW vatnsaflsvirkjun á hálendi Íslands norðan Vatnajökuls.

Virkjunin sér álveri Alcoa í Reyðarfirði fyrir raforku. Virkjaðar eru jökulár Vatnajökuls: Jökulsá á Dal (Jökulsá á Brú), Jökulsá í Fljótsdal, Kelduá og þrjár þverár hennar. Mannvirkið sem slíkt hefur verið nefnt stærsta framkvæmd Íslandssögunnar. Undirbúningur að verkinu hófst árið 1999, framkvæmdir hófust 2002 og loks var virkjunin formlega gangsett 30. nóvember 2007.[1][2]

Aðstæður og verklýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Jökulsá á Dal var virkjuð með þremur stíflum og er Kárahnjúkastífla stærst þeirra (198 m há) við syðri enda Hafrahvammagljúfurs. Vestan Kárahnjúkastíflu er Sauðárdalsstífla (29 m) og austan megin er Desjarárstífla (68 m). Við þessar stíflur myndaðist Hálslón, sem er 57 km² stórt miðlunarlón.

Jökulsá í Fljótsdal var stífluð um 2 km neðan við Eyjabakkafoss með Ufsarstíflu (37 m), en við það myndaðist Ufsarlón, 1 km² að flatarmáli. Auk þessa var vatni veitt austan að af Hrauni í Ufsarlón um miðlunarlónið Kelduárlón (7,5 km², þar sem áður var Folavatn) með stíflun Kelduár ásamt þremur þverám hennar, Grjótá, Innri- og Ytri-Sauðá.

Vatninu úr Hálslóni og Ufsarlóni er svo veitt með sitthvorum jarðgöngunum sem sameinast undir miðri Fljótsdalsheiði í sameiginleg aðrennslisgöng (alls 40 km löng) að stöðvarhúsi virkjunarinnar sem var grafið inn í Valþjófsstaðafjall í Fljótsdal. Úr stöðvarhúsinu er vatninu svo veitt út í Lagarfljót sem rennur út í Héraðsflóa. og svo framvegis

Undirbúningur

[breyta | breyta frumkóða]

Hallormsstaðaryfirlýsingin

[breyta | breyta frumkóða]

Dagana 28-29. júní 1999 hittust forsvarsmenn Norsk Hydro, Landsvirkjunar og íslenskra stjórnvalda við Hallormsstaði og undirrituðu viljayfirlýsingu þess efnis að athuga skyldi hvort hagkvæmt væri að byggja álver í Reyðarfirði. Gengið var út frá því að Fljótsdalsvirkjun myndi sjá álverinu fyrir 210 MW af rafmagni og að það geti árlega framleitt 120 þúsund tonn af áli með möguleika á stækkun upp í 480 þúsund tonn. Eignarhaldsfélagið NORAL átti að stofna til þess að halda utan um rekstur álbræðslunnar og átti rekstur að hefjast fyrir lok 2003. Ekkert varð úr þessu þótt leyfi hefði fengist fyrir Fljótsdalsvirkjun vegna þess að aðilar sem að framkvæmdinni komu töldu þörf á stærri virkjun.

Kárahnjúkavirkjun komin á dagskrá

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 24. maí 2000 var komið annað hljóð í strokkinn því nú átti að athuga hvort ekki væri hægt að reisa álver sem framleiddi „240 þúsund tonn á ári, og er gert ráð fyrir að hún verði síðar aukin í 360 þúsund tonn á ári“ og til þess þurfti stærri virkjun, Kárahnjúkavirkjun. Enn fremur var reiknað með því að framleiðsla gæti orðið allt að 480 þúsund tonn á ári og að framkvæmdum yrði lokið einhvern tímann á árinu 2006.

