Fara í innihald

Jón Sigurðsson (forseti)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jón Sigurðsson
Málverk Þórarins B. Þorlákssonar af Jóni Sigurðssyni.
Forseti Alþingis
Í embætti
2. júlí 1849 – 10. ágúst 1853
Í embætti
1. júlí 1857 – 17. ágúst 1857
Í embætti
1. júlí 1867 – 1877
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. júní 1811
Hrafnseyri í Arnarfirði á Vestfjörðum, Íslandi
Látinn7. desember 1879 (68 ára) Kaupmannahöfn, Danmörku
MakiIngibjörg Einarsdóttir (g. 1845)
ForeldrarSigurður Jónsson og Þórdís Jónsdóttir
HáskóliKaupmannahafnarháskóli
StarfRitstjóri, stjórnmálamaður
Þekktur fyrirAð vera leiðtogi íslensku sjálfstæðisbaráttunnar á 19. öld.
Undirskrift

Jón Sigurðsson (17. júní 1811 – 7. desember 1879), oft nefndur Jón forseti, var helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld. Til þess að minnast hans var fæðingardagur hans valinn sem sá dagur sem Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911 og sem þjóðhátíðardagur Íslendinga („17. júní“) þegar lýðveldið Ísland var stofnað þann 17. júní árið 1944.

Uppeldi og nám[breyta | breyta frumkóða]

Jón Sigurðsson fæddist 17. júní árið 1811 á Hrafnseyri í Arnarfirði á Vestfjörðum. Hann fæddist á Bótolfsvöku (á laugardegi). Hann var skírður í höfuðið á móðurafa sínum, Jóni Ásgeirssyni. Faðir hans var Sigurður Jónsson, prestur og móðir hans Þórdís Jónsdóttir, húsfreyja. Jón átti tvö systkini: Jens og Margréti. Margrét ól manninn á Vestfjörðum og gerðist bóndi á Steinanesi í Arnarfirði. Jens fluttist síðar til Reykjavíkur og gerðist kennari og rektor Lærða skólans. Á uppvaxtarárunum stundaði Jón nám hjá föður sínum.

Jón fluttist til Reykjavíkur átján ára gamall og tók stúdentspróf árið 1829 með ágætiseinkunn. Í Reykjavík vann hann í verslun föðurbróður síns, Einars Jónssonar, og þannig kynntist hann verðandi eiginkonu sinni Ingibjörgu, sem var dóttir Einars. Vorið 1830 réðist Jón til starfa sem biskupsritari hjá Steingrími Jónssyni, biskupi Íslands í Laugarnesi. Steingrímur átti stæðilegt bókasafn og fékk Jón afnot af því. Þar vaknaði áhugi hans á sögu Íslands og menningu.

Jón hélt til Kaupmannahafnar árið 1833 til náms og þar bjó hann til æviloka. Í fyrstu nam hann málfræði en þá fékk hann styrk frá gjafasjóði Árna Magnússonar og sneri sér að lestri íslenskra bókmennta og seinna sögu við Kaupmannahafnarháskóla. Hann lauk þó aldrei prófi. Hann vann sem málvísindamaður hjá Árnasafni. Sem slíkur var hann fenginn til að aðstoða færeyska prestinn Hammershaimb við að gera færeyskt ritmál og réð því að færeysk stafsetning tekur mið af uppruna orða miklu fremur en framburði. Þá var hann aðalmaðurinn á bak við tímaritið Ný félagsrit allan tímann sem það kom út á árunum 1841-73.

Jón var kosinn þingmaður Ísafjarðarsýslu árið 1844 og sótti hann Ísland heim á ný árið 1845 til þess að geta setið á Alþingi. Jón sat sem forseti Alþingis árin 1849-53, einn og hálfan mánuð árið 1857 og loks frá 1867–77. Viðurnefnið forseti fékk hann hins vegar vegna þess að hann var frá 1851 forseti Hafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags. Á tímabilinu sem Jón var þingmaður kom Alþingi saman annað hvert ár og stóð í sex vikur. Jón gat því búið í Kaupmannahöfn en komið heim og sótt þing. Einn helsti stuðningsmaður heima í héraði var varaþingmaður Jóns, Magnús Einarsson á Hvilft í Önundarfirði og segir í skrifum Lúðvíks Kristjánssonar, fræðimaður, að berlega sé ljóst að Magnús á Hvilft er maðurinn sem Íslendingar eiga að þakka hina traustu forystu í baklandi Jóns á Vestfjörðum og gaf honum undirstöðu til sinnar kröftugu sjálfstæðisbaráttu.

Eiginkona Jóns var Ingibjörg Einarsdóttir, sem sat í festum heima á Íslandi í tólf ár frá 1833 en þau giftust loks þegar hann kom heim á þingið 1845 þann 4. september. Nokkur aldursmunur var á hjónunum, hún var sjö árum eldri. Hjónin voru bræðrabörn eignuðust engin börn. Þau ólu upp systurson Jóns, Sigurð Jónsson, frá því hann var átta ára. Þau fluttust saman til Kaupmannahafnar og bjuggu lengst á Øster Voldgade 8 (sem núna heitir Øster Voldgade 12 (Jónshús)), en þar voru þau frá árinu 1852 til andláts Jóns 1879. Götuna kölluðu Íslendingar Austurvegg.

