Fara í innihald

Jiddu Krishnamurti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krishnamurti árið 1910
Krishnamurti árið 1910

Jiddu Krishnamurti (12 maí 1895 – 17. febrúar 1986) var indverskur heimspekingur, fyrirlesari og rithöfundur.

Annie Besant, sem þá var forseti Theosophical Society (alþjóðahreyfingu Guðspekinga) kynntist Krishnamurti árið 1909. Hann var þá fjórtán ára og hún ættleiddi hann seinna. Árið 1911 fóru þáverandi leiðtogar Guðspekihreyfingarinnar að boða komu hins nýja mannkynsfræðara. Guðspekingar í kringum Besant voru sannfærðir um að drengurinn myndi verða andlegur kennari og mikill ræðumaður og tæki sennilega að sér hlutverki Maitreya. Í kenningum guðspekinga er Maitreya háþróuð andleg eining sem birtist reglulega á jörðinni sem kennari til að leiðbeina þróun mannkyns.[1] Stofnaður var sérstakur alþjóðlegur félagsskapur í kringum komu hans, sem kallaður var Stjarnan í austri (The Star in the East)[2], til að búa heiminn undir væntanlegt komu mannkynsfræðarans. Krishnamurti var tilnefndur sem leiðtogi félagsins. Aðild var opin öllum sem samþykktu kenninguna um komu mannkynsfræðarans.

Árið 1925 var það svo gert heyrinkunnugt að fóstursonur Besant, Krishnamurti, væri þessi nýi mannkynsfræðari. „Uppgötvunin“ og markmið hennar fengu víðtæka umfjöllun og vöktu athygli um allan heim, aðallega meðal guðspekisinna.[3] Með því hófst einnig margra ára umrót og stuðlaði seinna að klofningi Guðspekifélagsins. [4]

Krishnamurti um 1920
Krishnamurti um 1920

Það fór þó á annan hátt en guðspekingar höfðu vænst. Tuttugu árum eftir „uppgötvun“ hans, árið 1929, afneitaði Krishnamurti hlutverki sínu sem Mannkynsfræðari og leysti upp Stjörnufélagið. Hann yfirgaf að lokum Guðspekifélagið og guðspekikenninguna í heild.[5]

Krishnamurti skrifaði fjölda bóka og ferðaðist um heiminn og hélt fyrirlestra um heimspeki eftir að hann yfirgaf guðspekina og barðist ævilangt gegn hverskyns átrúnaði og kerfisbundnum lausnum á vanda mannsins. Krishnamurti taldi að það væri engin sérstök leið eða aðferð sem hægt væri að beita til að finna sannleikann um tilveruna: "Sannleikurinn er veglaust land." Hann bætir við að "Engin stofnun á sannleikann." Krishnamurti sjálfur hefur tjáð heimspeki sína sem: "Ég vil gera manninn skilyrðislaust frjálsan."[6]

Krishnamurti er af mörgum talinn merkur hugsuður og hafði meðal annars mikil áhrif á þá Halldór Laxness og Þórberg Þórðarson sem báðir fóru á fund hans á millistríðsárunum. Þórbergur sótti persónulega tvisvar upp Krishnamurti, á alþjóðaþingi guðspekinga í London og París árið 1921 og seinna hitti hann Krishnamurti í Ommen í Hollandi árið 1931. Í Meisturum og lærisveinum segir hann frá fundi þeirra í Ommen þar sem Krishnamurti hafi lýst fyrir honum varanlegu alsæluástandi sínu og segist Þórbergur hafa gengið af þeim fundi „sannfærður um að hér hefði [hann] staðið augliti til auglitis frammi fyrir þeim einkennilegasta og merkilegasta manni sem [hann] hefði hitt á lífsleiðinni.“[7] Önnur umfjöllun um Krishnamurti var þó nokkur í íslenskum blöðum og tímaritum á þessum tíma. Halldór Laxness skrifaði til dæmis um persónuleg kynni sín af Krishnamurti í greininni „Krishnamurti í Ojai-dalnum 1929“ árið 1930.[8]

Wikisource
Wikisource
Á Wikiheimild er að finna verk eftir eða um:
  • Frelsi mannsins, Kristinn Arnason þýddi, Bókaútgáfan Sæmundur, 2018, ISBN 978-9935-465-80-1
  • Margar greinar og fyrirlestra Krishnamurtis má finna í tímaritinu Skuggsjá sem kom út á árunum 1930–1938 [1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jayakar, Pupul (1986). Krishnamurti: a biography (1st ed.). San Francisco: Harper & Row. ISBN 978-0-06-250401-2. Bls xi
  2. Lutyens, Mary (1975). Krishnamurti: The Years of Awakening. New York: Farrar Straus and Giroux. bls. 20–21. ISBN 0-374-18222-1.
  3. Þórbergur Þórðarson (1987). Bréf til Láru. Mál og menning. bls. 270.
  4. Lutyens, Mary, 1983. Krishnamurti: The Years of Fulfilment. New York: Farrar, Straus and Giroux. ISBN 978-0-374-18224-3. pp. 15–19, 40, 56.
  5. Lutyens, Mary, 2017. The Life and Death of Krishnamurti. Bramdean: Krishnamurti Foundation Trust. bls. 81. ISBN 0-900506-22-9.
  6. Rodrigues, Hillary (January 1996). "J. Krishnamurti's 'religious mind'". Religious Studies and Theology. 15 (1): bls. 40–55.
  7. Þórbergur Þórðarson, Meistarar og lærisveinar, Forlagið, 2010, ISBN 978-9979-23-239-3 bls. 131.
  8. Halldór Kiljan Laxness, „Krishnamurti í Ojai dalnum 1929“, Eimreiðin 1/1930, bls. 31–48. https://timarit.is/page/4827328?iabr=on#page/n50/mode/1up/search/eimreiðin