Fara í innihald

Julia Kristeva

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Julia Kristeva árið 2008.

Julia Kristeva (fædd 24. júní 1941) er franskur heimspekingur, bókmenntafræðingur og táknfræðingur. Hún fæddist í Sliven í Búlgaríu en hefur búið og starfað í Frakklandi frá 7. áratug 20. aldar þar sem hún er einn af helstu höfundum póststrúktúralismans. Hún lærði við nokkra franska háskóla, meðal annars hjá Lucien Goldmann og Roland Barthes. Árið 1967 giftist hún rithöfundinum Philippe Sollers sem var einn af stofnendum bókmenntatímaritsins Tel Quel. Hún lærði sálgreiningu á 8. áratugnum og notar hana víða í verkum sínum, einkum þeim sem fjalla um tilurð sjálfsins. Verk hennar spanna vítt svið frá bókmenntafræði og heimspeki yfir í menningarfræði, sálfræði, kynjafræði og listfræði. Lykilhugtök í verkum hennar eru textatengsl, úrkast, hið táknlæga og kóra.

Kristeva er oft talin ein af forvígiskonum franska femínismans ásamt Simone de Beauvoir, Hélène Cixous og Luce Irigaray með áherslu á líkamann og tungumálið, þótt afstaða hennar til femínismans hafi líka sætt gagnrýni.[1][2] Hún hefur gagnrýnt sjálfsmyndarpólitík fyrir að taka hópvitund fram yfir sjálfsvitund, sem hún tengir við alræði.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Griselda Pollock, Encounters in the Virtual Feminist Museum. Routledge, 2007.
  2. Humm, Maggie, Feminism and Film. Indiana University press, 1997. ISBN 0-253-33334-2
  3. Riding, Alan, Correcting Her Idea of Politically Correct Geymt 2 maí 2017 í Wayback Machine. New York Times. 14. júní, 2001
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.