Sjálfstæðisbaráttan[breyta | breyta frumkóða]

Frá Danmörku átti Jón í samskiptum við fjölda Íslendinga bréfleiðis. Varðveist hafa yfir 6.000 sendibréf til Jóns frá um 870 bréfriturum. Jón var sérlega iðjusamur og tilbúinn að gera samlöndum sínum ýmsa greiða. Hann var í ágætri stöðu til áhrifa í Kaupmannahöfn og leituðu margir til hans, meðal annars til þess að biðja um lán. Fyrir vikið varð Jón vinsæll meðal Íslendinga.

Einn helsti samstarfsmaður Jóns var nafni hans Jón Guðmundsson, ritstjóri. Hann var stundum kallaður skuggi Jóns Sigurðssonar.

Alþing á að vekja og glæða þjóðlífið og þjóðarandann, skólinn á að tendra hið andliga ljós , og hið andliga afl, og veita alla þá þekkíngu sem gjöra má menn hæfiliga til framkvæmdar öllu góðu, sem auðið má verða. Verzlunin á að styrkja þjóðaraflið líkamliga, færa velmegun í landið, auka og bæta atvinnuvegi og handiðnir, og efla með því aptur hið andliga, svo það verði á ny stofn annarra enn æðri og betri framfara og blómgunar eptir því sem tímar líða fram.

Konungur Danmerkur afsalaði sér einveldi árið 1848 og við það tækifæri ritaði Jón Hugvekju til Íslendinga þar sem hann hvatti Íslendinga til baráttu fyrir sjálfstæði. Greinin birtist í Nýjum félagsritum það ár. Rök hans voru þau að við afnám einveldisins væri Ísland orðið að sjálfstæðu landi, líkt og fyrir Gamla sáttmála. Á þjóðfundinum 1851 lagði hópur Íslendinga fram mótfrumvarp við frumvarp Danakonungs um stjórnskipun Íslands. Jørgen Ditlev Trampe, stiftamtmaður Danakonungs á Íslandi, neitaði frumvarpinu framgöngu og brást þá Jón við og mótmælti framgöngu Trampe. Undir tóku viðstaddir með hinum fleygu orðum „Vér mótmælum allir“. Þessi atburður er talin marka þau tímamót að þaðan af var Jón talinn óumdeildur leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar. Eftir þjóðfundinn ganga sögur um að dönsk yfirvöld vildu ráða Jón af dögum en seinni rannsóknir benda til þess að ekkert sé til í því.[1]

Jón beitti sér fyrir verslunarfrelsi, m.a. með útgáfu ritgerðar um verslun á Íslandi sem kom út árið 1843 þar sem hann vísar í verk Adam Smiths. Þrátt fyrir afnám einokunarverslunar 1787 var verslun við aðra en þegna Danakonungs áfram bönnuð.

Á legsteini Jóns í Hólavallagarði stendur „Stein þenna reistu honum landar hans 1881“.

Jón lést 7. desember 1879 eftir langvinn veikindi. Ingibjörg eiginkona hans lést níu dögum seinna og eru þau bæði grafin í Hólavallagarði.

Minning Jóns[breyta | breyta frumkóða]

Jón á tíu króna seðli frá árinu 1928.
Jarðarför Jóns Sigurðssonar.
Krans á gröf Jóns rétt eftir 17. júní.

Húsið, sem Jón og Ingibjörg kona hans bjuggu í í Kaupmannahöfn, er á Øster Voldgade 12 (var áður númer 8) og heitir Jónshús. Það er í eigu íslensku ríkisstjórnarinnar og er rekið sem safn í minningu hans. Við Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns, er einnig rekið Safn Jóns Sigurðssonar.

Stytta af Jóni, eftir Einar Jónsson, stóð upphaflega fyrir framan Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu og var afhjúpuð 10. september 1911 af Kristjáni Jónssyni ráðherra. Styttan var flutt árið 1931 á Austurvöll fyrir framan Alþingishúsið, líkt og fyrst var lagt til og hefur verið þar síðan. 17. júní er einnig haldinn hátíðlegur þar sem minningu Jóns er haldið á lofti.

Mynd af Jóni prýðir íslenska 500 króna seðilinn. Andlit hans er einnig vatnsmerkið á öllum íslenskum peningaseðlum.

Jóns er getið í sögulegu skáldsögunni Þegar kóngur kom eftir Helga Ingólfsson.

Tilvitnanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Ráðgerðu dönsk yfirvöld að myrða Jón Sigurðsson?“. Morgunblaðið. 4. júlí 2004.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Guðjón Friðriksson. 2002. Jón Sigurðsson- Ævisaga- Fyrra bindi. Mál og menning, Reykjavík.
  • Guðjón Friðriksson. 2003. Jón Sigurðsson- Ævisaga- Seinna bindi. Mál og menning, Reykjavík.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Vísindavefurinn[breyta | breyta frumkóða]

Blaða- og tímaritsgreinar[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Þórður Sveinbjörnsson
Forseti Alþingis
(2. júlí 1849 – 10. ágúst 1853)
Eftirmaður:
Hannes Stephensen
Fyrirrennari:
Hannes Stephensen
Forseti Alþingis
(1. júlí 1857 – 17. ágúst 1857)
Eftirmaður:
Jón Guðmundsson
Fyrirrennari:
Halldór Jónsson
Forseti Alþingis
(1. júlí 1867 – 1877)
Eftirmaður:
Pétur Pétursson