Jón murtur Snorrason
Jón murtur Snorrason (1203 – 21. janúar 1231) var sonur Snorra Sturlusonar og konu hans Herdísar Bersadóttur. Í Sturlungu er sagt að hann hafi verið smávaxinn í bernsku og því verið kallaður murtur.
Þegar Jón var 17 ára sendi Snorri hann til Noregs sem gísl til að tryggja frið milli Björgvinjarkaupmanna og Íslendinga. Hann kom svo aftur þremur árum síðar og þá setti faðir hans hann til forræðis í ýmsum málum fyrir sig og virðist hafa haft traust á honum, enda þótti Jón gott höfðingjaefni. Hann var eini skilgetni sonur Snorra og átti að erfa mannaforráð hans. En þegar Jón vildi kvænast Helgu, dóttur Sæmundar Jónssonar í Odda, og bað föður sinn um fé til kvonmundar og Stafholt í Borgarfirði til ábúðar vildi Snorri ekki verða við því. Jón var mjög ósáttur við þetta og ákvað að fara til Noregs í staðinn. Snorri lét þá undan en það var um seinan, Jón fór út haustið 1229 og fór til Skúla jarls. Þar var honum vel tekið og gerðist hann hirðmaður Skúla og skutilsveinn.
Hann fór svo til Björgvinjar og þar bjuggu þeir saman í herbergi hann, Gissur Þorvaldsson mágur hans og maður að nafni Ólafur svartaskáld. Þeir voru peningalausir en virðast hafa svallað mikið. Kvöld eitt um miðjan janúar komu þeir heim
- „... úr hjúkólfinu mjök drukknir, ok var myrkt í loftinu ok ei uppgjörvar hvílurnar, en er uppkvam ljósit var Jón illa stilltr ok ámælti þjónustumönnunum.“
Ólafur varði þjónustumennina en Jón barði hann með spýtu. Gissur tók Jón og hélt honum. Ólafur hjó þá í höfuð Jóns með handöxi og hljóp svo burt. Sár Jóns virtist ekki mikið í fyrstu, hann fór í bað og sat að drykkju, en stuttu síðar hljóp illt í sárið og hann dó.
Þegar Gissur kom heim næsta sumar sór hann eið að því fyrir Snorra tengdaföður sínum að hann hefði ekki verið í vitorði með Ólafi.