Þann 20. apríl 2001 fékk Skipulagsstofnun afhenta matskýrslu frá Landsvirkjun og 4. maí 2001 var hún gerð aðgengileg almenningi. Skipulagsstofnun úrskurðaði 1. ágúst 2001 að leggjast gegn framkvæmdinni sökum umhverfisáhrifa. Þá ákvað Norsk Hydro að fresta um hálft ár, frá 1. febrúar 2002 og til 1. september 2002, ákvörðun um það hvort úr virkjuninni yrði.[3] Þann 20. desember sama ár ákvað þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, að fella úrskurðinn úr gildi með ákveðnum fyrirvörum.[4][5]

Skýrsla Gríms Björnssonar

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að umhverfisráðherra hafði ógilt úrskurð Skipulagsstofnunar sendi Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, í febrúar 2002 athugasemdir sínar þar sem hann fann umhverfismatinu eitt og annað til foráttu. Skýrslan var þá merkt sem trúnaðarmál og kom hvorki þingmönnum né almenningi fyrir sjónir um sinn. Greinin var birt á heimasíðu hans 17. mars 2003.[6] Í henni kemur fram að landsig undan Hálslóni gæti takmarkað miðlunargetu þess, að óöruggt væri að reisa svo stóra stíflu á eldvirku svæði og að áhrifin á lífríki hafsins í kring væru vanmetin. Í kjölfarið var honum meinað af yfirmönnum sínum um að tjá sig um virkjunina sökum hagsmunaárekstra þar sem Landsvirkjun og OR væru í beinni samkeppni.[7][8] Þá dró til tíðinda 24. ágúst 2006 þegar tilkynnt var um ákvörðun forstjóra OR að leyfa honum á ný að tjá sig opinberlega um Kárahnjúkavirkjun.[9]

ALCOA hleypur í skarðið

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 23. mars 2002 tilkynnti Norsk Hydro að sökum yfirtöku á þýska álframleiðslufyrirtækinu VAW Aluminium AG hefði fyrirtækið í hyggju að fresta virkjunarframkvæmdum um ókominn tíma. Í fréttayfirlýsingu kom einnig fram að skilningur ríkti um að íslensk stjórnvöld og fjárfestar gætu leitað fjárfestingar til annarra fyrirtækja.

Þann 16. apríl 2002 samþykkti Alþingi ný lög um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.[10] Þreifanir á milli iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Alcoa hófust fljótlega og strax tæpum mánuði eftir yfirlýsingu NORAL-hópsins, 19. apríl, var undirrituð viljayfirlýsing um að Alcoa tæki við af Norsk Hydro þar sem frá var horfið. Þar kom einnig fram að sérstök undirstofnun iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins Fjárfestingarstofan (e. Invest in Iceland) hefði milligöngu fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar.

Þann 23. maí 2002 var gefin út önnur viljayfirlýsing um áframhaldandi athuganir og miðað við að frekari fréttir myndu berast þann 18. júlí, tæpri viku eftir stjórnarfund Alcoa.

Í millitíðinni gáfu alþjóðlegu náttúru- og dýraverndunarsamtökin WWF út fréttatilkynningu þar sem þau fordæmdu fyrirætlanir Alcoa að eyðileggja á óafturkræfan hátt íslenska náttúru og skoruðu á fyrirtækið að hætta við framkvæmdirnar.

Þann 19. júlí undirrituðu Valgerður Sverrisdóttir þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar og G. John Pizzey einn af mörgum aðstoðarforstjórum Alcoa enn eina viljayfirlýsinguna þar sem fram kom að stefnt væri að samvinnu en komast þyrfti að samkomulagi um grunnforsendur fyrir marslok 2003. Nú var miðað við að árleg afkastageta álversins yrði 295 þúsund tonn og að uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar yrði 630 MW og jafnframt að hún yrði tilbúin snemma á 2007 eða jafnvel fyrr. Þegar voru hátt í 80 manns í ýmiss konar verkavinnu á Kárahnjúkasvæðinu til undirbúnings fyrir frekari framkvæmdir, þ.m.t. lagningu Kárahnjúkavegar og byggingu brúar yfir Jökulsá á Brú.

