Fara í innihald

Jón Hannesson Finsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Hannesson Finsen (25. mars 1792 í Skálholti - 8. október 1848 í Árósum) var kansellíráð í hinu danska kansellíi. Hann gegndi einnig ýmsum öðrum embættum í Danmörku, t.d. sem héraðsfógeti í Kolding, bæjarfógeti í Ringköbing, héraðsfógeti í Árósum. Hann var kansellíráð að nafnbót. Hans er einna helst minnst fyrir ræðu sem hann hélt á Véborgarþingi 1848 og er hluti af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Jón var sonur Hannesar Finnssonar biskups. Hann naut tilsagnar Árna Helgasonar í æsku (sem síðar varð stiftprófastur í Görðum og átti systur Jóns, Sigríði Hannesdóttur, að síðari konu). Jón lærði allan skólalærdóm í Odda hjá Steingrími Jónssyni, síðar biskupi, stjúpa sínum sem útskrifaði hann árið 1812. Eftir fjögra ára nám við Kaupmannahafnarháskóla varð hann kandídat í lögum (1816), gerðist síðan aðstoðarmaður í kansellíinu og kansellíritari uns hann varð héraðsfógeti i Kolding, fyrst settur (1819), en síðan skipaður (1824). Árið 1830 varð hann bæjarfógeti í Ringköbing og loks árið 1844 héraðsfógeti i Árósum. Þar andaðist hann 1848. Kona hans var dönsk ekkja, kaupmannsdóttir frá Kolding, Dorothea Katrine Bruun. Eignuðust þau 10 börn, en aðeins 6 þeirra náðu fullorðinsaldri: fjórir syni og tvær dætur. Af börnum Jóns kemur sonurinn Sören Hilmar Steindór Finsen einn allmikið við sögu Íslendinga, þar sem hann dvaldi úti sem æðsti embættismaður landsins í full 18 ár. Áður en hann kom til Íslands hafði Hilmar Finsen gegnt ýmsum lögfræðilegum embættum í Danmörku, og síðast, á árunum 1850-1864, verið borgmeistari í Suðurborg á eynni Als. Þaðan var hann rekinn af Þjóðverjum 1864 og fluttist hann ári síðar til Íslands sem stiftamtmaður.

Jón Finsen var mjög vel liðinn fyrir sakir skyldurækni í embætti, en þó einkum orðlagður fyrir ljúfmennsku við hvern, sem í hlut átti. Framkoma hans á Véborgarþingi 1848, þar sem hann mótmælti því einarðlega, að Íslendingum væri meinað að kjósa sjálfir fulltrúa sína á grundvallarlagaþingið, var talið sýna hversu honum rann blóðið til skyldunnar þegar íslensk mál voru annars vegar.

Á Véborgarþingi

[breyta | breyta frumkóða]

Á þingi í Véborg (Viborg) í Danmörku árið 1848 helt Jón langt erindi og sýndi fram á hve ósanngjarnt það væri að gefa Íslendingum ekki kost á að kjósa sjálfir menn til að halda svörum uppi fyrir sig á stjórnlagaþinginu. Og yrði þessu ekki komið við tímans vegna, svo frábærlega sorglegt sem það væri, þá kvaðst hann skjóta því til réttlætistilfinningar þingmanna að fara þó að minsta kosti einhverjum góðum orðum um þetta í álitsskjali sínu svo að það lýsti sér, að það væri ekki vilji þingmanna að framvegis væri farið með Íslendinga eins börn eða ómaga. Aðeins einn maður varð til þess að mæla með þessu, og var tillagan feld með miklum atkvæðafjölda.