Jacob Reenhielm

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Jacob Reenhielm (16441691), var sænskur aðalsmaður, fornfræðingur og þýðandi fornrita, þjóðminjavörður Svía 1675–1678. Hann hét Jacob Isthmenius, en tók upp nafnið Reenhielm (eða Reenhjelm) þegar hann var aðlaður, 1675.

Hann fæddist í Uppsölum. Foreldrar hans voru Isacus Isthmenius prófastur og prófessor, og Anna Gestricia. Jacob missti föður sinn ungur og giftist móðir hans þá Olof Vereliusi fornfræðingi og þjóðminjaverði, sem varð stjúpfaðir hans.

Jacob hóf ungur nám í Uppsalaháskóla og naut leiðsagnar stjúpföður síns, Olofs Vereliusar, sem leiðbeindi honum við nám í fornfræði, einkum í fornsögum og minjum frá fyrri tíð.

Jacob Isthmen ákvað að leggja fyrir sig herþjónustu og hafði náð liðsforingjatign 1675, þegar hann var aðlaður og skipaður þjóðminjavörður. Hann tók þá upp nafnið Reenhielm. Embættisveitingin var þó aðeins að nafninu til, því að stjúpfaðir hans, Olof Verelius, og fornfræðingurinn Johan Hadorph, sem gengið hafði verið fram hjá við embættisveitinguna, fóru í raun með embættið. Og þar sem Reenhielm fékk engin laun fyrir, sagði hann embættinu lausu 1678 og gekk árið eftir að nýju í þjónustu hersins. Hann tók þátt í hernaði á Skáni og í Noregi, en dró sig fljótlega í hlé og settist að á búgarði sínum Täby í Uppsalaléni. Þar dó hann 1691.

Kona hans (1669) var Anna Böllja.

Jacob Reenhielm fékkst nokkuð við útgáfustörf og þýðingar á fornritum, og er hans fyrst og fremst minnst fyrir frumútgáfuna á Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk. Bandaríski fræðimaðurinn Theodore M. Andersson fer viðurkenningarorðum um þá útgáfu í nýlegri þýðingu sögunnar (2003), og telur hana óvenjulega metnaðarfulla miðað við sinn tíma.

Hin svokallaða Lundarbók í Háskólabókasafninu í Lundi er stundum kölluð Codex Reenhielmianus, af því að Jacob Reenhielm átti hana og ritaði nafnið sitt í hana, 1682.

Þýðingar og útgáfur[breyta | breyta frumkóða]

  • Thorsteins Viikings-sons saga, på gammal Gothska, Upsalæ 1680. — Þorsteins saga Víkingssonar, texti á íslensku og sænsku. Gefið út á kostnað Olofs Rudbecks.
  • Oddur Snorrason: Saga Om K. Oloff Tryggwaszon i Norrege . . . Sammanskrefwen på gammal Swenska eller Gothiska, af Odde Munck, Uppsala 1691. — Texti á íslensku, sænsku og latínu. Skýringar Reenhielms í bókarlok voru skrifaðar 1683 (á latínu).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]