Þann 15. nóvember 2002 ákvað Norsk Hydro og Hæfi að selja eignarhluti sína í Reyðaráli til Alcoa.[11]

Þann 6. desember átti ítalska verktakafyrirtækið Impregilo lægsta tilboðið í gerð stíflu og jarðganga fyrir virkjunina. Kostnaðaráætlun Landsvirkjunar hljóðaði upp á 50 milljarða króna fyrir bæði verkefnin en Ítalirnir buðu samtals liðlega 44 milljarða króna, þ.e. 6 milljörðum króna undir áætluninni. Tæpri viku seinna birtist eftirfarandi fréttayfirlýsing:

„Samninganefndir Alcoa og Landsvirkjunar luku í dag við gerð raforkusamnings vegna fyrirhugaðs 322.000 tonna álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Á sama tíma var lokið vinnu við samninga á milli Alcoa, ríkisins, Fjarðabyggðar og Hafnarsjóðs Fjarðabyggðar.

Lögfræðingar aðila munu yfirfara samningstexta og verða samningarnir áritaðir fyrir áramót.

Raforkusamningurinn verður lagður fyrir stjórnir fyrirtækjanna til staðfestingar. Iðnaðarráðherra mun leggja fram heimildarfrumvarp vegna samninganna þegar Alþingi kemur saman að loknu jólaleyfi. Jafnframt verða samningar sem Fjarðabyggð er aðili að teknir til afgreiðslu hjá bæjaryfirvöldum þar.

Álverinu er ætlað að hefja framleiðslu árið 2007.“

Þann 12. desember 2002 hófust sprengingar við jarðgöng stíflustæðisins, aðalverktaki var ÍAV og undirverktaki þeirra norsk-sænska fyrirtækið NCC, verkinu lauk í mars 2003.

Samningar í höfn

[breyta | breyta frumkóða]

Landsvirkjun skrifaði undir rafmagnssamninga við Alcoa, sem getið var í síðustu viljayfirlýsingu, þann 10. janúar. Helgi Hjörvar stjórnarmaður Landsvirkunar samþykkti ekki samninginn og lagði fram bókun þar sem fram kom að hann taldi framkvæmdina ekki nægilega arðbæra.

Þann 12. mars 2003 tóku lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði gildi.[12] Lögin voru samþykkt af 41 þingmanni, atkvæði á móti greiddu Rannveig Guðmundsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir (þingmenn Samfylkingarinnar), Katrín Fjeldsted (þingmaður Sjálfstæðisflokks) og Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson (þingmenn Vinstri grænna). Pétur Bjarnason, varaþingmaður Frjálslynda flokksins, sat hjá við atkvæðagreiðsluna en 12 þingmenn voru fjarverandi. Við þriðju umræðu ofangreindra laga lögðu sex þingmenn Vintri grænna breytingartillögu þar sem sá fyrirvari var gerður á lagasetningunni að hún yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða Alþingiskosningum seinna sama ár, tillagan var felld með 35 atkvæðum gegn 6.[13]

Þann 15. mars voru undirritaðir endanlegir samningar um Kárahnjúkavirkjun og Álverið í Reyðarfirði. Fyrir hönd íslenska ríkisins skrifuðu ráðherrarnir Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir, Alain J.P. Belda forstjóri og B. Michael Baltzell, framkvæmdastjóri Alcoa á Íslandi, fyrir hönd Alcoa, Jóhannes Geir Sigurgeirsson stjórnarformaður og Friðrik Sophusson forstjóri fyrir hönd Landsvirkjunar og Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri fyrir hönd Fjarðabyggðar og hafnarsjóðs Fjarðabyggðar og voru þúsund manns viðstödd athöfnina. Sagt var að „[s]annkölluð þjóðhátíðarstemmning“ hefði verið ríkjandi á svæðinu og að samningar hefðu verið undirritaðir „eftir nærri þriggja áratuga bið“.

