Jónmundur Halldórsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Séra Jónmundur Halldórsson (4. júlí 18749. júlí 1954) var þekktur prestur á Stað í Grunnavík, tröllvaxinn og allsérstakur persónuleiki. Af honum segir t.d. í ritum Vilmundar Jónssonar, landlæknis og í bók hins sænska myndlistamanns og rithöfundar Alberts Engström: Til Heklu. Jónmundur fæddist að Götuhúsum á Akranesi. Foreldrar hans voru Halldór Jónsson og Sesselja Gísladóttir.

Jónmundur Halldórsson útskrifaðist úr Latínuskólanum árið vorið 1896. Um haustið settist hann í Prestaskólann, þaðan sem hann útskrifaðist, kandídat í guðfræði, aldamótaárið 1900. Þann 25. september sama ár gekk hann að eiga Guðrúnu Jónsdóttur frá Eyrarkoti í Kjós. Í október sama ár vígðist hann aðstoðaprestur til sr. Helga Árnasonar í Ólafsvík og voru vígslubræður hans sr. Ólafur Briem, síðar prestur að Stóra-Núpi og æskulýðsleiðtoginn sr. Friðrik Friðriksson, stofnandi K.F.U.M og K.

Tveimur árum síðar fékk sr. Jónmundur veitingu fyrir Barði í Fljótum þar sem hann gerðist umsvifamikill bóndi og félagsmálamaður. Stofnaði m.a. pöntunarfélag, er hann stjórnaði um skeið. Árið 1915 var honum veitt Mjóafjarðarprestakall eystra, þar sem hann sat til ársins 1918. Í Mjóafirði stundaði hann sjóróðra, ásamt búskapnum. sr. Jónmundur undi sér ekki lengi eystra og sótti því um Staðarprestakall í Grunnavík, sem hann fékk veitingu fyrir vorið 1918. Þar var hann einnig um langt skeið í hreppsnefnd og oddviti, skólanefndarmaður og sat í sýslunefnd í áratugi og var einnig kennari um skeið.

Séra Jónmundur lést 5 dögum eftir áttræðisafmæli sitt.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.