Fara í innihald

Jomo Kenyatta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jomo Kenyatta
Kenyatta árið 1966.
Forseti Keníu
Í embætti
12. desember 1964 – 22. ágúst 1978
VaraforsetiJaramogi Oginga Odinga
Joseph Murumbi
Daniel arap Moi
ForveriElísabet 2. (sem drottning)
EftirmaðurDaniel arap Moi
Forsætisráðherra Keníu
Í embætti
1. júní 1963 – 12. desember 1964
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
ForveriFyrstur í embætti
EftirmaðurRaila Odinga (2008)
Persónulegar upplýsingar
FæddurÍ kringum 1897
Nginda, bresku Austur-Afríku
Látinn22. ágúst 1978 (80–81 árs) Mombasa, Keníu
StjórnmálaflokkurKANU
MakiGrace Wahu (g. 1919)
Edna Clarke (1942–1946)
Grace Wanjiku (d. 1950)
Ngina Kenyatta (g. 1951)
Börn8; þ. á m. Uhuru
HáskóliUniversity College London
London School of Economics
StarfStjórnmálamaður

Jomo Kenyatta (f. kringum 1897; d. 22. ágúst 1978) var kenískur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Keníu frá 1963 til 1964 og síðan fyrsti forseti Keníu frá 1964 til dauðadags árið 1978. Kenyatta var fyrsti innlendi stjórnarleiðtogi landsins en hafði áður verið leiðtogi í sjálfstæðisbaráttu Keníu undan breska heimsveldinu. Hann var leiðtogi Hins afríska þjóðarsambands Keníu (KANU) frá 1961 til dauðadags.

Sonur Kenyatta, Uhuru, var forseti Keníu frá árinu 2013 til ársins 2022.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Fæðingardagur Jomo Kenyatta er ekki þekktur, en árið 1961 sagðist hann vera 71 árs. Nafn hans við fæðingu var Kamau wa Ngengi.[1] Kenyatta var úr þjóðernishópi Kíkújúa og gekk á barnsaldri í skóla í heimaþorpi sínu. Árið 1907 hóf hann að starfa í eldhúsi trúboðsstöðvar skosku kirkjunnar í Kíkújúhéraði. Hann stundaði jafnframt nám við trúboðsstöðina og aðstoðaði við að þýða Biblíuna á kíkújúmál. Í ágúst árið 1914 var hann skírður undir nafninu Johnstone Kamau.[2]

Kenyatta vann sem túlkur við hæstarétt í Naíróbí frá 1920 til 1930 og síðar hjá vatnsveitunni. Á þessum tíma festist nafnið Kenyatta við hann vegna perlubeltis sem hann klæddist jafnan, en kenyatta þýðir „belti“ á kíkújúmáli. Hann tók síðar upp eiginnafnið Jomo, sem merkir „brennandi spjót.“[1] Kenyatta gekk á þessum árum í Miðsambandið, samtök róttæklinga sem aðallega voru af kíkújaþjóðerni, og ferðaðist á vegum þeirra til Lundúna árið 1928 til þess að leggja umkvartanir samtakanna fyrir breska þingið.[2] Þrátt fyrir fylgi Frjálslynda flokksins, sem hafði fengið áhuga á nýlendumálum, í Lundúnum fékk Kenyatta ekki áheyrn hjá breska nýlendumálaráðherranum. Kenyatta heimsótti jafnframt Sovétríkin sama ár en varð ekki fyrir áhrifum af heimsókn sinni þangað og aðhylltist aldrei kommúnisma.[3]

Kenyatta fór aftur til Bretlands árið 1931 og gekk þar í háskóla, meðal annars í London School of Economics. Hann hafði jafnframt gengið í Moskvuháskóla á meðan hann dvaldi í Sovétríkjunum.[4] Á meðan Kenyatta bjó í London tók hann próf í mannfræði og skrifaði bókina Facing Mount Kenya, þar sem hann fjallaði um menningu og siði Kíkújúa og gerði grein fyrir umkvörtunum þeirra af bresku nýlendustjórninni.[2] Hann hélt jafnframt fyrirlestra og vann sem landbúnaðarverkamaður í Sussex. Árið 1945 aðstoðaði hann Kwame Nkrumah, W. E. B. Du Bois og George Padmore við skipulagningu Stór-Afríkuþingsins í Manchester.[3]

Kenyatta sneri aftur til Keníu árið 1946 og varð þar skólastjóri kennaraskóla, auk þess sem hann varð leiðtogi Afríkusambands Keníu (e. Kenya African Union), sem hafði tekið við af Miðsambandinu.[2] Meðal stefnumála samtakanna voru hærri laun, jafnrétti kynþáttanna og skipting stórjarða. Þegar Mau Mau-uppreisnin gegn bresku nýlendustjórninni hófst árið 1952 var Kenyatta umsvifalaust handtekinn og dæmdur í sjö ára fangelsi. Uppreisninni lauk árið 1956 en þá höfðu um 11.500 uppreisnarmenn verið drepnir.[4]

Stjórnartíð í Keníu (1963–1978)[breyta | breyta frumkóða]

Stytta af Jomo Kenyatta í Naíróbí.