Undir lok fagnaðarhaldanna vitnaði Valgerður Sverrisdóttir í ljóð Einars Benediktssonar:

„Of lengi í örbirgð stóð

einangruð, stjórnlaus þjóð,
kúguð og köld.
Einokun opni hramm.
Iðnaður, verslun fram!
Fram! Temdu fossins gamm,

framfara öld.“

Þremur dögum seinna skrifuðu Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Gianni Porta, verkefnisstjóri hjá Impregilo undir formlega eftir útboðið á gerð stíflu og jarðganga í desember ríflega þremur mánuðum fyrr. Á næsta einu og hálfa árinu keypti Impregilo vinnu og þjónustu af íslenskum fyrirtækjum að andvirði 8,3 milljörðum kr.

Framkvæmdir

[breyta | breyta frumkóða]
Kárahnjúkastífla í byggingu

Verktaki Landsvirkjunar við byggingu stíflu við Hálslón og aðrennslisganga var ítalska verktakafyrirtækið Impregilo. Einnig voru önnur verktakafyrirtæki með aðra verkhluta, m.a. Suðurverk ehf. og Arnarverk ehf. með stíflu og gangagerð. ásamt mörgum öðrum. Fosskraft sá um byggingu stöðvarhússins í Valþjófsstaðafjalli skv. samningi að andvirði 8,3 milljarðar kr.

Heildarkostnaður við byggingu virkjunarinnar var 133 milljarðar kr. á verðlagi sept. 2007.[14] Ljóst var frá byrjun að flytja þyrfti inn töluvert af erlendu vinnuafli á meðan á framkvæmdunum stæði. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið gaf út skýrsluna „Mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda 2003-2008.“ þar sem fram kom að eftirspurn eftir vinnuafli umfram innlendu framboði myndi sveiflast en ná allt að 2.500 störfum þegar mest læti.

Haustið 2003 bættist hratt í fjölda manns við vinnu á svæðinu.

Um virkjunina og byggingu álversins stóðu deilur milli þeirra sem eru á móti spillingu umhverfisins og annarra sem telja uppbygginguna jákvæða. Segja sumir að þjóðin skiptist í tvær fylkingar, virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Fjöldamörg bréf hafa verið skrifuð í blöðin, mótmæli skipulögð og ýmsir uppákomur haldnar af þeim sem vilja vekja athygli á því að önnur atvinnustefna sem valdi ekki skaða á náttúru landsins geti verið arðbær. Deilur hafa m.a. snúist um það hvort að raforkuverðið sé of lágt, hvort áhættumat fyrir Hálslón hafi verið nægilega vel unnið, hvort rétt hefði verið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ákvörðunina að ráðast í framkvæmdina o.fl.

Þann 29. nóvember birtist í breska dagblaðinu Guardian ítarleg grein eftir blaðakonuna Susan De Muth þar sem hún fjallaði um Kárahnjúkavirkjun og fór fögrum orðum um íslenska náttúru og gagnrýndi þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að ráðast í þessa framkvæmd. Nánar tiltekið efaðist hún um hæfni þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerðar Sverrisdóttur og umhverfisráðherra Sifjar Friðleifsdóttur þar sem þær hefðu ekki menntun á tengdum sviðum. Í grein sinni vitnaði hún m.a. í rithöfundinn Guðberg Bergsson, ljóðskáldið Elísabetu Jökulsdóttur, Friðrik Sophusson, Guðmund Pál Ólafsson o.fl.[15] Viðbrögðin létu ekki á sér standa; Sverrir Gunnlaugsson, sendiherra í Englandi, skrifaði ritstjóra Guardian bréf þar sem hann undirstrikaði að lög um Kárahnjúkavirkjun hefðu verið samþykkt af yfirgnæfandi meirihluta Alþingis og lýsti óánægju sinni með hlutdræg skrif umræddar blaðakonu. Friðrik Sophusson skrifaði ritstjóranum einnig bréf þar sem hann gagnrýnindi sömuleiðis hlutdræg skrif og tilhæfulausar dylgjur um vanhæfni Valgerðar og Sifjar, sagði orkunýtingu íslenskra náttúruauðlinda vera ábyrga og sjálfbæra, bauð blaðinu aðstoð við samningu nýrrar, betur upplýstrar greinar og lét fylgja með samantekt Sigurðar St. Arnalds „Power and prejudice“. Að lokum barst ritstjóranum bréf frá Mike Baltzell, forstjóra þróunarsviðs Alcoa þar sem hann sagði umfjöllun Susans byggða á misskilningi, í greininni væru rangfærslur og að hún væri augljóslega hlutdræg.

