Jón Kjartansson
Jón Kjartansson (20. júlí 1893, Skál á Síðu – 6. október 1962) var íslenskur stjórnmálamaður, sýslumaður og ritstjóri Morgunblaðsins.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Foreldrar Jóns voru Kjartan Ólafsson (1857 – 1900) bóndi á Síðu og móðir hans var Oddný Runólfsdóttir (1864 – 1912) húsmóðir. Hann kvæntist 22. júní 1924 Ásu Sigurðardóttur Briem (1902 – 1947). Þau áttu þrjú börn, Sigurð Briem, Guðrúnu, Höllu Oddnýju. Seinni kona Jóns var Vilborg Stefánsdóttir ( 1921 - ) og áttu þau eina dóttur, Sólrúnu. Uppeldisdóttir Jóns, dóttir Vilborgar er Steinunn Helga Lárusdóttir.
Jón tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1915 og lögfræðipróf frá Háskóla Íslands 1919.
Jón var þingmaður Vestur-Skaftafellssýslu frá 1923 til 1927 fyrir Borgaraflokkinn eldri og síðar Íhaldsflokkinn og svo frá 1953 til 1959 fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Hann var ritstjóri Morgunblaðsins frá 1924 ásamt Valtý Stefánssyni til 1947 þegar hann tók við sýslumannsembætti Skaftafellssýslu sem hann gegndi til æviloka.