Árið 1960 ákvað breska stjórnin að leyfa lýðræðislegar kosningar í Keníu. Þrátt fyrir að Kenyatta sæti enn í fangelsi vann flokkur hans, Hið afríska þjóðarsamband Keníu (e. Kenya African National Union eða KANU), stórsigur í kosningunum. Kenyatta var sleppt úr fangelsi hálfu ári síðar og árið 1963 varð hann fyrsti forsætisráðherra hins nýsjálfstæða ríkis Keníu. Nákvæmlega einu ári síðar, þann 12. desember 1964, varð Kenía lýðveldi og Kenyatta varð þjóðhöfðingi sem fyrsti forseti Keníu.[4]

Stuttu áður en Kenía varð lýðveldi hafði eini stjórnarandstöðuflokkur landsins, Hið afríska lýðræðisbandalag Keníu (e. Kenya African Democratic Union; KADU) leyst sjálfan sig upp og sameinast KANU. Því varð KANU eini stjórnmálaflokkur landsins og landið varð í reynd flokksræði þegar Kenyatta lét banna flokksstarf kenískra kommúnista.[4]

Ólíkt leiðtogum í mörgum grannríkjum Keníu, sem innleiddu sósíalisma eftir sjálfstæði undan nýlenduherrum sínum, hélt Kenyatta að mörgu leyti í stjórnarhætti að evrópskri fyrirmynd. Hann sneið efnahagskerfið að kapítalisma í evrópskum stíl og lagði áherslu á að laða erlent fjármagn til Keníu. Kenyatta reyndi jafnframt að vinna sér fylgi allra þjóðarbrota í Keníu, sem eru að minnsta kosti sjötíu talsins.[5]

Á stjórnartíð Kenyatta naut Kenía stöðugleika og tiltölulegrar velsældar miðað við nágrannalönd sín.[6] Kenyatta hafði sterk tök á þjóð sinni og var gjarnan álitinn landsfaðir Keníu, auk þess sem hann gekk undir heiðurstitlinum Mzee.[7] Aftur á móti varð stjórn Kenyatta alræmd fyrir frændhygli og spillingu. Hann lét ættingjum sínum eftir mikil völd í ríkisstjórn landsins sem þeir beittu til þess að safna auðæfum í eigin vasa.[8]

Á síðustu stjórnarárum Kenyatta þótti ýmislegt snúast á verri veg í Keníu vegna mikillar spillingar, auk þess sem óvissa jókst um það hvernig framtíð landsins yrði eftir andlát aldraðs forsetans. Eftir óeirðir sem brutust út í héruðum Luo-þjóðarbrotsins árið 1969 taldi Kenyatta sér ekki óhætt að fara þangað lengur og sendi því varaforseta sinn í opinberar erindagjörðir á þau svæði. Kenyatta hafði valið Daniel arap Moi sem varaforseta sinn árið 1967 og grundvallaði val sitt meðal annars á því að Moi tilheyrði einum minnsta þjóðflokki landsins. Kenyatta hugsaði sér kerfi þar sem forseti Keníu kæmi alltaf úr röðum Kíkújúa en varaforsetinn yrði úr öðrum þjóðflokki. Raunin varð önnur því Kenyatta lést í embætti árið 1978 og Moi tók við forsetaembættinu í samræmi við kenísk lög.[5]

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta eiginkona Kenyatta var Grace Wahu, sem hann kvæntist árið 1919 en hætti samvist með honum þegar hann flutti til Bretlands. Þau eignuðust tvö börn, Peter Mugai og Margaret. Hann kvæntist enskri konu, Ednu Clarke, á meðan hann bjó í Bretlandi. Þau eignuðust einn son, Peter Magana, en hann kom aldrei til Keníu heldur bjó hann í Bretlandi og vann hjá BBC.[8] Aðspurður sagðist Kenyatta sjálfur stunda fjölkvæni, þótt hann kallaði það ekki því nafni.[2] Hann kvæntist þriðju konu sinni, Grace Wanjiku, eftir að hann sneri heim til Keníu en hún lést úr barnsförum árið 1950. Dóttir þeirra, Jane, lifði af. Fjórða og síðasta eiginkona Kenyatta var Mama Ngina, sem hafði talsverð áhrif á hann á meðan hann sat í forsetastól í seinni tíð. Mama Ngina efnaðist vel á tengslum sínum en varð mjög óvinsæl meðal kenískrar alþýðu og var henni kennt um ýmislegt sem aflaga fór í landinu.[8]

Ættingjar Kenyatta hlutu ýmis fríðindi á meðan hann var forseti og urðu margir vellauðugir, svo mjög að stundum var talað um Kenyatta-fjölskylduna sem „konungsætt Keníu.“[8]

Uhuru Kenyatta, sonur Jomo Kenyatta og Mama Ngina, var forseti Keníu frá árinu 2013 til ársins 2022.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „„Gamli töframaðurinn" leiddi Kenýa til sjálfstæðis“. Morgunblaðið. 22. ágúst 1978. bls. 14-15.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Kikuyumaðurinn Kenyatta“. Alþýðublaðið. 11. júní 1968. bls. 8-9.
  3. 3,0 3,1 „Menn og málefni“. Morgunblaðið. 10. ágúst 1961. bls. 5.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Leiðtogi Mau Mau fallinn frá“. Tíminn. 23. ágúst 1975. bls. 2.
  5. 5,0 5,1 Þórarinn Þórarinsson (10. ágúst 1982). „Stjórnkerfi Kenyatta að riða til falls“. Tíminn. bls. 7.
  6. David Loshak (1. nóvember 1972). „Kenya bar af grannríkjunum í Afríku“. Tíminn. bls. 7.
  7. Sam Uba (28. desember 1972). „Hvað gerist eftir daga Kenyatta“. Morgunblaðið. bls. 16.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 Þórarinn Þórarinsson (31. ágúst 1975). „Kenyatta býr vel að fjölskyldu sinni“. Tíminn. bls. 19.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
(Elísabet 2. sem drottning)
Forseti Keníu
(12. desember 196422. ágúst 1978)
Eftirmaður:
Daniel arap Moi
Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Forsætisráðherra Keníu
(1. júní 196312. desember 1964)
Eftirmaður:
Raila Odinga
(2008)