Framvinda á vinnusvæðinu

[breyta | breyta frumkóða]
Vinnubúðir á Kárahnjúkunum.

Banaslys varð 15. mars 2004 þegar grjóthnullungur féll á ungan mann sem var að undirbúa borun í berg. Ungi maðurinn var starfsmaður Arnarfells, undirverktaka Impregilo.[16][17]

Í júlí 2004 átti verktakafyrirtækið Arnarfell lægsta tilboðið í Ufsarveitu, þ.m.t. 3,5 km löng aðrennslisgöng, þegar fyritækið bauð 1911 milljónir í verkþátt sem metinn var á 2500 milljónir. Stuttu seinna var lokið við að bora fallgöngin í Valþjófsstaðarfjalli.

Þann 11. nóvember 2004 samdi Slippstöðin ehf. á Akureyri við þýska fyrirtækið DSB Stahlbau GmbH um að stálfóðra aðfallsgöngin í Valþjófsstaðarfjalli að stöðvarhúsinu. Þetta reyndist Slippstöðinni þó of umfangsmikið verkefni og varð fyrirtækið gjaldþrota tæpu ári seinna án þess að geta lokið verkinu.[18]

Nýjar upplýsingar um jarðfræði virkjanasvæðisins

[breyta | breyta frumkóða]

Í apríl 2005 bárust fréttir af því að vinnuhópur leiddur af Freysteini Sigmundssyni, jarðeðlisfræðing hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, á vegum Landsvirkjunar hefði komist að þeirri niðurstöðu að þungi fyllts Hálslóns gæti valdið misgengihreyfingum. Þá ákvað Landsvirkjun að ráðast í frekari varúðarráðstafanir sem kostuðu 100-150 milljónir kr. Mest hætta var talin stafa af kvikuhreyfingum við Kverkfjöll.[19] Þá urðu líflegar utandagskrárumræður á Alþingi vegna þessa.[20]

Í seinni hluta júlí voru unnin skemmdarverk af mótmælendum þegar spreyjuð voru skilaboð á upplýsingaskilti og vinnuvélar og rúður í þeim brotnar. Hópur fólks sem hafði tjaldbúðir við Valþjófsstaði og hafði fengið leyfi fyrir því hjá landeiganda, Prestsetrasjóði, hlekkjaði sig við vinnuvélar. Í kjölfarið óskaði Landsvirkjun sérstaklega eftir því að löggæsla a svæðinu yrði efld. Mótmælendurnir, m.a. útlendingar, héldu því fram að lífi þeirra hafi verið stofnað í hættu þegar vinnuvélar sem þeir voru hlekkjaðir við voru gangsettar. Talsmaður Impregilo vísaði því á bug.[21]

Í nóvember 2005 kom út skýrsla náttúru- og umhverfisverndarsamtakanna WWF um virkjanir og stíflur[22] og hafði Landsvirkjun eitt og annað út á hana að setja.

