Jón Jónsson á Hafsteinsstöðum
- Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið þetta nafn.
Jón Jónsson (fæddur á Hóli í Sæmundarhlíð 6. janúar 1850, dó á Hafsteinsstöðum 20. mars 1939) var íslenskur bóndi og hreppsstjóri á Hafsteinsstöðum í Staðarhreppi í Skagafirði. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi og hreppsstjóri á Hóli og kona hans Sigríður Magnúsdóttir.
Jón var elstur systkyna sinna og var því tiltölulega ungur sendur að heiman á vertíðir, einkum að Siglunesi og að Reykjum á Reykjaströnd. Hann fékk Hafsteinsstaði til ábúðar og bjó þar að mestu ásliðið 1879-1920 en þá tók Jón sonur hans við búinu. Jón þótti hagsýnn fjáraflamaður og fékk að auki góðan arf með konu sinni. Hann eignaðist því smám saman allmargar jarðir og jarðarparta um sýsluna og var á tímabili einn af mestu jarðeignamönnum í Skagafirði. Hann húsaði vel upp á Hafsteinsstöðum, sléttaði tún og girti og var forgöngumaður um bætta búskaparhætti. Í hreppstjóratíð sinni stundaði hann nokkuð málarekstur fyrir sveitunga sína og þótti slyngur málafylgjumaður. Í Skagfirskum æviskrám er honum þannig lýst að hann hafi verið lágur vexti en allþrekinn, knár og kappsfullur, skarpgreindur, fljótur að hugsa og skjótur til svars. Hann var víðlesinn og fjölfróður enda stálminnugur.
Jón var hreppsstjóri Staðarhrepps 1883-1931, hreppsnefndaroddviti 1892-1896 og sýslunefndarmaður 1886-1928. Hann var lengi áhrifamaður í héraði og var í framboði við alþingiskosningar 1900 en náði ekki kjöri. Hann var mjög sjálfstæður í skoðunum og lítill félagshyggjumaður. Jón var hagmæltur en ræktaði ekki þá hæfileika sína fyrr en á gamals aldri, eftir að hann varð blindur. Þá orti hann nokkuð sér til dægrastyttingar. Frægt er erindi hans úr lengra kvæði um Skagafjörð:
- Fagur er fjörður Skaga,
- fjöllin hans ber af öllum,
- eyjar við hafið hillir,
- hlíðarnar gróður skrýðir,
- fjölbyggðir fjórtán dalir,
- flæðilönd stærðar svæði,
- áttsett byggð varin vættum,
- vítt um kring fjallahringur.
Kona Jóns á Hafsteinsstöðum var Steinunn Árnadóttir, fædd á Ystamói í Fljótum 6. júlí 1851, dáin á Hafsteinsstöðum 29. desember 1933. Hún var dóttir Árna Þorleifssonar (1824-1889) hreppsstjóra í Ystamói og Valgerðar Þorvaldsdóttur (1834-1907) konu hans. Steinunn þótti búkona mikil og skörungur og stóð manni sínum hvergi að baki.
Börn hennar og Jóns voru:
- Valgerður 1878
- Árni 1883
- Sigríður 1885
- Jón 1888
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Skagfirskar æviskrár I. Sögufélag Skagfirðinga 1964, bls. 163-2-164.