Fara í innihald

Joshua A. Norton

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norton keisari í fullum skrúða.

Joshua Abraham Norton (u.þ.b. 1818 – 8. janúar 1880), einnig þekktur sem Norton keisari, var íbúi San Francisco í Kaliforníu sem lýsti sig árið 1859 „Norton 1. keisara Bandaríkjanna og verndara Mexíkó.“

Norton fæddist í Englandi og ólst að mestu upp í Suður-Afríku. Eftir að móðir hans dó árið 1846 og faðir hans árið 1848 sigldi Norton vestur á bóginn og kom til San Francisco, hugsanlega í nóvember 1849. Í fyrstu vann Norton sem athafnamaður en auðæfi hans glötuðust eftir misheppnaða fjárfestingu hans á hrísgrjónarækt í Perú.

Norton hvarf úr athafnalífinu eftir að hann tapaði málssókn þar sem hann reyndi að ógilda hrísgrjónafjárfestinguna. Hann birtist aftur í september 1859 þegar hann gerði tilkall til stöðu keisara Bandaríkjanna. Þótt hann hefði engin pólitísk völd né áhrif fyrir utan þau sem íbúarnir eftirlétu honum varð hann mjög vinsæll í San Francisco og gjaldmiðill í hans nafni var jafnvel leyfilegur hjá fyrirtækjum sem hann átti viðskipti við. Þótt margir teldu Norton geðveikan eða í meira lagi sérvitran fögnuðu íbúar San Francisco konunglegri nærveru hans og tilskipunum, eins og þeirri að leysa ætti upp Bandaríkjaþing með valdi, byggja brú frá San Francisco til Oakland og göng undir San Francisco-flóann. Löngu eftir dauða Nortons voru svipuð mannvirki byggð og hafa margar tillögur borist um að endurnefna brúna „Brú Nortons keisara.“

Þann 8. janúar 1880 hneig Norton niður við gatnamót Kaliforníu- og Dupontstræta og lést áður en hægt var að veita honum læknisaðstoð. Um 30.000 manns flykktust út á götur San Francisco til að votta keisaranum virðingu sína við útför hans. Norton hefur birst eða verið getið í skáldverkum eftir Mark Twain, Robert Louis Stevenson, Christopher Moore, Morris og Goscinny, Selmu Lagerlöf og Neil Gaiman.