Fara í innihald

Jóhannes postuli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Örn, tákn Jóhannes guðspjallamanns. Fílabeinsskurður frá tíma Karlunga
Örn, tákn Jóhannes guðspjallamanns. Fílabeinsskurður frá tíma Karlunga

Jóhannes postuli[1] (hebreska יהוחנן (Yəhôḥānān, „Drottinn er náðugur“), forngríska Ιωάννης (Iōánnēs), latína (Ioannes)), einnig nefndur Jón postuli, var einn af tólf postulum Jesú samkvæmt Nýja testamentinu. Jóhannes var bróðir Jakobs sem var annar af postulunum tólf. Þeir voru synir Sebedeusar og Salóme. Þeir bræður voru eins og Pétur og Andrés fiskimenn frá Galíleu. Bræðurnir Jakob og Jóhannes hlutu viðurnefnið Boanerges eða þrumusynir.

Þeir bræður og Pétur postuli mynduðu eins konar innsta hring postulanna í kringum Jesú og hann kallaði þá til að fylgja sér í grasgarðinn Getsemane. Jóhannes er sennilega líka sá sem í Jóhannesarguðpjalli er nefndur lærisveinninn sem Jesús elskaði og hallaðist að brjósti hans við hina síðustu kvöldmáltíð.

Jóhannes og Jesú. Þýsk tréstytta frá 14. öld
Jóhannes og Jesú. Þýsk tréstytta frá 14. öld

Jóhannes postuli er af hefð talinn vera höfundur Jóhannesarguðspjallsins, Opinberunarbókinnar og þeirra þriggja bréfa sem kennd eru við hann í Nýja testamentinu. Minnihluti nútíma sagnfræðinga og guðfræðinga telja að hann hafi skrifað guðspjallið,[2] og margir álykta að hann hafi ekki skrifað neitt af verkunum sem kennd eru við hann. [3]Á sama veg og með önnur guðspjöll er enginn höfundur upphaflega skráður fyrir guðspjalli Jóhannesar. Kirkjuhefðin vill gjarnan líta á Jóhannes sem höfund því það gerir það að verkum að guðspjallið gæti þá verið skrifað af sjónarvotti. En flestir fræðimenn eru sammála um að öll þrjú bréfin hafi verið skrifuð af sama höfundi og að bréfin hafi ekki haft sama höfund og Opinberunarbókin. Umdeilt er hins vegar hvort guðspjallið hafi sama höfund og bréfin. Nútíma biblíufræðingar álíta að ekki sé hægt að tengja neinn sérstakan einstakling sem höfund guðspjalls Jóhannesar.[4]

Jóhannesarguðspjall er til orðið meira en hálfri öld eftir dauða og upprisu Jesú og áreiðanlega eftir að Rómverjar bældu niður uppreisn Gyðinga og eyðilögðu musterið í Jerúsalem árið 70 e. Kr. Upp frá því var þeim Gyðingum, sem orðnir voru lærisveinar Jesú, bannað að sækja samkundurnar. Jóhannes nefnir þetta á þremur stöðum í guðspjallinu (9.22-23; 12.42; 16.1).[5]

Kristin myndlist sýnir Jóhannes venjulega sem ungan mann, þar á meðal þegar hann stendur við hlið Maríu undir krossi Jesú eða liggur við hlið Jesú í síðustu kvöldmáltíðinni. Hann er sá eini af lærisveinunum sem er sýndur skegglaus. Sem guðspjallamaður er hann hins vegar sýndur sem gamall maður enda segir kirkjuhefðin að hann hafa skrifað guðspjallið í Efesu í hárri elli.

Einkenni Jóhannesar er örn.

Óvíst er um örlög Jóhannesar, helgisögur segja Jóhannes hafa náð mjög háum aldri og verið biskup í Efesus þar sem hann endaði ævi sína sem píslarvottur í ofsókn Dómitíuanusar keisara á 10. áratug fyrstu aldar.

Hátíð Jóhannesar er 27. desember, Jónsdagur eða Jónsmessa í jólum.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Einar Sigurbjörnsson (september 2012). „Hvað hétu lærisveinar Jesú?“. Vísindavefur.
  2. Harris, Stephen L. (1985). Understanding the Bible: a Reader's Introduction. Palo Alto: Mayfield. bls. 355. ISBN 978-0-87484-696-6.
  3. Kruger, Michael J. (2012). Canon Revisited: Establishing the Origins and Authority of the New Testament Books. Crossway. bls. 272. ISBN 9781433530814.
  4. Ehrman, Bart D. (2004). The New Testament. Oxford University Press,. bls. 58–59. ISBN 0-19-515462-2.
  5. „Jóhannesarguðspjall“.