Kálfatindar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kálfatindar.

Kálfatindar eru misháir tindar upp af Hornbjargi á Hornströndum. Kálfatindarnir eru kenndir við efsta tindinn sem nefnist Kálfatindur.

Nafnið er þannig til komið, að frændur tveir bjuggu á Horni, næsta bæ við Hornbjarg. Var annar páfatrúar, en hinn hafði tekið Lúterstrú og þrættust mjög um það, hvor trúin væri betri, því hvor hélt með sinni trú. Kom þeim svo að lokum ásamt um, að þeir skyldu reyna kraft trúar sinnar. Þeir frændur áttu báðir alikálfa, og með þá fóru þeir upp á efstu gnípu bjargsins og beiddust þar fyrir. Sá, sem hafði Lúterstrú beiddi guð þríeinan um að bjarga kálfi sínum, og hinn beiddi Maríu mey og alla helga menn að varðveita kálfinn sinn. Var svo kálfunum báðum hrundið ofan fyrir bjargið.

Þegar að var komið fyrir neðan bjargið var kálfur þess, sem Lúterstrú hafði, lifandi og var að leika sér í fjörunni, en hinn var horfinn, svo að ekki sást eftir af honum nema blóðslettur einar. Játaði þá páfatrúarmaðurinn, að Lúterstrú væri betri, og snerist til hennar. Síðan heitir þar Kálfatindar, sem kálfinum var hrundið fram af.

  Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.