Þá varð annað banaslys í mars 2006 þegar ungur starfsmaður Arnarfells lést við vinnu sína. Hann var að koma fyrir sprengiefni þegar ein sprengjan sprakk nærri honum og olli gróthruni sem hann varð fyrir. Annað banaslys varð svo viku seinna þegar undirlag vinnuvélar gaf undan og hún valt nálægt Desjárstíflu. Maðurinn sem starfaði fyrir undirverktakann Suðurverk var látinn þegar að var komið.

Í ágúst 2006 var gefin út skýrsla um þá hugsanlegu áhættu sem því fylgdi að veita vatni á Hálslón. Í umræðu hafði verið Campos Novos-stíflan í Brasilíu þar sem stíflugöng gáfu sig í júní 2006 og vatnið úr lóninu flæddi burt. Sagt var að Kárahnjúkarvirkjun væri sambærileg og að hætta væri á því þetta myndi endurtaka sig. Skýrsluna samdi nefnd sérfræðinga með Norðmanninn Kaare Hoegh og Brasilíumanninn Nelson Pinto, auk Sveinbjörns Björnssonar, eðlisfræðings innanborðs. Þeir áætluðu að vatnsleki yrði um 5 rúmmetrar á sekúndu en myndi minnka eftir því sem set þjappaðist saman í lóninu.

Lok framkvæmda

[breyta | breyta frumkóða]

Hornsteinn lagður að stöðvarhúsi

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 12. maí 2006 lagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ásamt sex grunnskólabörnum, hornstein við stöðvarhús Kárahnjúka. Með táknrænni athöfn komu þau blýhólki fyrir sem innihélt gögn um virkjunina sem skjöldur með nöfnum þeirra var lagður yfir. Stöðvarhúsi virkjunarinnar var gefið nafnið, Fljótdalsstöð við athöfn þar sem um 400 manns voru samankomin. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, flutti ræðu og séra Lára Oddsdóttir á Valþjófsstað lagði blessun sína yfir stöðina.

Í blýhólknum voru upplýsingar á blaðsformi, í minniskubbi og á geisladiski. Þar fylgdi kort af virkjununni og fram komu upplýsingar um þá opinberu starfsmenn sem að ákvarðanatöku komu þegar ráðist var í virkjunina. Upptalning á helstu kennitölum virkjunarinnar, ráðgjöfum og verktökum. Þar er einnig skjal þar sem andstæðingar virkjunarinnar rekja aðdraganda þess að ákveðið var að virkja og tekið fram að Skipulagsstofnun hafi úrskurðað gegn virkjuninni. Í skjalinu var sagt um Kárahnjúkavirkjun;

„...mestu náttúruspjöll sem hafa farið fram af mannavöldum á þessu landi. Landið sem skal sökkt undir lónið er bæði fjölbreytt og fágætt á landsvísu og heimsvísu. Þar eru einstæðar jarðmyndanir, fossar og flúðir, þar eru heimkynni hreindýra, gæsa, fálka og fleiri fuglategunda. Þar vex berjalyng upp við Töfrafoss og þar eru stuðlahlið við ármót Jöklu. Þetta var ósnortið svæði þar til ákveðið var að sökkva því fyrir bandarískt álfyrirtæki sem notaði meiri raforku en öll íslenska þjóðin. Yfirvöld komu kerfisbundið í veg fyrir að spjöllin yrðu lýðum ljós og komu þar með í veg fyrir upplýsta ákvörðun. Þúsundir Íslendinga reyndu að standa gegn framkvæmdinni og tjáðu hug sinn í orði og verki. Framkvæmdin er aðeins hluti af gömlu markmiði sem beinist að því að gera Ísland að stærstu álbræðslu í heimi. Hafi okkur ekki tekist að koma í veg fyrir þetta markmið viljum við biðja afkomendur okkar afsökunar.“.

Þar var einnig eftirfarandi ljóð eftir Njörð P. Njarðvík.

Auðnin er þögul og þegjandi tekur

þrumunnar gný er loftin skekur
en önnur sprenging sem yfir dynur
opnar sár svo að jörðin stynur.

Enn er þó ekki búið að sökkva
allífisbrekkum í vatnsins dökkva
en dalagróðurinn dapur bíður
því dauðastundin brátt að líður.

Svipmikil fjöll eru sveipuð skýjum
en svara fáu spurningum nýjum
um framtíðarjörð sem er fórnað til táls

þess fólks er metur sitt land til áls.

Vatni safnað í Hálslón

[breyta | breyta frumkóða]

28. september 2006 var lokað fyrir hjáveitugöng Kárahnjúkastíflu og þar með byrjað að safna vatni í Hálslón. Vinnu við stíflurnar sem mynda lónið er þó ekki lokið og mun halda áfram langt frameftir árinu 2007. Vatnsmagn Hálslóns jókst jafnt og þétt og var lónið orðið rétt tæpir fjórir km² á aðeins nokkrum dögum.

Í desember 2006 birti Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, svar við skriflegri fyrirspurn Kolbrúnar Halldórstóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs, um rannsóknir vegna virkunarinnar.[23]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Ræs! sagði Össur“.
  2. „Kárahnjúkavirkjun gangsett“.
  3. „Decision on Iceland aluminium plant postponed“. Sótt 22. ágúst 2006.
  4. „Mat á umhverfisáhrifum: Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW. Fyrri áfangi allt að 625 MW og síðari áfangi allt að 125 MW“. Sótt 22. ágúst 2006.
  5. „Mál 01080004: Úrskurðir umhverfisráðuneytis < Umhverfisráðuneyti < rettarheimild.is“. Sótt 22. ágúst 2006.
  6. „Kárahnjúkavirkjun, sýnd veiði en ekki gefin“. Sótt 24. ágúst 2006.
  7. „Segir engum upplýsingum um Kárahnjúkavirkjun hafa verið leynt“. Sótt 28. ágúst 2006.
  8. „Keflaðir vísindamenn“. Sótt 28. ágúst 2006.
  9. „Starfsmanni OR leyft að tjá sig um málefni Kárahnjúkavirkjunar“. Sótt 24. ágúst 2006.
  10. „2002 nr. 38 16. apríl/ Lög um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar“. Sótt 22. ágúst 2006.
  11. „Alcoa takes over Icelandic aluminium project“. Sótt 22. ágúst 2006.
  12. „Lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði“. Sótt 23. ágúst 2006.
  13. „þskj. 1067 # brtt. SJS, 128. lþ. 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði # frv. 12/2003“. Sótt 23. ágúst 2006.
  14. „Skýrsla iðnaðarráðherra um kostnað við Kárahnjúkavirkjun, þingskjal 751, 6. mars 2008“.
  15. „Power driven“. Sótt 24. ágúst 2006.
  16. „Mbl.is - Frétt - Banaslys við Kárahnjúka“. Sótt 24. ágúst 2006.
  17. „Mbl.is - Frétt - Bentu á grjóthrunshættu viku áður en banaslys varð í gljúfrinu“. Sótt 24. ágúst 2006.
  18. „Mbl.is - Frétt - Verktaki við Kárahnjúka segir upp samningi við Slippstöðina“. Sótt 24. ágúst 2006.
  19. „Jarðfræðileg vá meiri en talið var“. Sótt 28. ágúst 2006.
  20. „2005-04-14 10:31:29# 131. lþ.#F 111.#94. fundur. Umræður utan dagskrár (stíflustæðið við Kárahnjúka og nýtt áhættumat)., til 11:02:16“. Sótt 28. ágúst 2006.
  21. „Óska eftir meiri löggæslu“. Sótt 4. september 2006.
  22. „dam right“ (pdf). Sótt 4. september 2006.
  23. „222. mál fyrirspurn til skrifl. svars: Rannsóknir vegna Kárahnjúkavirkjunar“. Sótt 31. janúar 2007.